Vargastefna

Galdur við Stjórnarráðið í dag

Formáli

Undir fyrsta október
eins og flestum kunnugt er
eftir heit um auð og stolt,
öllu var á botninn hvolft.

Um árabil var allt í stuði
álver risu í hverju skuði.
Vegurinn virtist upp í móti
verðbréf, frelsi og gjafakvóti.
Einkavæðing, auðvaldsklíka,
almenningur reyndi líka
útrásinni eftir keppa
allir vildu eiga jeppa.
Græða á daginn, grilla á kvöldin
græðgin tók af lýðnum völdin.

Flestir græddu eins og óðir
eyddu miklu hraðar þó.
Myntkörfur og markaðssjóðir
meira virtist aldrei nóg.
Víkinganna verðlaus fundur
varð í þeirra höndum gull.
Danskinum fannst það alheimsundur,
útrásin var þá kannski bull?

Þenslan var nánast þindarlaus
og þjóðin tók lán, með kindarhaus.
uns yfir sig hún aftur kaus
óhæfa stjórn og gróðaraus.

———-

Góðærisins graftarbóla
Gat nú ekki þanist meir
Ekkert vissu Árni og Sóla
Eða Davíð, Björgvin, Geir,
hvað þá Jón, hvað hafði skeð,
hvernig var það nú fyrirséð?

Stjórnarráðsins stoltu liðar
stóðu vörð um þjóðarhag.
Geiri sagði ‘góðu miðar’
Glitnir hrundi næsta dag.
Virtist eitthvað við það bogið,
varla hafði karlinn logið?
Yfirklórið dugði ei meir

Ekki meir, ekki meir
ekki meir, Geir.

Búin veislan, bólan sprakk
bjargvættirnar fóru á stjá.
Skeyttu ekki um skríl og pakk
skatta og vexti hækka má
Og skuldsetja upp í endagörn
ömmur jafnt sem ófædd börn

Ekki varð þó að því hlaupið
ennþá fleiri lán að fá
til óráðsíu, og ofaní kaupið
alheimurinn hlaut að sjá
að ímyndin var öll að brotna
auðmenn sviku lánardrottna.
Skuldir þær skal þjóðin greiða
þrotabúið þó vill leiða
Geir.

Ekki meir, ekki meir
ekki meir, Geir.

Upp frá bloggi bragnar litu
Borgin mætti á Austurvöll.
Á Ingibjörgu ei þó bitu
undirskriftir, hróp og köll.
‘Þú ert ekki þjóðin góða’
þegna landsins setti hljóða,
og mundu orðið ekki par
út á hvað hún kosin var.

Þjóðina um svör nú svíkja
svínin spillt
Engu sæti vilja víkja
‘verið stillt.
Offorsið mun engu skila
Enn við höfum um að spila
orkulindir, vatn og fisk.’
Evrópu þeir eflaust færa sjálfstæðið á silfurdisk.

Æstur múginn réðst gegn ráni
Rauð er Valhöll er fasismans
Blaktir hún við Bónussfáni
bleiku skrýðist Sómi lands.
Lengi munu Vargar verjast
Völdin taka, vaka, berjast
Óhæfuna út skal bera,
Ingibjörgu, Davíð, Geir.

Ekki meir, ekki meir
Ekki meir, Geir.
Og hér á eftir er svo galdrakvæðið sjálft

Vargastefna

Stefni ég að stjórnvöldum
stéttum öllum,
lærðum sem leikum.
Réttlát skal reiði
á ráðherrum dynja.
Stefni ég varg að véum
stefnivarg að véum.

Rannsókn sæti ráð þeirra
og rottur nagi
samvisku og sálir,
þeirra sem þjóðin
þrálátt treysti.
Fuglinn í fjöru
finni Geir í fjöru.

Víki úr sæti valdhroki,
vinapólitík,
smjaður við smælingja.
Spillta skulu spellvirkja
spjót á standa.
Út skal með illu rekið
illt skal út rekið.

Mávager ég magna
og músaplágu,
kvalræði og kvíða.
Áhyggjur almennings
yfir þeim voki.
sem hrafn yfir hræi.
Kroppi hrafnar hræið.

 

Share to Facebook