Við eigum rétt á að vita það líka

Um daginn stóð Útvarp Saga fyrir skoðanakönnun á því hvort fjölmiðlar ættu að gefa upp þjóðerni meintra afbrotamanna og þjóðarsálin álítur víst að það sé rétt, gott og nauðsynlegt. Ekki er ljóst hvaða tilgangi það á að þjóna, nema þá helst þeim að auðvelda okkur að meta líkurnar á glæpahneigð út frá þjóðerni. Ef kemur t.d. í ljós að 20 Pólverjar hafa verið sakaðir um líkamsárásir, þá hlýtur það að segja eitthvað um eðli og innræti Pólverja almennt og full ástæða til að kenna börnum okkar að varhugavert sé að umgangast slíkan óþjóðalýð og aðra negra. Ég er svona að velta því fyrir mér hvort sé þá ekki jafn eðlilegt að fjölmiðlar taki fram hvaða störfum meintir glæpahundar gegni, hverrar trúar þeir séu eða hvaða stjórnmálaflokk þeir kjósi.

Fyrirsagnir blaðanna gætu þá verið á þessa leið:

„Tveir kristnir byggingaverkamenn nauðguðu konu í húsasundi.“
„Gagnkynhneigður Framsóknarmaður tekinn með fíkniefni á Keflavíkurflugvelli.“
„Virkjanasinni dæmdur fyrir búðarhnupl.“
„Áhugamaður um málefni öryrkja sinnti ekki stöðvunarskyldu.“
„Samfylkingarkona sökuð um fjárdrátt.“
„Þjóðkirkjumaður tekinn fyrir ofsaakstur.“
„Pípulagningamaður kærður fyrir líkamsárás. Sagður hafa stutt Frjálslynda flokkinn í síðustu kosningum.“

Setjum sem svo að í ljós kæmi að flestir fjárglæframenn þjóðarinnar væru gagnkynhneigðir, sjálfstæðismenn í stjórnunarstöðum, verðbréfaeigendur og skráðir í þjóðkirkjuna, væri þá ekki eðilegt að við fengjum að vita það svo við gætum forðast að treysta slíku fólki fyrir fjármunum þjóðarbúsins?

Share to Facebook

One thought on “Við eigum rétt á að vita það líka

  1. ——————————————–

    Mér líst vel á þetta. Svo finnst mér að tónlistarsmekkur viðkomandi ætti að koma fram líka. Mig grunar að fólk sem hlustar að staðaldri á Bylgjuna sé líka að staðaldri verr innrætt.

    Posted by: Kalli | 14.11.2007 | 13:51:29

    —   —   —

    „Kántrýunnandi tekinn fyrir ölvunarakstur.“

    „Bítlaaðdáandi rænir apótek.“

    „Móðir sökuð um að kæfa nýfætt barn sitt og henda því í ruslagám. Talin dyggur aðdáandi Bubba Morteins.“

    Posted by: Eva | 14.11.2007 | 14:03:15

    —   —   —

    „FM-hnakki handtekinn fyrir akstur undir áhrifum amfetamíns“ hljómar einhvern veginn nákvæmara en „Handtekinn fyrir lyfjaakstur á Selfossi“ jafnvel þótt málfræðilega sé merkingarmunur enginn. 😉

    Posted by: Elías | 14.11.2007 | 14:41:27

    —   —   —

    Hvað með „Lamdi lesbískan leigubílstjóra vegna ælugjalds“. Þetta var ca. fyrirsögn í DV um síðustu helgi.

    Posted by: Guðjón Viðar | 14.11.2007 | 15:16:56

    —   —   —

    Þetta er algjör snilld hjá þér Eva!!!

    Posted by: Þorkell | 14.11.2007 | 17:47:33

Lokað er á athugasemdir.