Ælupest dagsins

Var það ekki í fyrra haust sem þættirnir um íslenska glaumgosann voru í sjónvarpinu? Einhver lúði frá Akureyri var sendur í klippingu og ljós og nokkrar dindilhosur slógust um hann í margar vikur, spyrjið mig ekki af hverju.

Allavega, ég man að þegar dömurnar voru beðnar að lýsa sjálfum sér, sögðu nokkrar þeirra „ég er skemmtileg“ eða jafnvel „ég er fyndin“. Aldrei fyrr né síðar hef ég kynnst fyndinni manneskju, sem þarf að segja frá því hvað hún sé fyndin til þess að fólk fatti það. Ég efast líka stórlega um að nokkur verulega falleg kona myndi senda einhverjum mynd af sér ásamt skilaboðunum, „ég er mjög falleg“. Það sést nefnilega alveg.

Fólk sem hefur umræður um viðkvæm málefni þannig „ég er ekki með fordóma en…“ er venjulega jafn fordómafullt og dindilhosurnar úr þessu hallærislega sjónvarpsþætti eru lítið fyndnar. Og sá sem segir „ég er sko ekki snobbaður“, en gefur um leið í skin að hann hafi reyndar mjög góðar ástæður til að vera snobbaður og heldur að það að snobba niður á við beri vott um snobbleysi, það er sko snobbhani af verstu sort.

Afsakið mig meðan ég æli.