1978
Andfélagsleg undirskriftasöfnun
Ég byrjaði ung að rífa kjaft. 12 ára að aldri stóð ég fyrir minni fyrstu undirskriftasöfnun. Ég var þá í heimavistarskóla og eitthvað hafði borið á því að peningar og sælgæti hyrfi úr herbergjum nemenda. Ég fór fram á að í herbergin yrðu settar hirslur sem hægt væri að læsa og fékk hluta nemenda til að skrifa undir bréfið. Fáir tóku þátt og náði hneykslun manna yfir þessu freklega uppátæki til fjögurra hreppa. Aðgerðin heppnaðist ekki.
1979
Neitaði að fermast
Ég var óvenju áhugasöm um trúmál sem barn en fannst Guðshugmyndin ekki ganga upp og ólst upp við andúð á kirkjunni. Mér fannst ferming fáránleg athöfn og hafði fullan stuðning forelda minna í þeirri ákvörðun að fermast ekki. Ítrekaðar tilraunir prestins til að tala um fyrir mér báru engan árangur og spurðist andfélagsleg hegðun mín víða um sveitir.
1983
Reif kjaft opinberlega í fyrsta sinn
Um var að ræða andfélagslegt lesendabréf þar sem ég ásakaði þáverandi skólastjóra Þelamerkurskóla um valdníðslu gagnvart tveimur kennurum skólans.
1984
Ritdeila við þjóðernissinna
Háði ritdeilu við kynþáttahatarann Magnús í Vatnsnesi í Velvakanda Morgunblaðsins.
1985-2000
Næstu 15 gerðist fátt markvert í lífi mínu. Ég vann ýmis misskemmtileg störf, ól upp börn, lauk háskólanámi, tók þátt í félagsstarfi stúdenta og snuddaði utan í herstöðvarandstæðinga og Ísland-Palestínu. Ég stofnaði, í félagi við nokkur önnur skúffuskáld, Samband íslenskra ljóðskálda og tók þátt í nokkrum fjöllistauppákomum. Skrifaði ýmislegt sem enginn hafði áhuga á. Tók virkan þátt í starfi leikfélags Fljótsdalshéraðs og átti sæti á lista félagshyggjufólks sem bauð fram til sveitastjórnakosninga 1998. Við skíttöpuðum.
Á þessum árum tókst mér þó eitt með ágætum; ég ól upp tvo drengi sem voru foreldrum sínum og kennurum hlýðin börn en urðu síðar yfirvöldum óhlýðnir. Tel ég þetta mesta afrek mitt í lífinu, hingað til.
2001
Afglöp í starfi fangavarðar
Fram til ársins 2006 var ég hættulega nálægt því að teljast meðalgreindur smáborgari. Þó tókst mér að klúðra möguleikum mínum á því að fá nokkurntíma vinnu við öryggisgæslu eða annað þvíumlíkt árið 2000, þegar ég fékk sumarvinnu sem fangavörður á Litla Hrauni. Þótti ég sýna afar óviðeigandi hegðun í starfi þar sem ég neitaði að undirrita upplognar skýrslur og hylma yfir með fangavörðum sem fóru offari í starfi. Mestum hæðum náði þó andfélagsleg hegðun mín þegar ég hóf sambúð með einum fanganna sem útskrifaðist nokkrum mánuðum eftir að ég hætti störfum.
2002
Flokkspólitísk þátttaka
Tók annað sæti á lista VG fyrir sveitastjórnarkosningarnar í Árborg. Við töpuðum með stæl.
2002
Andfélagsleg vefbók
Árið 2002 byrjaði ég að halda úti vefbók. Bloggaði fyrst á Annál, vef guðfræðinema en gekk þar í lið með trúleysingjum og móðgaði margan prestinn.
