Vargastefna fyrirhuguð

Þann 9. nóvember í fyrra gól ég seið gegn stóriðjustefnunni á Austurvelli. Vinnubrögðum alþingis var reist níðstöng, enda er hlutverk þingsins sem útverði lýðræðisins löngu orðið hlálegt. Ég særði vættir landsins til aðgerða og skoraði á þær:

  • að opna augu almennings fyrir gagnsleysi þeirrar taumlausu neysluhyggju sem knýr okkur til að þrautpína náttúruna, kvelja dýr og brjóta gegn mannréttindum,
  • að fletta ofan af stjórnvöldum, stórfyrirtækjum og einstaklingum sem með valdníðslu, spillingu og óhóflegri auðsöfnun stofna náttúru landsins, lýðræði og sjálfstæði í voða, og koma þeim frá völdum
  • að klekkja svo illa á álrisunum að þeir hundskist burt frá þessu landi með stórtjón á bakinu.

Galdrar virka -en yfirleitt ekki á þann hátt sem maður reiknaði með. Ég beið eftir jarðskjálfta á Kárahnjúkasvæðinu. Hann hefur reyndar látið á sér standa en álverð í heiminum hefur hríðlækkað og það er allavega á hreinu á almenningur er búinn að sjá í gegnum spillingaröflin.

Nú þarf að gera enn betur og klára dæmið. Ég ætla því, þann 1. desember að halda vargastefnu við Stjórnarráðið. Ég mun særa fram reiði þjóðarinnar í vargslíki, vættum landsins til hjálpar.

Frá stjórnarráðinu verður svo haldið að Seðlabankanum. Við munum skora á Davíð Oddson að segja af sér og fáum við ekki viðunandi svör, munum við skunda þangað inn og bera hann út -öðrum til varnaðar.

Ég hvet alla til að mæta að Stjórnarráðinu kl 12 þann 1. desember.
Ef þú hefur aðgang að hljóðkerfi, reykvél eða öðru sem nota má til að magna stemninguna, hafðu þá samband við mig sem fyrst.

 

Share to Facebook