Þessi færsla tilheyrir pistlaröð.
Ástæðan fyrir því að ég trúi ekki á hið yfirskilvitlega er sú að hugmyndin er óþörf og skýrir ekkert. Önnur ástæða fyrir því að ég er trúlaus er sú að Guðshugmyndin sjálf er þversagnakennd og gengur ekki upp rökfræðilega. Hugmyndin um alveldi, alvisku, almætti og algæsku Guðs er jafn fáránleg og hugmyndin um ferhyrndan þríhyrning.
Guðshugmyndin gengur ekki upp
Ég get hugsað mér heim þar sem grasið er blátt en ferhyrndur þríhyrningur er ekki bara ævintýraleg hugmynd heldur óhugsanleg.
Hugmyndin um alveldi Guðs er líka óhugsanleg. Hún stangast á við hugmyndina um frjálsan vilja mannsins. Ef Guð ræður öllu ræður hann líka því hvað ég geri. Ef hann afsalar sér valdi yfir hugsun minni og gjörðum þá er hann ekki lengur alvaldur.
Það sama er að segja um viskuna; ef Guð veit allt, veit hann líka hvaða ákvörðun ég tek á morgun. Ef hann veit það er þar með útilokað að ég geti tekið ákvörðun um það sjálf.http://www.norn.is/pistillinn/hid-yfirnatturulega-er-orokrett/
Hugmyndin um almætti er sömuleiðis þversögn í eðli sínu. Ef Guð er almáttugur, getur hann skapað stein sem er svo þungur að hann sjálfur getur ekki lyft honum. Þar með er hann ekki lengur almáttugur. Rétt eins og þríhyrningur er ekki lengur þríhyrningur ef hann hefur fjögur horn.
Algóður Guð er á sama hátt óhugsanleg hugmynd, a.m.k. á meðan hagsmunaárekstar eru til, því ekkert hefur nokkurntíma gerst í veröldinni sem kemur sér ekki á einhvern hátt illa fyrir einhverja lífveru.
Eilífðin er hugmynd sem mannleg hugsun ræður ekki við og skýrir því ekkert
Orðin “í upphafi var orðið” sýna glögglega þörf mannsins til að staðsetja og tímasetja alla hluti. Spurningin um það hvernig heimurinn varð til er áleitin og menn einbeita sér að henni í stað þess að velta fyrir sér uppruna guðdómsins, vegna þess að einhversstaðar verðum við að láta staðar numið.
Ég held að ástæðan fyrir því að maðurinn lítur á Guð sem staðlausa veru án upphafs og endis, sé hreinlega sú að við þolum ekki endalausar vangaveltur um óendanleikann. Við búum okkur því til eina þversögnina enn; veru sem er upphaf alls og endir alls en á sér þó hvorki upphaf né endi. Guð skapaði heiminn; sú hugmynd á að friða okkur og spurningunni hvernig varð Guð þá til úr engu er ýtt til hliðar.
Mér finnst þó hugmyndin um sköpun ekki skýra neitt. Ég reyni ekki að komast til botns í eilífðinni og því hvað taki við þar sem alheiminum sleppi eða hvað verði um mig eftir dauðann. Ég tel engar líkur á því að greind mín og reynsla dugi til þess að komast að niðurstöðu og sætti mig því við að vita þetta bara ekki. Vísindin munu kannski einhverntíma varpa ljósi á þau undur. Trúin hefur ekki gert það ennþá.
Svolítið svoleiðis Eva.
guð og jólasveinin eru ekki til ekkert meira um það að seiga
…dásamlegar pælingar!
‘Eilífðin er hugmynd’ þess að Guð sé til. Hugmyndin er ósýnileg og óáþreifanleg en samt er hún til. ‘Óhugsanleg hugmynd’? er þversögn. Hugmynd er ekki hugmynd nema hún sé hugsuð, þess vegna fyrirfinnst ekkert sem hægt er að kalla óhugsanlega hugmynd.