2001- 2003
Skáldaórar
Á þessu tímabiligerði ég tilraun til að fá útgefnar eftirtaldar bækur:
- Úlfurinn og barnið (smásagnasafn)
- …og veröldin lyktar af ösp (órímuð ljóð)
- Reyr mínar rætur (kvæðabók)
- Andlit barns (ljóðabók í kvart-súrrealískum stíl)
- Rykið hefur gert sér hreiður undir rúmi mínu (ljóð)
- Drekahreiðrið (örsögur byggðar á ævintýraminnum)
- Bláþræðir –dagbók vændiskonu (ljóð)
Ekki báru skáldagrillur mínar nokkurn árangur og náði hneisuför mín hámarki þegar ég fékk þá umsögn frá bókaútgáfunni Eddu að þrátt fyrir snjallar myndlíkingar, gott vald á bragarháttum og óvenjuleg efnistök, gæti „yrkisefnið seint talist ljóðrænt“ en þema þeirrar bókar var kynlífsiðnaðurinn í Reykjavík.
Einnig skrifaði ég mikinn fjölda kvæða við tónlist Óttars Hrafns Óttarssonar. Aldrei hefur neitt af því verið gefið út eða mér vitanlega flutt opinberlega.
Einnig sendi ég tölvupóst á um 60 tónlistarmenn með ósk um samstarf og sýnishornum af textum. Ég fékk eitt svar pönkhljómsveit. Þeir drengir afþökkuðu kurteislega.
2004
Get mér orðspor sem ýlandi dræsa
Árið 2003 opnaði ég persónulega dagbók sem ég kallaði Reykvíska sápuóperu og var birt með fyrirvaranum „góð saga er ekki verri þótt hún sé login“. Var dagbók þessi klámfengin mjög og endaði inni á borði hjá Þvagleggi sýslumanni þegar barnsmóðir þáverandi sambýlismanns míns lagði hana fram til sönnunar því að barnsfaðir hennar byggi með druslu.
2004
Fugl í grænum heimi
Gaf út ljóðabókina Fugl í grænum heimi sem fáir keyptu og enginn las. Ég á enn nokkra tugi eintaka af henni.
Leikfimi
Skrifaði í félagi við Björn M. Sigurjónsson söngleikinn Leikfimi. Ég orti alla söngtextana 16 talsins en hann átti heiðurinn af söguþræðinum og tónlistinni. Ekki hafði nokkur leikstjóri áhuga á að setja söngleikinn upp og sennilega liggur handritið einhversstaðar í pappakassa ásamt öðru rusli.
2005
Nornabúðin opnuð
Árin áður hafði ég unnið við kennslu, textavinnu, blaðamennsku og á veitingahúsum en líkaði illa að þurfa að lúta stjórn annarra. Þetta sumar ákvað ég að hagnýta fordæðuskap minn og opnaði Nornabúðina á Vesturgötu og hófst nú blómaskeið forneskju minnar.
2007
Handtekin fyrir mótmælaaðgerð
Í júlí 2007 var ég handtekin fyrir þátttöku mína í mótmælum Saving Iceland, síðar sakfelld fyrir óhlýðni við lögreglu.
Miriam Rose
Sumarið 2007 háði ég baráttu gegn brottvísun breska jarðfræðingsins og umhverfisaktivistans Miriam Rose sem stóð til að vísa úr landi vegna aðgerða sinna á vegum Saving Iceland. Við unnum.
Svartigaldur og opinber flenging á Austurvelli
Í nóvember þetta ár framdi ég í fyrsta sinn galdur á opinberum vettvangi. Það var Vættaseiður, til þess ætlaður að kalla bölvun yfir stóriðjustefnuna. Lét ég reisa Alþingi níðstöng og fékk til liðs við mig tákngerving alþýðukonunnar sem rassskellti brúðu, táknmynd þeirra þingmanna sem samþykktu Kárahnjúkavirkjun. Að því loknu gól ég seiðinn og var fjölmenni viðstatt athöfnina.
Árangurinn af galdrinum varð ekki eins góður og ég vonaði en sá hluti hans sem laut að því að afhjúpa talsmenn stóriðjustefnunnar og kalla gjaldþrot yfir kapítalískt hagkerfi, kom fram í hroðalegasta efnahagshruni Íslandssögunnar.
