Um meinta hræsni varðandi Geirfinnsmálið

Undarleg og ósannfærandi finnst mér sú hugmynd sem einhverjir halda nú á lofti að það sé tilgangslaust að berjast fyrir endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálanna, nú þegar Sævar er látinn. Þeir eru einnig til sem álíta að það sé tillitsleysi við fjölskyldur þeirra sem í hlut eiga að krefjast endurupptöku. Sumir halda því fram að þar sem enginn sýndi þessum málum áhuga áður, þá sé það tóm hræsni að fara af stað með einhverjar stuðningsaðgerðir nú. Sennilega er lítil þörf á að taka það fram að þeir sem nú hrópa hræsni hræsni lyftu fæstir litla fingri til að gera eitthvað í málunum sjálfir á meðan Sævar lifði.

Það er náttúrulega helber vitleysa að almenningur hafi ekki haft neinn áhuga á þessum málum fyrr eða sýnt stuðning sinn við endurupptöku. Nokkrar bækur hafa verið skrifaðar um þessi mál og veit ég ekki betur en að þær séu víðlesnar, heimildamynd var gerð og sennilega eru þættirnir um þessi mál þeir þekktustu úr þáttaröðinni Íslensk sakamál. Reyndar held ég að varla finnist það mannsbarn á landinu sem þekkir ekki söguna í grófum dráttum. Margir lögfræðingar og stjórnmálamenn lýstu ennfremur hneykslun sinni þegar hæstiréttur hafnaði endurupptöku og margt fleira bendir til þess að bæði lærðir og leikir telji rétt og nauðsynlegt að þessi mál verði endurskoðuð.

Vissulega hefðum við öll átt að rísa upp á afturlappirnar þegar endurupptöku var hafnað á sínum tíma. Við hefðum átt að flykkjast inn í hæstarétt þúsundum saman og halda honum í herkví þar til málið yrði tekið upp. Við hefðum átt að lýsa yfir allsherjarverkfalli. Við hefðum líka átt að sýna Magnúsi Leópoldssyni virkan stuðning þegar hann krafðist rannsóknar á tilkomu Leirfinns, við hefðum átt að gefa bæði Láru Júlíusdóttur Valtý Sigurðssyni skyr. Það er reyndar ekkert of seint að styðja Magnús og marga aðra sem voru órétti beittir og fáist Ögmundur ekki til að beita sér, þá er það einmitt eitthvað slíkt sem við ættum að gera núna.

En það er nú svo að á meðan einhver sem á beinna hagsmuna að gæta er að vinna í málunum, þá eru flestir frekar tregir til þess að vaða af stað af eigin frumkvæði. Við skulum líka athuga að almennileg mótmælamenning verður ekki til á Íslandi fyrr en Saving Iceland hófu aðgerðir sínar árið 2005. Fram að því höfðu beinar aðgerðir verið einkaframtak örfárra mannvera sem oftar en ekki voru taldar andfélagslegir sérvitringar. Hugmyndir landans um mótmæli voru kurteisislegir labbitúrar niður Laugaveginn og ljóðalestur herstöðvarandstæðinga. Þeir sem gengu lengra voru bara klikkhausar. M.a.s. einfaldar en árangursríkar aðgerðir á borð við undirskriftasafnanir voru fremur sjaldgæfar áður en varð auðvelt að setja upp undirskriftasöfnun á netinu. Gífurleg vinna lá á bak við hverja söfnun, bæði þurfti fjölda manns til að dreifa listum og hringja í fólk til að biðja um undirritun og svo gat verið margra klukkutíma ef ekki daga vinna að fara í gegnum listana til að ganga úr skugga um að sömu nöfn væru ekki tvítekin. Fólk stóð ekkert í þessari vinnu nema málefnið væri því meira aðkallandi og það hefði tíma til að sinna því.

Allar stuðningsaðgerðir eru auðveldari í dag en fyrir 10-15 árum. Ef marka má viðbrögð Erlu Bolladóttur og þeirra aðstandenda annarra sem í hlut eiga sem hafa tjáð sig síðustu daga, þá lítur þetta fólk ekki á það sem greiðasemi við sig að málið verði þaggað niður. En þar fyrir utan varðar það okkur öll, hvert einasta mannsbarn sem býr við íslenskt réttarkerfi og hefur hag að því að þar séu vinnubrögð vönduð og stjórnarskrárvarinn réttur manna til réttlátrar málsmeðferðar hafður í heiðri.

Söngur þeirra sem tala um að þeir sem styðja baráttu Sævars núna ættu bara að þegja fyrst þeir gerðu ekkert fyrr, er marklaust hjal. Hafi einhverntíma verið þörf á því að aðrir leggi hönd á plóg er það núna, þegar aðalbaráttumannsins nýtur ekki lengur við. Ég legg því til að þeir sem hneykslast á þeim sem nú sýna stuðning sinn við endurupptöku, geri grein fyrir sínu eigin framlagi til réttlætisins áður en þeir fordæma þá sem fara seint af stað.

Hér er hægt að undirrita áskorun til Ögmundar um að beita sér fyrir endurupptöku.

 

 

Share to Facebook

1 thought on “Um meinta hræsni varðandi Geirfinnsmálið

  1. —————————–

    ,,Söngur þeirra sem tala um að þeir sem styðja baráttu Sævars núna ættu bara að þegja fyrst þeir gerðu ekkert fyrr, er marklaust hjal.“ Þetta er alveg hárrétt hjá þér. Auk þess sem flestir, ef ekki allir, sem hafa tjáð sig opinberlega um þessi mál undanfarið, og krefjast nú endurupptöku, hafa einmitt áður stutt við bakið á Sævari með ýmsum hætti. Sumir opinberlega og aðrir með þeim hætti að minna hefur farið fyrir.

    Posted by: Guðmundur Sigurfreyr | 22.07.2011 | 21:10:55

Lokað er á athugasemdir.