Hirðskáldið

Væri ég hirðskáld virt og dáð
vildi ég rómi digrum
hylla kóngsins heillaráð
og hampa hans fræknu sigrum.

Trúum þegnum traust og hald,
tryggir blessun mesta,
kóngsins æðsti vilji og vald
viska og framsýn besta.

Aldrei skugga á hann ber
eilíft nafn hans lifir
því skáldsins æðsta skylda er
hans skít að klóra yfir.

Og falli kóngsins frægðarsól
þá feikinn orðsins kraftur,
skáldsins kvæði og háfleygt hól
hefj’ann á stallinn aftur.

Væri ég hirðskáld harla gott
ég hetjukvæði syngi
um drengilegust Davíðs plott
og djörfung hans á þingi.

Vald og heiður víst ég tel
að vera í hirðskálds sporum.
Því dróttkvæðin mín duga vel
Davíð, kóngi vorum.