2006-2008
Rafrænn fordæðuskapur
Á árunum 2005-2008 varð ég alræmd sem bloggari, aðgerðasinni og norn. Ég setti mér háleit markmið um að móðga sem flesta og komst að þeirri niðurstöðu að ekki þyrfti mikla viðleitni til að móðga þjóðkirkjufólk, vantrúarmenn, spiritista, sauðfjárbændur, jeppaeigendur, feminista, feitabollur og AA samtökin.
Vefbókarskrif mín um umhverfismál og þátttaka í netumræðum varð sífellt dólgslegri og í samhljómi við nýtt skeið í sögu mótmælaaðgerða á Íslandi. Náðu þessi skrif hámarki með kvæðinu Sálmur handa Sóma en þá ég náði jafnvel að ganga fram af anarkistum. Þetta er í eina skiptið sem ég hef tekið færslu úr birtingu fyrir orð annarra en ættingjar mínir óttuðust að ég myndi kalla ofsóknir yfir fjölskylduna með svo dólgslegum skrifum.
2008
Aktivismi
Margir halda að ég sé fyrst og fremst pólitískur aktívisti en sannleikurinn er sá að ég hef lítið komið nálægt beinum aðgerðum nema á mjög stuttu tímabili 2006-2009. Ég hef skrifað talsvert um mótmælamenningu og málefni sem mér hefur þótt þörf á að mótmæla og ég styð beinar aðgerðir en þátttaka mín í þeim er fljótrakin.
Paul Ramses
Vorið 2008 tók ég þátt í björgunaraðgerð og mótmælum vegna flóttamannsins Pauls Ramses, auk þess að skrifa fjölda greina um málið og eyða ómældum tíma í undirskriftasöfnun. Haukur sonur minn og James Slade voru dregnir fyrir dóm vegna flugvallarhlaupsins, sem varð til þess að vekja athygli á málinu.
Í kjölfar aðgerðarinnar fór ég við fimmta mann og heimsótti flóttamannafangelsið að Fitjum, þar sem ég hvatti flóttamenn til ólöglegra aðgerða og ráðlagði þeim að barna íslenskar druslur til að auka möguleika sína á því að fá hæli á Íslandi. Hef síðan hýst flóttamenn og stutt hreyfinguna No Borders með því að auglýsa aðgerðir þeirra og skrifa um málefni flóttamanna.
Sjálfboðastarf í Palestínu
Í september og október 2008 var ég við sjálfboðastarf í Palestínu með aktivistahreyfingunni ISM sem Ísraelsmenn skilgreina sem hryðjuverkasamtök. Ég skrifaði dagbók og vann síðar upp úr henni ferðasöguna Tell your President, sem enginn bókaútgefandi hefur sýnt minnsta áhuga, enda fjallar sagan öðrum þræði um mannréttindabaráttu. Bókin er tileinkuð Ólafi Ragnari Grímssyni og var útprentað eintak afhent forsetaritara í aríl 2012 með áskorun um að forsetahjónin létu málefni Palestínu til sín taka. Ég hef aldrei heyrt orð frá þeim og hef enga trú á að þau hafi lesið bókina.
Innbrot á lögreglustöð
Í nóvember 2008 sætti sonur minn Haukur, ólögmætri handtöku. Efndi ég til mótmæla við lögreglustöðina á Hverfisgötu og enduðu þau mótmæli með því æstur skríllinn braut sér leið inn á lögreglustöðina og piparúða var beitt til að hrekja lýðinn út. Ég endaði ásamt ungri stúlku uppi á slysadeild en Haukur var látinn laus. Hann vann síðar skaðabótamál gagnvart lögreglunni.
Vargastefna
Þann 1.desember 2008 framdi ég svartagaldur á lóð Stjórnarráðsins. Stefndi ég varg að ríkisstjórn Geirs Haarde með þeim árangri að hún féll nokkrum mánuðum síðar eftir skæðustu og lengstu róstur Íslandssögunnar.
