Íslandi blæðir því álrisans her
og atvinnunáttúruspellvirkjager
veður hér uppi og ábyrgðin er,
(svo einungis fáa við nefnum);
hjá gráðugum rottum, en gleðjumst með söng,
og gerum svo lista yfir heimilisföng
og hefnum.
Frjálshyggjuborunni fólkið gaf koss
og framtíðin verður að bera þann kross.
Þeir hórmanga í hernaðarþágu hvern foss
og heimta svo fyrir það borgun.
Væri ei við hæfi að heimsækja Geir
og hindra að hann meiði landið sitt meir
á morgun?
Iðnaðarstefnunnar afrekaskrá
Álgerðar glapræði bliknar þó hjá.
Megi hún detta í mengaða á
meir þótt ég vorkunnar kenni,
því Valgerður kvað hafa vit á við mús,
og væri ekki upplagt ef við tækjum hús
á henni?
Sophusson Friðrik um sveitirnar fór
með siðferði bandorms og áróðurskór.
Gerði hann bændunum gylliboð stór.
Gnúpverjar bíta ekki á agnið.
Norðlingaveita skal verða honum dýr
við vitum hvar Friðrik sá frauðheili býr
svo fagnið!
Stóriðjurisana styður í raun
stjórnin sem orkuna gefur á laun
umhverfissóðum með iðnaðardaun
enginn mun skömm hennar gleyma.
Fagnið þó vinir, með vélsög og lakk,
við vitum hvar allt þetta atvinnupakk
á heima.