Þetta umræðuefni hefur verið rætt í nokkur þúsund ár; ég sé ekki að greinin bæti neinu nýju við né komi fram með neinar nýjar röksemdir. Þeir sem trúa ekki á Guð þurfa einfaldlega að skilja að trú þeirra sem trúa á Guð er byggð á upplifun. Þess vegna er ekki hægt að ræða þetta með rökhyggju eða vangaveltum um hvort að staðreyndir gangi upp eða ekki. Ég trúi á Guð út frá þeirri upplifun og reynslu sem líf mitt hefur sagt mér. Alveg eins og með ást: Einhver getur sagt að ást sé ekki til á meðan annar segir ástina vera dásamlegustu tilfinningu heimsins. Sá fyrri hefur ekki upplifað ástina en sá síðari hefur upplifað hana. Af hverju er sá fyrri að hamast í þeim síðari og reyna að fá hann til að hætta sannfæringu sinni? Engin rök duga, hann hefur einfaldlega upplifað. Alveg það sama með Guð. Ég leyfi þeim sem trúa ekki alveg að vera í friði með það og nenni ekki að pranga minni upplifun upp á aðra enda er það ekki hægt, þeir verða að upplifa sitt.
Það má náttúrulega vera að guð hafi yfirgefið svæðið til skamms (langs) tíma, eða sé ekki enn mættur 😉
Eva: Það er nytsamlegt öllujm að kynna sér ólík sjónarmið og gott að muna að það er enginn ávinningur af því að dæma ákveðna heimsmynd eða hugmyndafræði sem ónýta þó hún falli ekki að manns eigin takmörkuðu heimsmynd eða lífsskoðun. Ég ætla að reyna að útskýra fyrir þér mína sýn á þessa hluti sem þú taldir upp.
Alveldi Guðs er ekki háð okkar frjálsa vilja heldur er því öfugt farið. Ef foreldrarnir leyfa krökkunum að leika sér þá dregur það ekki úr veldi þeirra á heimilinu, slík ráðstöfun er tímabundin og ef uppvaskið býður þá er það eftir vilja foreldranna. Þetta er öllum augljóst og að reyna að snúa þessu upp í eitthvað getuleysi er mönun sem þú getur verið þakklát fyrir að Guð fellur ekki fyrir.
Það getur verið svolítið erfitt að skilja alvisku en þar sem Guð er óendanlegur þá er hann fær um að sjá fyrir alla möguleika (til að reikna út alla möguleika þyrfti óendanlega stórt reikniverk eða óendanlega öflugan huga) og veit því allt sem getur gerst, þar með talið það sem þú munt gera á morgun. Þetta getur verið erfitt fyrir marga að skilja en er á engan hátt órökrétt. Það að afmarka þann möguleika sem verður fyrir vali okkar er jafn einfalt og að taka af okkur leikfangið okkar: Frjálsa viljann. Þetta er þó ekki nauðsinlegt þar sem Guð er ekki tímaháður og aðgerðir okkar eru þegar orðnar ljósar í eilífðinni þó okkur finnist allt óráðið. Það er takmörkun tímaskyns okkar.
Það er síðan auðvelt (fyrir Guð alltént) að búa til svo stóran stein að ekki sé hægt að lyfta honum. Eina sem þarf er að hann sé þyngsti hlutur í heiminum. Þá er samkvæmt skilgreiningu ekki hægt að lyfta honum þar sem hluturinn sem þú spyrnir í mun færast meira til og þú ert því að lyfta meintri undirstöðu en ekki steininum. Þetta ástand er bundið vilja Guðs og dregur því ekki úr almætti hans frekar en okkar frjálsi vilji. Jafnvel þó að Guð leyfi þessu ástandi að vara um eilífð þá dregur það samt ekki úr almætti hans.
Þú getur heldur ekki kennt Guði um ákvarðanir sem fólk tekur með frjálsum vilja ef þú ætlar einhverju að vera til sem heitir frjáls vilji. Kristnir skilgreina gott sem það sem er samkvæmt vilja Guðs og því ómögulegt að skilgreina Guð sem neitt annað en algóðan út frá því. Annað væri rökleysa. Það að krefjast þess að Guð lagi sig að þinni skilgreiningu á „góðu“ er engin lausn þar sem sú skilgreining felur eflaust í sér fjöldan allan af mótsögnum. Er það t.d. gott að Guð taki frjálsan vilja frá fólki? Eða að hann meini fólki að læra um orsök og afleiðingu með því að afnema slæmar afleiðingar og þannig í raun afnema getu okkar til að beita frjálsum vilja til að framkvæma hluti?