Seðlabankastjóri rassskelltur
Síðar þennan sama dag gekk ég á fund Davíðs Oddssonar þásitjandi seðlabankastjóra og skoraði á hann að segja af sér. Beitti ég göldrum til þess að fá lögregluna til að koma mér inn í bankann en Davíð hafði þá vikum saman neitað fjölmiðlum um viðtal. Eigi varð hann við vinsamlegum tilmælum mínum og neyddist ég því til að beita andlegu ofbeldi. Bar ég hann út úr bankanum í líki brúðu sem ég rassskellti fyrir framan byggingu seðlabankans og fleygði svo fyrir æstan múginn sem hreinlega reif hana í sundur. Varð árangurinn af galdri þessum sá að allir þrír bankastjórar seðlabankans voru reknir og pólitískum ferli Davíðs Oddsonar lauk með skömm.
2008-2009
Búsáhaldabyltingin
Á tímabilinu desember 2008 og fram í febrúar 2009, áttu sér stað mestu uppþot Íslandssögunnar. Mótmælamenning Íslendinga tók stökkbreytingum, frá því að einkennast af kurteislegum útifundum og yfir í beinar aðgerðir. Anarkistar voru stærsta driffjöður aðgerðanna en ég varð helsti talsmaður beinna aðgerða á Íslandi.
Einnig tók ég þátt í flestum fjölmennum mótmælaaðgerðum á þessu tímabili, m.a. kom ég að eftirföldum aðgerðum:
Alþingisshússaðgerðinni sem varð til þess að 9 manns voru dregnir fyrir dóm, ákærð fyrir brot sem fellur undir lög um landráð.
Ég tók beinan þátt í Kryddsíldaraðgerðinni á gamlársdag 2008,
Óeirðunum sem hófust við þingsetningu í janúar 2009 og mörkuðu tímamót í sögu mótmælamenningar á Íslandi.
Mótmælum gegn Nató í lok janúar. Eftir þá aðgerð tókst mér að móðga hernaðarandstæðinga með því að skrifa í málgagn þeirra grein þar sem ég gagnrýndi þá fyrir að laumast af vettvangi á sama tíma og lögreglan var að berja anarkista sem ætluðu sér að ná meiri árangri með mótmælunum en að fá mynd af sér í blöðunum.
Auk þess hélt ég utan um stórt tengslanet, bæði á facebook og með símanúmerakerfi og boðaði í gegnum það til fjölmargra aðgerða bæði smárra og stórra. Nokkrum aðgerðum stóð ég fyrir sjálf í félagi við 2-3 aðra, þ.á.m. aðgerðinni Sveltum svínið í kringum jól og áramót, stóru götumótmælunum við Þjóðleikhúsið (þar sem Samfylkingin sat fund í kjallara) og mótmælaaðgerð við Seðlabankann nokkrum dögum síðar en sú aðgerð vatt upp á sig og stóð í nokkra daga, einnig næturheimsókn anarkistakórsins til þingmanna en auk þess að syngja bæði hátt og illa, á ég hinn vafasama heiður af þeim pólitísku vögguvísum sem fluttar voru við það tilefni.
2009
Hýðing á Lækjartorgi
Í kjölfar bankahrunsins ákváðu ráðamenn þjóðarinnar að hneppa Íslendinga í skuldafjörta gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Til að vekja almenning til umhugsunar um merkingu þess efndi ég til gjörnings á Ingólfstorgi. Voru nokkrir þáttakendur klæddir sem böðlar og leiddu þeir þræla í keðjum frá Vesturgötu, niður á Ingólfstorg. Þar var ég ásamt öðrum manni hýdd með leðurstrimlasvipu á meðan aðrir þátttakendur dreifðu upplýsingum til vegfarenda. Hélt þrælalestin svo að stjórnarráðinu þar sem bænaskjal var afhent. Kom þessi aðgerð gríðarlegu óorði á mig í hópi meðalgreindra smáborgara og bý ég að þeim heiðri enn í dag.
Ég hélt svo uppi andófi gagnvart AGS fram á vorið með stöðugum bloggskrifum og bréfum til ráðamanna, auk þess sem ég mætti ásamt Árna Daníel Júlíussyni á fund í Seðlabankanum með talsmönnum sjóðsins. Þar fékk ég þær upplýsingar að þótt sjóðurinn hefði að vísu þrautpínt vesalinga í öllum þeim löndum sem hann hefur komið nálægt, væri hann nú búinn að snúa við blaðinu. Mér til mikillar undrunar hefur sjóðurinn ekki beitt Íslendinga þeirri kúgun sem aðrar þjóðir hafa þurft að þola eftir aðkomu hans.
