Um fordóma gegn ljóskum

Bubbi Morthens er geðveikt þreyttur á fordómum gagnvart ljóshærðum konum. Heldur því fram að t.d. Anna Mjöll hafi liðið fyrir að vera ljóshærð og sé vanmetin vegna þess.

Af einhverjum ástæðum virðist það alveg hafa farið fram hjá mörgum konum í kvikmynda og tónlistarbransanum að ljóst hár sé þessi ógurlegi dragbítur á velgengni þeirra. Má þar nefna Gwyneth Paltrow, Meryl Streep, Reese Witherspoon, Jennifer Anistone, Kim Novak, Meg Ryan, Sharon Stone, Jodie Forster, Cameron Diaz, Eva Cassidy, Britney Spears, Katherine Jenkins og margar fleiri sem eflaust hafa alveg efni á því að skella sér á hárgreiðslustofu og láta lita hárið á sér dökkt.

Bubbi nefnir þetta klassíska dæmi af Marilyn Monroe sem sagt er að hafi verið vanmetin. Sú kona sýndi ósköp lítil tilþrif sem leikkona, sem stendur nú kannski í sambandi við þau hlutverk sem hún fékk. Á móti má nefna tugi og jafnvel hundruð leikkvenna sem hafa fengið prýðilega dóma þrátt fyrir ljóst hár.

Vel má vera að sakleysislegt útlit standi í vegi fyrir konum sem sækjast eftir valdastöðum. Kona í stjórnunarstöðu er líklegri til að slétta á sér hárið og ganga í snyrtilegri drakt en að koma fram í gervi Önnu Mjallar. Sú ranghugmynd að samband sé milli útlits og gáfnafars og stjórnunarhæfileika er nefnilega nokkuð útbreidd og bitnar alls ekki eingöngu á konum. Smávaxnir karlmenn með sakleysisleg andlit eru t.d. fáséðir í valdastöðum.

Ekkert bendir þó til að ljóst hár eða önnur útlitseinkenni sem þykja kynþokkafull dragi neitt úr vinsældum kvenna í afþreyingargeiranum, sennilega hjálpar ljósa hárið til ef eitthvað er og ég efast um að Anna Mjöll fengi neitt meiri viðurkenningu þótt hún liti út eins og Ragna Árnadóttir. Skýringin á því að Anna Mjöll er ekki eins vinsæl og Bubba finnst hún verðskulda hefur ekkert með hárið á henni að gera. Ekki frekar en að Bubbi er ofmetinn út á skallann á sér.

Share to Facebook

One thought on “Um fordóma gegn ljóskum

Lokað er á athugasemdir.