Tilbrigði við barnagælu

Litli gimbill, landið mitt,
liðið er bráðum sumrið þitt
nú mega sandar svíða
lappir og haus á lambinu mínu fríða.

Gimbilinn skal nú skera og flá,
skinnið hans saltar hélan grá.
Leitar sér fleiri lamba,
Landsvirkjun inn í Ver með kuta og kamba.

Litli gimbill, landið mitt,
látum virkja blóðið þitt
svo Evrópa megi úr áli,
framleiða fleiri vopn handa Pétri og Páli.

Nú er kátt í hverjum hól
kjötið má reykja fyrir jól.
Una því ánægð börnin.
Arfurinn þeirra er gollurinn og görnin.

Litli gimbill, landið mitt,
þótt leggist rotta á hræið þitt
og éti með tryggðatröllum,
klingir kátt í sjálfstæðissauðabjöllum.

Share to Facebook