2006-2009
Undir lögreglueftirliti
Á þessum tíma var heimasími minn hleraður án dómsúrskurðar og lögreglan elti bíl minn eigi sjaldnar en vikulega. Frá því í júlí 2006 og þar til ég losaði mig við bílinn á vordögum 2008, stöðvaði lögreglan mig eigi sjaldnar en 20 sinnum. Aðeins einu sinnu var erindið eitthvað annað en að spyrja „hvaða ferðalag“ væri á mér en í það skiptið hafði einhver grínari skrúfað númeraplötu af bílnum mínum.
Síðla árs 2008 fékk ég athugasemd á tjásukerfinu á blogginu mínu um að hugmyndir mínar um að ég væri undir lögreglueftirliti, bæru vott um alvarlega vænissýki. Teljarinn á vefsíðunni minni sýndi að þessi athugasemd kom frá ip tölu í eigu tölvudeildar dómsmálaráðuneytisins. Á næstu vikum fylgdist ég með teljaranum og sá að heimsóknir frá tölvum á vegum dómsmálaráðuneytisins voru ekki undir 30 á dag. Hélt svo fram þar til ég flutti af landi brott seinni partinn í mars 2009.
2009
Guð blessi Ísland
Í september þetta ár var frumsýnd heimildamynd Helga Felixsonar Guð blessi Ísland. Var ég ein af þremur aðalpersónum þessarar kreppuklámsmyndar sem er svo leiðinleg að hún fékk ekki einu sinni neikvæða gagnrýni, menn setti bara hljóða og lögðu flestir sig fram um að gleyma henni.
2010
Ekki lita út fyrir
Í mars 2010 kom út bók mín Ekki lita út fyrir –sjálfshjálparbók handa sjálfri mér og öðrum ýlandi dræsum. Ólíkt öðrum ljósmyndurum sem ég hafði pósað fyrir var Ingólfur heitinn Júlíusson atvinnumaður. Hann tók myndirnar og sá um uppsetningu og á ekki síður heiður af bókinni en ég. Mun þetta vera sjálfhverfasta verk allra tíma og seldist aðeins eitt eintak af bókinni en það keypti ég sjálf.
2011
Þýðingar
Þetta ár þýddi ég nokkur af kvæðum Bellmans og bauð nokkrum tónlistarmönnum afnot af þeim en fékk ekki einu sinni svör. Einnig þýddi ég skáldsöguna „Uppskrift að hjónabandssælu“ eftir Kate Kerrigan, bók sem hefur verið þýdd á fjölda tungumála og selst vel í meira en 20 löndum. Enginn íslenskur útgefandi hefur litið við henni.
Til Íslands
Eftir 18 mánaða atvinnuleysi í Danmörku (lengst af í sárri fátækt og átti ekki einu sinni rétt á aumingjabótum) og árangurslausar tilraunir til að verða mér úti um textaverkefni í gegnum íslenskar auglýsingastofur og bókaforlög, fór ég til Íslands og sótti um ýmis störf, m.a. sem blaðamaður. Fékk þau svör að ég hefði ekki réttar skoðanir. Reyndar bauðst einn fjölmiðill til að borga mér 2000 krónur fyrir pistla sem væru sérlega vel unnir og líklegir til að vekja athygli. Ég afþakkaði.
Á þessum tíma kynntist ég strokuþrælnum Mouhamed Lo og tók þátt í björgun hans en Útlendingastofnun hafði ákveðið að senda hann aftur til Noregs, vitandi að Norðmenn hyggðust senda hann til Máritaníu, þaðan sem hann hafði flúið úr ánauð. Sú aðgerð heppnaðist og Mouhamed býr enn á Íslandi.