„Í upphafi“ er merkileg framsetning en hefur reynst rökrétt. Með framförum í stjörnufræði á síðustu öld vorum við neydd til að horfast í augu við þá staðreynd sem upphaf hins efnislega heims er. Þetta hafði þó verið partur af kristnum skilningi og gyðinglegum þar áður í árþúsundir. Óendanleikinn sem þú segir að við eigum svo erfitt með að skilja er vel skilgreindur í kristninni þar sem Guð er óendanleikinn í öllu sínu veldi. Vísindi okkar hafa engu bætt við þann grundvallarskilning enda eru þau ekkert annað en nálgun okkar á þann óendanleika sem birtist okkur í öllu sköpunarverkinu og þar sem það er takmörkuð mynd óendanleikans þá eru vísindin takmörkuð að sama leiti. Þau eru samt gagnleg til síns brúks og ég tel rétt framkvæmd vísindi vera samþekk því að elska Guð af öllum huga. Þar væri Newton heitinn sammála mér.
Vonandi hefurðu haft gagn og gaman af þessum pælingum mínum.
Hvað var Guð að hugsa,,,,,,,,,,, þegar hann smíðaði Evu.
Guðshugmyndin er að mínum dómi ólík öllum öðrum hugmyndum; hún er ekki hugmynd sem slík, ekki skoðun okkar á heiminum, ekki frásögn eða ævintýri sem þú vegur og metur hvort standist rökræn skilyrði sannra yrðinga. Það fæst engin niðurstaða um tilvist guðs af þeirri einföldu ástæðu að guð er sjálft byggingarefni tungumálsins. Öll dýr hafa þróað með sér samskiptakerfi sem eru okkur að mestu leyti hulin, en þó vitum við að þau samskipti byggjast á allt öðru en þeirri skörpu sjálfsvitund sem er eiginleiki okkar. Það virðist sem vöxtur tungumálsins í þróunarsögu okkar sé samofinn aðskilnaði okkar frá náttúrunni. Til sannindamerkis um það er afstaða okkar gagnvart tímanum sem er órofa straumur, en tungumálið stöðvar án þess við beinlínis kjósum það. En sjóður minninganna er á vissan hátt gjöf tungumálsins, rétt utan við orðleysið allt um kring. Við hugsum um hamingjuna, við hugsum um ofbeldið, við hugsum um dauðann, orðin hvarfla að okkur, en hver eru þessi orð?
Ekki nóg með það, í farvegi tungumálsins verður til síbreytileg heimsmynd. Þær hafa allnokkrar orðið til á vegferð manneskjunnar. Það sem er sameiginlegt þessum heimsmyndum er frásögnin sem er inngróin í tungumálið. Mér finnst stundum einsog heimsmynd okkar sé ekki að öllu leyti niðurstaða vísinda, heldur líkist hún fremur skáldlegri hugmynd. Nú hyllir undir nýja heimsmynd þar sem eindir efnisins voru ranglega kallaðar eindir. Við þóttumst sjá þær fyrir okkur í skólastofunni. Slíkar eindir fyrirfinnast ekki og voru aldrei til. Massi hlutanna samanstendur af óútreikanlegum tengslum á orkusviði efnisins, sem eru stöðug breytileg eftir afstöðu rannsakandans. Sérðu ekki að með árásinni á guð, þá gröfum við undan merkingarheimi okkar?
Tungumálið í sinni víðustu mynd sem ávöxtur skarprar sjálfsvitundar hamalar því að við sjáum heiminn einsog hann er, þaðan er heimspeki okkar sprottin. En við skyldum ekki ímynda okkur að guð eigi sér ekki margbreytilegri myndir á langri vegferð okkar. Guð hýsir veru okkar, hann er ekki hugmynd. Tungumálið veitti okkur afl sem í grunninn er ef til vill blekkingarfyllst af öllum samskiptamynstrum sem lífveran hefur þróað. Án guðs félli allt með grimmu öskri, en síðan ljúflega í ösku orðleysis.