Guðshugmyndin gengur ekki upp

Þessi færsla tilheyrir pistlaröð.

Ástæðan fyrir því að ég trúi ekki á hið yfirskilvitlega er sú að hugmyndin er óþörf og skýrir ekkert. Önnur ástæða fyrir því að ég er trúlaus er sú að Guðshugmyndin sjálf er þversagnakennd og gengur ekki upp rökfræðilega. Hugmyndin um alveldi, alvisku, almætti og algæsku Guðs er jafn fáránleg og hugmyndin um ferhyrndan þríhyrning.

Guðshugmyndin gengur ekki upp

imagesÉg get hugsað mér heim þar sem grasið er blátt en ferhyrndur þríhyrningur er ekki bara ævintýraleg hugmynd heldur óhugsanleg.

Hugmyndin um alveldi Guðs er líka óhugsanleg. Hún stangast á við hugmyndina um frjálsan vilja mannsins. Ef Guð ræður öllu ræður hann líka því hvað ég geri. Ef hann afsalar sér valdi yfir hugsun minni og gjörðum þá er hann ekki lengur alvaldur.

Það sama er að segja um viskuna; ef Guð veit allt, veit hann líka hvaða ákvörðun ég tek á morgun. Ef hann veit það er þar með útilokað að ég geti tekið ákvörðun um það sjálf.http://www.norn.is/pistillinn/hid-yfirnatturulega-er-orokrett/

Hugmyndin um almætti er sömuleiðis þversögn í eðli sínu. Ef Guð er almáttugur, getur hann skapað stein sem er svo þungur að hann sjálfur getur ekki lyft honum. Þar með er hann ekki lengur almáttugur. Rétt eins og þríhyrningur er ekki lengur þríhyrningur ef hann hefur fjögur horn.

Algóður Guð er á sama hátt óhugsanleg hugmynd, a.m.k. á meðan hagsmunaárekstar eru til, því ekkert hefur nokkurntíma gerst í veröldinni sem kemur sér ekki á einhvern hátt illa fyrir einhverja lífveru.

Eilífðin er hugmynd sem mannleg hugsun ræður ekki við og skýrir því ekkert

Orðin “í upphafi var orðið” sýna glögglega þörf mannsins til að staðsetja og tímasetja alla hluti. Spurningin um það hvernig heimurinn varð til er áleitin og menn einbeita sér að henni í stað þess að velta fyrir sér uppruna guðdómsins, vegna þess að einhversstaðar verðum við að láta staðar numið.

Ég held að ástæðan fyrir því að maðurinn lítur á Guð sem staðlausa veru án upphafs og endis, sé hreinlega sú að við þolum ekki endalausar vangaveltur um óendanleikann. Við búum okkur því til eina þversögnina enn; veru sem er upphaf alls og endir alls en á sér þó hvorki upphaf né endi. Guð skapaði heiminn; sú hugmynd á að friða okkur og spurningunni hvernig varð Guð þá til úr engu er ýtt til hliðar.

Mér finnst þó hugmyndin um sköpun ekki skýra neitt. Ég reyni ekki að komast til botns í eilífðinni og því hvað taki við þar sem alheiminum sleppi eða hvað verði um mig eftir dauðann. Ég tel engar líkur á því að greind mín og reynsla dugi til þess að komast að niðurstöðu og sætti mig því við að vita þetta bara ekki. Vísindin munu kannski einhverntíma varpa ljósi á þau undur. Trúin hefur ekki gert það ennþá.

 

9 thoughts on “Guðshugmyndin gengur ekki upp

Lokað er á athugasemdir.