2012
Evulög
Loksins kom að því að ég var uppgötvuð. Gímaldin, óþekktur tónlistarmaður, gaf út geisladisk með lögum sem hann samdi við nokkur kvæða minna. Sagt er að hátt í fimm manns hafi hlustað á diskinn til enda og allt að átta á fyrsta lagið.
2011-2013
Kyndilberi andfeminismans
Þótt ég hafi síður en svo verið sátt við loðnara kynið í gegnum tíðina og sannarlega fundið fyrir karlrembu á eigin skinni, hefur mér lengi þótt hugmyndafræði og málflutningur feminista vægast sagt kjánalegur. Ég hef allt frá árinu 2001 bent á það hvar mér finnst feminisminn fara út af sporinu en árið 2011 var mér farið að ofbjóða. Ég tók meðvitaða ákvörðun um að breyta umræðu um kynjapólitík á Íslandi. Þar sem Vantrúarmönnum hafði á fáum árum tekist að gerbreyta umræðunni um trúmál, var ég vongóð um að fáar raddir gætu haft mikil áhrif. Frá árinu 2011 hef ég skrifað á þriðja hundrað pistla um efni sem tengjast feminisma. Ég sannfærðist um að mér hefði tekist að hafa áhrif á umræðuna þegar kynjaverurnar í HÍ sæmdu mig titlinum Kyndilberi andfeminismans árið 2013. Mun ég leggja mig fram um að standa undir þeim titli eftirleiðis.
Eldhússmella
Í janúar 2012 flutti ég til Glasgow og hóf sambúð með sérlegum fulltrúa feðraveldisins; hvítum, miðaldra menntamanni. Þetta er sennilega skynsamlegasta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu. Frá 2012 hef ég þurft að gera neitt nema elda og ríða og get því einbeitt mér að því að næra lærakeppina, rífa kjaft og skrifa skáldskap sem enginn hefur áhuga á.
2014-2017
Leitin að svarta víkingnum
Árið 2014 las ég bók Bergsveins Birgissonar, Svarta víkinginn og heillaðist mjög af henni. Hún var skrifuð á norsku og Bergsveinn hafði þá ekki áform um að þýða hana sjálfur. Úr varð að ég þýddi hana en Bergsveinn var mér innan handar og gerði um leið ýmsar endurbætur á bókinni. Hún kom ekki út fyrr en rétt fyrir jólin 2016.
Laganám
Ég hóf nám við Lagadeild HÍ haustið 2014. Bjó reyndar hjá feðraveldinu í Glasgow en tók námið utanskóla og lauk BA prófi núna í vor. Lögfræði er brjálæðislega skemmtileg grein en ég get ekki sagt það sama um kennsluhætti og námsmat í þessari háborg afturhaldsins.
Framtíðarplön
Í dag er staðan þessi:
Ég er með BA próf í lögfræði en veit ekki hvað ég ætla að gera við það. Ég ákvað að læra lögfræði af því að ég held að mér gæti þótt gaman að vera lögmaður en til þess verð ég auðvitað að taka meistarapróf og ég er ekki viss um að mig langi það.
Mér finnst ennþá gaman að skrifa en sé ekki fram á að hafa samilegar tekjur af því. Ég fæ iðulega spurningar um það hversvegna ég skrifi ekki bara skáldsögu, fyrst ég hafi svona gaman af að skrifa. Nákvæmlega! Hugsið ykkur bara ef Van Gogh hefði gefið út teiknimyndasögur eða málað sætar kisumyndir, fyrst hann hafði svona gaman af að dútla við myndlist. Þá hefði hann kannski selt meira en eitt verk í lífi sínu.
Sannleikurinn er sá að reynsla mín hingað til gefur mér ekki minnstu ástæðu til að ætla að verk mín muni seljast og ég hef ekki nægan áhuga á því að skrifa skáldsögu til þess að leggja á mig vinnu við að skrifa hana eingöngu fyrir sjálfa mig. Mér finnst hinsvegar nógu gaman að skrifa samfélagspistla og atast í yfirvaldinu til þess að helga mig því án endurgjalds. Hvað annað ég mun taka mér fyrir hendur næstu árin, það bara veit ég ekki enn.