Við vildum eitthvað annað

Myndin er héðan

Búsáhaldabyltingin var engin bylting. Hún var röð uppþota sem hröktu vanhæfa ríkisstjórn frá völdum. Enginn dó og það er á mörkunum að hægt sé að tala um óeirðir en fólk óhlýðnaðist lögreglunni og það var svo brjálæðislega róttækt að í huga þjóðar sem þekkir hvorki sverð né blóð (enda þótt hún styðji hvorttveggja með hundslegri tryggð sinni við Nató) var það nánast stríðsástand sem ríkti frá miðjum nóvember 2008 og út janúar 2009.

Þið sem viljið “bara eitthvað annað”

Raddir fólksins héldu fundi. Allir skildu hvað sú hreyfing vildi. Koma ríkisstjórninni frá og þá væntanlega annarri að.

Anarkistar vildu ekki nýja ríkisstjórn heldur enga ríkisstjórn. Við vildum beint lýðræði. Við vildum “eitthvað annað” en fulltrúa sem marka stefnu og svíkja hana svo um leið og þeir komast til valda. Við vorum krafin skýringa á því hvað ætti að gera í efnahagsmálum, hvernig ætti að reka heilbrigðiskerfið o.s.frv. og við svöruðum: “Örfáar hræður geta ekki ákveðið það fyrir fjöldann. Allir sem hafa áhuga á þessum málum eiga að ákveða það með samráði.” Þetta hljómaði eins og kínverska í eyrum þeirra sem skildu bara ekkert í því að til væri fólk sem vildi hvorki ráðskast með aðra né láta aðra ráðskast með sig. Við vorum í hugum þeirra ekki fólkið sem vildi beint lýðræði heldur bjánar sem vildu “bara eitthvað annað”.

 

Þetta er bara ekki rétta skotmarkið

Yfir aðgerðasinna rigndi lofi og svívirðingum, stuðningsyfirlýsingum og ógnunum. Þegar við trufluðum ríkisstjórnarfund var okkur úthúðað fyrir að ráðast ekki frekar á bankana, þegar við bauluðum á bankana urðum við fyrir heilagri vandlætingu fyrir að ráðast ekki frekar gegn útrásarvíkingum og þegar við híuðum á Baug átti fólk ekki orð yfir hneykslun sína á því að við værum að spilla verslunargleði bláfátækra landsmanna og það á sjálfum jólunum!

Þetta er bara ekki rétta aðferðin

Það voru þó fyrst og fremst aðferðir aðgerðasinna sem fóru fyrir brjóst góðborgara. Fólk, sem áleit að lýðurinn sem skyndilega skuldaði tólffalda þjóðarframleiðslu sína ætti bara að anda með nefinu, froðufelldi af heilagri reiði yfir því að þurfa að bera kostnaðinn af þrifum á Alþingishúsinu. Ofbeldi var endurskilgreint. Skemmd hurð var “ofbeldisverk” og tók steininn úr þegar jólatréð, sjálft Oslóartréð, var brennt þann 21. janúar en ekki jarðað frá Dómkirkjunni svo sem venjan var.

Sófaherforingjar leiðbeindu okkur um það hvernig fremja skal byltingu, gáfu út tilmæli um það hvaða byggingar skyldu sprengdar og hverra bílar skyldu brenndir, en gripu sjálfir ekki til svo róttækra aðgerða að draga það að borga af lánunum sínum eða beina viðskiptum sínum til annarra en útrásarvíkinga. Fleiri voru þeir þó sem útskýrðu fyrir okkur, af yfirlætislegri góðvild, að allt þetta eggjakast, gjörningar og árásir á stofnanir hefði ekkert upp á sig, að mótmælin væru að “snúast gegn sjálfum sér” og að við myndum “missa allt fylgi” (enda þótt enginn hópur aðgerðasinna hefði lýst áhuga á framboði) ef við héldum áfram. Það var alveg sjálfsagt að mótmæla en mótmælin áttu að fara fram í kyrrþey.

