Ég er nokkuð sátt við aðgerðina í morgun. Síðast vorum við um 25, í dag vorum við um 200. Ráðherrar laumuðust inn bakdyramegin. Kannski tekst okkur að stöðva þá alveg næst. Enginn handtekinn í þetta sinn. Löggan er að læra. Ósköp hlýtur þeim mörgum að líða illa yfir því að ´þurfa´ að bögga okkur frekar en bófana. Ég spái því að á þorranum muni nokkrir lögreglumenn segja af sér og ganga til liðs við okkur.
Bankaaðgerð fyrirhuguð á morgun. Mæting á Austurvelli kl. 9:00.
——————————————————–
Löggan er að læra segirðu – en annað sýnist mér um einhverja kollega þína. Þeir voru ekkert sérstaklega orðfagrir eða mæðrum sínum til mikils sóma piltarnir sem ég sá ekki betur í fréttatímanum en væru að reyna að „snapa fæting“ við lögguna. Fíblagangur! Og enn eina ferðina; þetta „fela andlitið stunt“ er skot beint í fótinn. Mér er nokk sama hvernig þeir sjá þetta sem gera það – út á við virkar þetta sem heigulgsháttur – svona lagað gera bara gungur og druslur (svo vitnað sé í Steingrím Jóhann). Ég er ánægður með að þú stendur þarna stolt og felur þig ekki bakvið neitt (eins og sem betur fer allnokkur hluti mótmælenda) – þó ég botni ekkert í þér að finnast þetta rétt og eðlileg aðferð við að mótmæla.
Sjálfur mótmæli ég með fótunum eins og það er kallað – tek á mig krók til að forðast að verla við baugskyns fyrirtæki osfrv. Og mun mótmæla með atkvæðinu mínu þegar kemur að kosningum. En ég hef nógu sterka trú á lýðræðinu til að trúa að þeir seku í þessu máli verði dregnir til saka og það verði skipt um ca. alla forystu stjórnmálaflokkanna allra. Því þeir voru jú allir að klúðra þessu – kannski þó samfylkingin dýpst sokkin.
Posted by: jón Kjartan Ingólfsson | 17.12.2008 | 0:42:42
——————————————————–
Chacun son truc (hver hefur sinn háttinn á). Aðalmálið er að virða rétt allra til að tjá sig og setja sig ekki á háan hest gagnvart þeim sem tjá sig á annan hátt en maður sjálfur. Annars er ég spennt að heyra betur af sniðgöngu, hvernig er hægt að sniðganga stóru grúppurnar hér á Íslandi? Það er ekki einu sinni hægt í Frakklandi.
Posted by: Kristín | 17.12.2008 | 7:10:05
——————————————————–
Þú kallar það að ‘snapa fæting’ að reyna að troða sér fram hjá löggunni þegar hún er að tryggja hundtíkum útrásarbófanna næði til að fremja enn frekari hryðjuverk gegn afkomumöguleikum venjulegs fólks. Á meðan gegna fjárglæframenn gegna valdastöðum í bankakerfinu og mennirnir sem eru að gera okkur gjaldþrota sitja á illa fegnum auði. Í þessu tilviki eins og öllum öðrum sem ég hef orðið vitni að er það ‘lögreglan’ svokallaða sem hefur átök. Mér finnst í góðu lagi að nota fjúkyrði ef fólk er slegið í bakið (en það er væntanlega það myndband sem þú ert að vísa til) en þar fyrir utan þá er engin lögregla á Íslandi í dag. Þetta fólk er ekki að gæta þess að farið sé að lögum, heldur að vernda glæpamenn og það er engin ástæða til að sýna slíkri stofnun minnstu virðingu.
Ég held að ég hafi áður útskýrt pólitískan tilgang með því að hylja andlit sitt og það hvernig það virkar út á við fer nú bara algjörlega eftir því hvort fólk er farið að venjast því eða ekki. Ég hef ekki hulið andlit mitt sjálf og held að héðan af skipti það ekki máli af því að ég þekkist hvort sem er.
Það hefur sína kosti að þekkjast. Ég hef t.d. fengið greiðan aðgang að fjölmiðlum. Ég álít mikilvægt að rödd aðgerðasinna heyrist opinberlega (það eru ekki allir sammála mér) og mér lætur vel að tala. Á hinn bóginn er hættan sú að athyglin beinist frá málstaðnum og að einstaklingnum og fyrir mig eru afleiðingarnar bæði þær að fólk á það til að setja mig á stall sem ég kæri mig ekki um og einnig hef ég orðið fyrir ógnunum og árásum á einkalíf mitt. Ég þoli þetta alveg en það er ekki fyrir alla.
Þú ætlar að bíða í 3 ár eftir að fá náðarsamlegast að mótmæla með einum krossi á blað. Ekki þykir mér það djarfmannlegt. Ef fjöldinn hefur þinn baráttuanda verðum við búin að missa sjálfstæði okkar þegar að þeim mótmælum kemur.
Posted by: Eva | 17.12.2008 | 7:39:12
——————————————————–
Munurinn á stöðu ykkar aðgerðarsinna og lögreglu t.d. við ráðherrabústaðinn er að þið hafið hug á að koma í veg fyrir að ráðherrrarnir komist til starfa meðan lögreglunni ber hinsvegar skylda til að tryggja að þeir geti það. Þeir hvorki mega né geta látið ykkur komast upp með það sem þið ætlið ykkur að gera – en það eru að vísu sterk mótmæli að láta það svona berlega í ljós að þetta sé ykkar ætlan. En þið megið ekki ýta of fast – því þeir hvorki mega né geta látið undan. Hve ósátt sem við erum við vinnubrögð stjórnvalda þá er þessi hópur fólks það fólk sem hefur verið falið að stjórna landinu. Og partur af skyldum lögreglu er að gæta öryggis stjónvalda ef þeim er mögulega hætta búin.
Og ég hef nákvæmlega enga trú á að það séu 3 ár í næstu kosningar. Það er allt á suðupuntki innan allra flokka, fólk að vinna í að stofna nýja flokka ómengaða af þessu sulli osfrv. Stjórnin springur innan skamms og það verður
kosið í vor eða sumar – hef trú á því.
Posted by: Jón Kjartan Ingólfsson | 17.12.2008 | 21:31:57