-Eru einmana? spurði hún, þótt væri í sjálfu sér óþarfi að spyrja mann sem situr einn að svalli heima hjá sér að því. Og þar sem er eitthvað ofurlítið skárra að hafa það skítt saman en í sitt hvoru lagi, bauð hann henni yfir í bjór og spjall.
-Mig langar að vera hjá karlmanni en þegar tvö einhleyp, einmana og langsvelt af snertingu, fara að drekka saman, þá eru líkur á að hlaupi vitleysa í homónastarfsemina. Sem væri svosem allt í lagi ef ég væri ekki frekar fucked up í hausnum þessa dagana, svaraði hún og vissi samt að hún var á leiðinni til hans.
-Ég er fucked up í hausnum sjálfur en glætan að ég láti það stöðva mig í því að drekka bjór með vinkonu minni, sagði hann og bætti því við að væri nú reyndar ekki hormónastarfsemin í honum sem sæti við lyklaborðið.
-Ég reiknaði ekki með að þú ættir við það en þessi kokteill er bara uppskrift að rugli og ef við förum að skiptast á líkamsvessum á meðan ég er í þessu ástandi, þá kólna ég upp og verð vond við þig. Og það er ekki það sem þú þarfnast, ekki ég heldur.
-Ég skil hvað þú átt við. Hef ekkert með rugl að gera frekar en þú, svo þú getur fengið faðmlag ef þú vilt en meira er ekki í boði hjá mér. Semsagt, ég býð þér hér með í bjór og faðmlag, sagði hann og staðfesti vinsemd sína með broskalli.
-Má ég koma með forljót bómullarnáttföt og sofa í fanginu á þér í nótt? sagði hún og trúði því í alvöru að hún ætlaði sér ekkert annað þótt hún hefði hálfri mínútu fyrr vitað upp á hár hvernig þessi heimsókn myndi enda.
Hún mátti það, auðvitað. Einmana konur mega sofa í fanginu á einmana karlmönnum ef þær fara fram á það að fyrra bragði. Alltaf. Það er ekki eins víst að einmana karl megi mæta með náttfötin sín heim til einmana konu. Enginn veit af hverju þetta er svona, þetta er bara ein af staðreyndum lífsins.
Hún rakaði ekki á sér fótleggina og fór ekki í sexý nærbuxur. Þurfti þess ekki því það var enginn að fara að fara að horfa á fótleggi hennar, hvað þá nærbuxurnar. Hún burstaði tennurnar, tróð hæfilega ljótum náttfötum í plastpoka og barði með hörku niður gamla minningu um annan mann, sem þrátt fyrir að vera á margan hátt dæmigert eintak af tegundinni, hafði unnið hjarta hennar, bara með því að sýna þessari náttfatasérvisku skilning.
Íbúðin bar merki um óhóflegar reykingar, værukærð, listhneigð og langvarandi einmanaleika. Ósköp svipað því sem hún hafði átt von á en þar sem hann fleygði sér ekki grátandi í fangið á henni, kallaði hana ekki dúllu eða neitt álíka klísturkennt og vissi hvenær hann átti að tala og hvenær var komið að honum að hlusta, leið henni þó nokkuð vel. Hann fiskaði fínlega eftir sannleikanum um hana og hefði hann spurt hreint út, hefði hún bara sagt honum söguna en hún sá ekki ástæðu til að mata hann með silfurskeið á einhverju sem skipti hvort sem var engu máli í skiptum fyrir nokkurra klukkutíma öryggiskennd.
Líklega voru þau svona að tengjast. Allavega virtist þetta eitthvað í ætt við vináttu. Og þar sem hann var í eðli sínu listamaður var hann aðeins í einnar kenndar fjarlægð. Hversu löng leið er það í mínútum? Hvað eru margar kenndir í einum degi?
-Það sem er verst við að brenna svona út er að maður verður svo andlaus. Ég get ekki einu sinni skrifað almennilega, sagði hún og ætlaðist auðvitað ekki til að hann myndi reyna að leysa það en henni til undrunar bauð hann henni aðstoð sína.
-Ég skal gefa þér innblástur, sagði hann. Hún tæmdi lungun. Ímyndaði sér lófa við kverkar. Hann horfði í augu hennar dálitla stund, svo laut hann yfir hana og lagði varirnar gætilega að vörum hennar.
‘Eins og koss’ hugsaði hún og dró að sér andann sem hann blés henni í brjóst. Sveið dálítið í lungun en hver segir að innblástur eigi að vera sársaukalaus?
‘Einskonar koss’ hugsaði hún og mundi að nokkrum dögum fyrr hafði hún skrifað dálítið um kossa og þótt koss án faðmlags undarlegt uppátæki.
-Þarfnastu snertingar? spurði hann og án þess að vita hvort hann fyndi sjálfur fyrir slíkri þörf eða væri bara svona almennilegur, umlaði hún til samþykkis og sökk inn í faðm hans.
-Opnaðu augun. Horfðu á mig, hvíslaði hann og þá vissi hún að hann hafði áttað sig á því að hún var með svarthol í sálinni. Hann var að reyna að ná sambandi við hana. Reyna að hindra hana í að viðhalda þessari einnar kenndar fjarlægð. Stöðva hana í því að loka á tengslin, skríða út úr líkamanum og fylgjast með eins og hlutlaus rannsakandi.
-Horfðu í augun á mér, sagði hann og hún horfði inn í augu hans, full af einsemd. Þau voru einna líkust viský á litinn og hún sá að hann var, þrátt fyrir þessa bón, í sömu sporum og hún. Þannig horfðust þau í augu á meðan þau skrúfuðu hvort um sig fyrir þessa undarlegu tilfinningu um nánd sem hafði vaknað við innblásturinn og fyrst tilraunin var ónýt hvort sem var, hlutu þau að reyna að gera það skársta úr stöðunni.
Samfarir. Orðið felur í sér hugmynd um sameiginlega ferð, hugsaði hún og kannski mátti kalla það ferðalag en þau voru ekki saman á ferð. Kannski hlið við hlið en varla saman.
Hún vaknaði í faðmi hans. Fann handlegg hans utan um sig, brjóst hans við bakið en fannst hún þó ósnert með öllu. Tóm. Hún losaði takið, fór fram úr og klæddi sig hljóðlega. Tróð hæfilega ljótu bómullarnáttfötunum í plastpokann og fór í kápuna áður en hún kyssti hann varlega á gagnaugað, fremur af kurteisi en blíðu. Hann rumskaði við kossinn og deplaði viskýlitum augunum en bað hana ekki að vera kyrra.
Það var ágætt. Hann var, þrátt fyrir kossinn sem hann hafði andað ofan í hana, aðeins enn eitt eintakið af tegundinni. Og ennþá, eftir þessa nótt, í jafn langri einnar kenndar fjarlægð.