Og ný stjórn tók við

Fleiri skandalar komu upp á yfirborðið og þvert á allar hrakspár fjölgaði þeim stöðugt sem tóku þátt í beinum aðgerðum og studdu þær. Eldar brunnu á Austurvelli og dró þar margur kústskaftið úr eigin rassgati og kastaði á bálið. Það kostaði piparúða og táragas en ríkisstjórnin fór, stjórn Seðlabankans fór og stjórn Fjármálaeftirlitsins lét af störfum.

Ný ríkisstjórn tók við völdum. Samskonar valdaklíkustjórn og hægri stjórnin sem sat á undan henni. Í veigamestu málunum hefur hún brugðist. Baktjaldamakk viðgengst enn og er á köflum nánast óskiljanlegt hvaða hugsun liggur að baki. Hvað í ósköpunum græða hinir svokölluðu vinstri flokkar t.d. á þessu helvítis fokking fokki?

Af Samfylkingunni var einskis að vænta, enda var hún annar hrunflokkanna, en VG hefðu átt að sýna lit. Það er ömurlegt að eftir fjögurra ára valdatíð skuli helstu afrek stjórnmálaflokks sem kennir sig við umhverfis- og mannúðarstefnu, og var kosinn fyrst og fremst út á það að hafa ekki (ennþá) sýnt af sér verulega spillingu, vera svik í stjórnarskrármálinu, meiri stóriðja, barátta fyrir njósnaheimildum lögreglu og eftirliti með internetnotkun landsmanna auk þess að hafa bjargað bönkunum en brugðist heimilunum.

Var það ekki þetta sem þið vilduð?

Þegar ég gagnrýni sitjandi ríkisstjórn er ég stundum spurð, all snúðiglega; “nú var það ekki þetta sem þið vilduð?” En anarkistar báðu aldrei um vinstri stjórn. Á meðan 7000 manns hrópuðu “vanhæf ríkisstjórn” hrópuðu 70 manns “enga ríkisstjórn”. Við vildum ekki hægri eða vinstri heldur kerfisbreytingu. Við vildum skapa nýjar og lýðræðislegri aðferðir við ákvarðanatöku. Við vildum aflétta leyndarhyggjunni og auka tjáningarfrelsið. Ég trúði því aldrei að spillingin væri bundin við einstaklinga eða flokka en ég hélt nú samt að Vinstri græn yrðu heiðarlegri en Sjálfstæðisflokkurinn. Hrossakaup í umhverfis- og lýðræðismálum var sannarlega ekki það sem ég vildi. Ekki heldur allir hinir sem áttu ekki skýrari orð yfir hugsanir sínar en helvítis, fokking, fokk!

Ég og fjölmargir aðrir töldu þá og telja enn að eina leiðin til að draga úr spillingu sé gagnsæ stjórnsýsla og litlir möguleikar til að safna völdum á fáar hendur. Það álit er ekki bundið við þá sem eru á móti ríkisvaldi. Á dögum búsáhaldabyltingarinnar varð til hreyfing sem kallaði sig “lýðveldisbyltinguna” og gerði áhugaverða tilraun með rafrænt lýðræði. Sú tilraun tengdist hvorki anarkistum né tilteknum stjórnmálaflokki.

Og samt bar hún árangur

Lengi hélt ég að eini árangur búsáhaldabyltingarinnar (sem þó skiptir vissulega máli) væri breytt viðhorf fjöldans til beinna aðgerða. En fleira breyttist. Inn á þing komst fólk sem hefur meiri áhuga á að bylta valdakerfinu en að koma sjálfu sér að kjötkötlunum. Sú hugmynd að hægt sé að taka ákvarðanir með samráði fjöldans varð að stjórnmálaafli sem hefur nýtt sér sömu hugmynd og lýðveldisbyltingin byggði á og þróar nú stefnu sína í umræðuhópum á netinu.

Yfirvaldslaust samfélag verður ekki að veruleika á næstu fjórum árum en hið rafræna lýðræði sem Píratar standa fyrir er  framhald af þeirri byltingartilraun sem hófst með uppþotum aðgerðasinna veturinn 2008-2009. Hún er “eitthvað annað” og þessvegna ætla ég að kjósa Píratana í komandi Alþingiskosningum.

Ég vona að Píratar komist á þing. Og Dögun. Og að Framsóknarflokkarnir fjórir gjaldi verðskuldað afhroð.

 

Share to Facebook