Valdsorðaskak – Gestapistill eftir Pétur Þorsteinsson

Nú er það þannig að Ísland á engan her, ekkert bakland þjálfaðra bardagaþursa, til að tryggja völdin, líkt og aðrar þjóðir.

Eini hópurinn sem gæti tekið völdin í landinu á hluta úr degi er lögreglan. Það er ekki það sem stéttin hefur viljað hingað til – en lengi má manninn reyna… (Eða hvað?)

Tilvitnunin hér að ofan er niðurlag Feisbókar-glósu kunns lögreglumanns með langan starfsferil að baki. Hún birtist um miðjan september 2011 og var innlegg í afar heita kjaraumræðu meðal lögreglumanna. Glósan fékk einstaklega góðar viðtökur; tuttugu og þrír vinir lögreglumannsins deildu henni til sinna vina á Facebook og ellefu lesendur gáfu henni þumal upp. Ætla má að hún hafi borist til verulegs hluta lögreglumanna í landinu og vakið umræðu meðal þeirra.

Efast má um réttmæti þess að lögreglumenn ræði valdatöku stéttar sinnar, enda verkefni lögreglunnar að verja stjórnvöld gegn valdránsöflum af öllu tagi. Er ekki dómgreindarleysi af lögreglumanni að gera því yfirleitt skóna að lögreglan sé svo aðþrengd að hún kunni að nota vopn sín og valdbeitingargetu til að gera stjórnarbyltingu á Íslandi?

Afl lögreglunnar til slíkra verka blasir hins vegar við þegar okkur er sýnt það, þótt með orðum sé.Nokkrum dögum síðar, þann 1. október 2011, var Alþingi sett. Lögregluyfirvöld skáru við sig heiðursvörð lögreglumanna við þinghúsið. Sérsveit Ríkislögreglustjóra var ómönnuð þann dag og ekki tiltæk, enda höfðu lögreglumenn sagt sig frá öllum sérverkefnum á hennar vegum. Almennir lögreglumenn stóðu vaktina við Alþingishúsið, þrátt fyrir beinar og óbeinar yfirlýsingar um veikindi og/eða forföll vegna fundarhalda stéttarfélagsins á setningartíma Alþingis. Fram á síðustu stundu var óljóst hversu mikla vernd lögreglan kysi að veita þinginu, ef nokkra.

Ummæli lögreglumannsins og atferli lögreglunnar þann 1. október eru tvær aðferðir til að koma sömu skilaboðum á framfæri við yfirvöld: að lögreglan geti, hvort sem hún heldur kýs, hrifsað öll völd í landinu sjálf eða lagt þau í hendur annarra byltingarafla við réttar aðstæður á Austurvelli.
Styrkur lögreglunnar og veikleikar ríkisvaldsins blasa við stjórnvöldum og almenningi eftir þessa haustdaga. Lýðræðisskipulag á Íslandi virðist í nokkurri óvissu nema lögreglumenn séu sáttir við launin sín. Aðra ályktun er tæpast unnt að draga af orðum og gerðum lögreglumanna haustið 2011. Til gamans má geta þess að félagarnir snéru aftur til starfa í Sérsveit Ríkislögreglustjóra bak þingsetningu og er ekki vitað til að uppsagnir þeirra hafi raskað störfum sveitarinnar, utan þann eina dag er Alþingi Íslendinga var sett.
Share to Facebook