Vissu ekki betur!

Hér er uppeldisráð fyrir opinskáa foreldra sem vilja ræða ALLAN PAKKANN við börnin sín.

Í beinu framhaldi langar mig að bera eitt mál undir lesendur:
-Er það almenn skoðun að skaðleg hegðun sé afleiðing af fáfræði?

-Er einhver hér sem byrjaði að reykja á unglingsárunum af því að hann taldi víst að það væri hollt?
-Halda menn í alvöru að þeir unglingar sem nota vímuefni viti minna um þau en hinir sem gera það ekki?
-Trúir því einhver að fjórtán ára telpa samþykki að veita hóp pilta munngælur af því að hún haldi að það sé venjulegt skilyrði gestgjafa gagnvart þeim sem hann býður í partý?
-Er það almennt álit manna að þegar hópur pilta hefur kynmök við yngri stúlku sé skýringin sú að enginn hafi sagt þeim að slík hegðun sé ekki ásættanleg?
-Heldur einhver að unglingar sem stunda endaþarmsmök með þeim afleiðingum að stúlkan þarf að fara á slysadeild, haldi í fáfræði sinni að blóð og þjáningar séu bara part af programmet?

Ímyndum okkur unglingasamkvæmi þar sem ýmis andfélagsleg hegðun og áhættuhegðun á sér stað. Mikil drykkja, neysla ólöglegra vímuefna, veski stolið af rænulausum unglingi, kynlífsþjónusta veitt gegn landa, einhver gestanna barinn til óbóta, heimili gestgjafa lagt í rúst, samfarir með zero samþykki, hópreið (með eða án samþykkis) fer úr böndunum og þolandinn endar á slysadeild.

Þetta hlýtur að vera ákaflega óupplýst unglingagengi. Svona atburðir myndu aldrei eiga sér stað meðal unglinga sem hafa setið undir endalausum hræðsluáróðri gagnvart vímuefnum og vita allt um álit mæðra sinna á hóriríi og sódómsku. Eða hvað? Mér koma ýmsar skýringar í hug en fáfræði er ekki ein þeirra. Mér dettur t.d. í hug:

-Gestgjafinn í umræddu samkvæmi var ekki mamma bekkjarfélaga og börnin voru ekki sótt klukkan 12.
-Foreldar barnanna hafa ekki mikil afskipti af því hvaða kvikmyndir og sjónvarpsefni þau nota, hvaða netsíður þau skoða eða hvaða fólk þau umgangast og spjalla við á netinu.
-Einhverjir þáttakenda eru ofbeldishneigðir eða með aðra slæma skapgerðarbresti eða geðræna kvilla.
-Leiðtogar úr hópi þáttakenda eru að eðlisfari líklegri til áhættuhegðunar en meðalmaðurinn og foreldrar þeirra hafa ekki lagt sig fram um að stýra þeim inn á brautir þar sem hægt er að fá útrás á æskilegri hátt.
-Börnin hafa ekki fengið skýr skilaboð um það heima að treysta dómgreind sinni og koma sér burt ef partýið virðist ætla úr böndunum.
-Foreldararnir vita ekki hvar gleðskapurinn er haldinn og gemlingurinn svarar ekki þegar þau hringja.
-Börnin eru vön því að koma heim um miðjar nætur í annarlegu ástandi, án þess að þurfa að gera grein fyrir ferðum sínum.

Getur kannski hugsast að uppfræðsluæðið sem grípur um sig í hvert sinn sem unglingar verða fyrir skakkaföllum, sé örvæntingarfull tilraun til að hafa stjórn á ástandi sem er útilokað að hafa stjórn á með nokkru öðru en gamla, góða húsráðinu; að byrja að ala barnið upp við fæðingu en ekki þegar er orðið 13 ára?

Share to Facebook

One thought on “Vissu ekki betur!

  1. ——————————

    Ég er alveg sammála þér Eva. Það er allt of algengt að foreldrar ætli að fara að byrja að ala upp börnin þegar þau komast á táningaraldurinn.

    Ég hef alltaf litið svo á að ný fædd börn séu alin upp við einræði (fasisma). Við ákveðum flest og þau fátt. Eftir því sem börnin eldast verður lýðræðið meira. Þetta er gert í þeim tilgangi að kenna börnum að stjórna sínu eigin lífi, þannig að þegar þau fara að heiman séu þau sjálfstæð og hafi hæfileika til að taka réttar ákvarðanir.

    Allt of oft virðast foreldrar snúa þessu við. Frelsið er nánast algjört við barnsaldur en minnkar eftir því sem barnið eldist. Við 13 ára aldurinn er allt í einu komið á einræði (fasismi) og auðvitað er gerð uppreisn, rétt eins og í öllum lýðræðisríkjum. Og það sem verra er, unglingarnir kunna ekki að fara með lýðræðið þegar þeir komast að heiman.

    Posted by: Þorkell | 7.07.2007 | 13:55:08

    ———————————

    Þetta átti að vera svona:

    „Ég hef alltaf litið svo á að nýfædd börn EIGI að ala upp við einræði“

    Posted by: Þorkell | 7.07.2007 | 14:04:49

    ———————————

    Orð í tíma töluð.
    Ég hef þá skoðun að allt of margir foreldrar nenni ekki að ala börnin sín upp og séu allt of uppteknir sjálfir við eigin áhugamál og telji sig því ekki hafa tíma að fylgjast með því hvar börnin og unglingarnir þeirra eru niður komin.
    Ég held að það þurfi fyrst og fremst að skóla foreldrana til og minna þá á ábyrgðina sem fylgir því að eignast og koma upp börnum. Það er gott að hafa áhugamál en barnið á alltaf að vera númer 1 og þeim þarf, eins og þú bendir á, að kenna að nota sína eigin dómgreind. Það kann ekki góðri lukku að stýra ef börn þurfa að ala sig upp sjálf og allt of seint í rassinn gripið að ætla að gera einhverja bragarbót þegar þau eru komin á fermingaraldur.
    Börn þurfa að læra hvað agi er og foreldrar þurfa að læra að segja nei þegar það á við, börnin meta nefnilega nei-ið meira en margan grunar. Þau vita á allavega að foreldrunum er ekki sama um þau.
    Þetta varð lengra hjá mér en til stóð, en ég kemst á flug þegar þessi mál ber á góma.
    Kær kveðja,

    Posted by: Ragna | 8.07.2007 | 14:16:22

Lokað er á athugasemdir.