Hefndarseiður

Jón Hallur Stefánsson samdi lag við þetta kvæði vorið 2010. Diskurinn er enn ekki kominn út.

Mæli ég kvæði og magna seið
mér eru sorgir flúnar.
Svo er eg orðin svekkt og leið,
svikin og bitur særð og reið.
Brátt skulu hefndir búnar.
Risti eg þér rúnar
Risti ég hefndarrúnar.

Risti ég Nauð og nota blóð
ný með dreyra spjöllin.
Alltaf var ég við þig góð,
verndaði þig og með þér stóð
og verstu þér tók af föllin.
Aldrei gastu gefið neitt á móti,
herfu þú eignast munt með hjarta úr grjóti.

Þér ég orti ótal ljóð
og einum gaf mitt hjarta.
Lífs þíns á er stormur stóð
stríð þitt ég háði af vígamóð
og stillti mig um að kvarta.
Legg ég á að læknist brátt þin gleymska,
eignastu konu huglausa og heimska.

Mér var návist nægileg
þótt naumlega á mig yrtir
umbar ég þig á allan veg
þá einustu kröfu gerði ég
þú elskaðir mig og virtir.
Þig skal ætið þess til minni reka,
megirðu eignast fýlda konu og freka.

Þér ég risti Þurs í grjót,
þú skalt lengi muna
brjóst mitt heitt og blíðuhót,
brosandi hljóp ég þér í mót
brennandi af ástarfuna.
Ljótri konu losta brátt þú kveikir,
dræsu sem hefur ramman þef og reykir.

Fátækt víf þér færir nýt
Fé með rúnum Ísa.
Lifir á þér sem lús á skít,
launin þín fara í skuldahít,
lögmenn og skatt og Vísa.
Legg ég á að lifir þú í basli
blankur en eigir bílskúrsfylli af drasli.

Þung í lund og þrætugjörn
með þvagleka og drykkjusýki
dregur hún í ból þitt björn
bandóðan hund og óþæg börn,
betur að vel þér líki.
Fljótt þú odd af oflætinu brýtur,
ropar hún hátt og rekur við og hrýtur.

Kaun ég rita keytu með
Svo kvelji þig einn og lítinn
flagð sem hefur grimmlegt geð
og grætir þig eins og krakkapeð
grefur svo yfir skítinn.
Og ef þú ferð í annan stað að leita
eignastu kannski frillu ljóta og feita.


Ofsi minn sem á þér hrín
í annan galdur nægir.
En reynist einlæg iðrun þín
skal öldurnar lægja og miskunn mín
vesaling þínum vægir.
Risti eg þá rúnar
Risti ég sáttarrúnar.

Share to Facebook