Þarf ég fitu til að brenna fitu?

Ég hef aldrei verið heilsufrík og ekki fylgst sérstaklega með umræðu um líkamsrækt, næringu og megrun. Þó hef ég ekki komist hjá því að verða hennar vör og stundum heyrt fremur ótrúverðugar staðhæfingar.

Áhugi minn á þessu sviði hefur hingað til verið það takmarkaður að ég hef ekki lagst í leit til að kynna mér sannleiksgildi þeirra fullyrðinga en þegar ég fór að pæla í þessu líkamsvirðingardæmi og skoða næringar- og megrunarumræðuna betur, vaknaði áhugi minn. Ekki beinlíns áhugi á næringarfræði, heldur öllum þeim ótrúverðugu kenningum sem eru uppi um heilsusamlegt líferni.

Nú er það að eitthvað hljómi ótrúlega engin sönnun þess að það sé ekki rétt. Mörg ótrúleg fyrirbæri eiga sér sannarlega stoð í raunveruleikanum. Bæði flugvélar og framsóknarmenn eru t.d. nokkuð algeng fyrirbæri, hverra tilvist ég neyðist til að viðurkenna þótt mér finnist hvorttveggja ótrúverðugt. Ég kann hvorki nógu mikið í eðlisfræði til að geta hrakið það sem virðist nokkuð góð sönnun fyrir tilvist flugvéla, né kann ég nógu mikið í sálarfræði til að geta afskrifað raunverulega framsóknarmennsku. Ég kann heldur ekki nógu mikið í náttúrufræði til að geta afsannað sumt af því sem haldið er fram um næringu og holdafar. Munurinn er samt sem áður sá að ég hef ekki skynsamlega ástæðu til að efast um tilvist flugvéla og framsóknarmanna. Ég hef reynslu af hvorutveggja (þótt ég efist reyndar stundum um reynslu mína). Þegar ég spyr þá sem kunna eðlisfræði hvernig flugvélar virki þá geta þeir útskýrt það, ég hef bara ekki nægan áhuga til að nema það allt. Að vísu hefur enginn getað svarað því með sannfærandi rökum hvernig fólk tileinkar sér framsóknarmennsku en þegar fjallað er um framsóknarmenn fylgja myndir, nöfn og dæmi um það sem þeir gera og segja. Þeir virðast því vera til. Ég hef hinsvegar ekki séð neinar sannanir fyrir ýmsu af því sem sagt er um næringu og megrun, það er því ástæða til að spyrja hvaðan upplýsingarnar séu fengnar og hvernig þær standist rök sem virðast mæla gegn þeim.

Fyrstu spurningarnar sem mig langar að fá svör við varða þessa staðhæfingu:

Þú þarft fitu til að brenna fitu

Þetta hljómar vissulega vel og andartak dettur manni í hug að dagar kalvinismans séu liðnir. En nei ónei, þetta merkir ekki að þar með megirðu fá þér smjör á brauðið eða borða rjómasósu með kvöldmatnum. Þú mátt nefnilega alls ekki borða hvaða fitu sem er, heldur bara fituna sem okkars ætlum að selja þér.

Omega? Jamm, og ég trúi ekki á tilviljanir fremur en flugvélar.

Ég kann lítið í næringarfræði og ætla ekki að þvertaka fyrir það að eitthvað geti verið hæft í þessu en það þarf meira en fullyrðingu til að sannfæra mig. Ég er viss um að fita er líkamanum nauðsynleg og að þeir sem eru bæði við fulla heilsu og í kjörþyngd hafa ekkert illt af fitu, ekki heldur dýrafitu. Ég hef hinsvegar ekki minnstu áhyggjur af því að fá ekki næga fitu. Það er fita í nánast öllum dýraafurðum, baunum, korni og fræjum. Til að fá hættulega litla fitu þyrfti maður sennilega að lifa á sellríi og vodka.

En gott og vel, gerum bara ráð fyrir því að ég sé nógu biluð til að fara á vodkakúrinn, ég myndi þá samkvæmt þessu losna við vatn og vöðva en ekki spik af því að ég þarf fitu til að brenna fitu. Mér finnst það ótrúlegt og nú bara auglýsi ég eftir svörum við eftirfarandi spurningum:

Ef það er rétt að fitu þurfi til að brenna fitu, af hverju horast þá grasbítar sem fá ekki nóg fóður? Það er allavega ekki af því að þeir hafi loksins fengið meiri fitu.

Af hverju halda þá anorexíusjúklingar áfram að grennast eftir að vera búnir að taka allt nema sellerí og tómata út af matseðlinum?

Af hverju grennist þá fólk þegar það býr við hungursneyð?

Og síðast en ekki síst; hvar finn ég marktækar rannsóknir sem sýna fram á að fita brenni fitu?

Og nei það er ekki nóg fyrir mig að fá svör við þessum spurningum, ég sé fram á að vafasöm næringarfræði endist mér í maaaaarga pistla, þetta var bara upphitun.

Share to Facebook

10 thoughts on “Þarf ég fitu til að brenna fitu?

 1. Kæra Eva

  Einusinni var ég á Náttúruleysingjahælinu í Hveragerði, allt sem þar fór fram var rugl, nema ég kynntist fullt af frábæru fólki sem ég hef enn samband við 10 árum síðar. Þó var einn næringarfræðingur þar sem hélt fína fyrirlestra. Hann sagði einfaldlega allir megrunarkúrar eru bull, allt megrunarfæði er einskis virði, þetta er gróðabrall svikahrappa. Það sem máli skiptir er að borða góðan og hollan mat, ekki of mikið og hreyfa sig reglulega. Ekki heimta meira en 0,5 kg á mánuði.

  Þetta hef ég reynt og losað mig við 30 kg.

  Þetta er svipað með frammsóknarmenn, en allti mínir ættminn hafa annað hvort verið það eða svart íhald.
  _______________________________________
  Skilgreining: Frammsóknarmaður

  1) Framsóknarmaður er afkomandi framsóknarmanns og hefur af því einhvern hag (sporslur eða niðurgreiðslur), sem hann ver með kjafti og klóm.
  ( x(t)->x(t+1) )
  2) Upphafsframsóknarmaðurinn var Egill Skallagrímsson ( x(0) )
  ________________________________________________________

  Það dugar ekki að ganga í framsóknarflokkinn til þess að fara að njóta framlaga og styrkja sem frammsóknarmaður, þeir sjá við því og kalla það óframmsóknarlega frammsóknarmenn. Þú verður að vera af framsóknarættum, þá áttu gott í vændum, jafnvel þó þú sért í Samfylkingu.

  Kveðja G

  PS: Þú ritskoðar?

 2. Ja þessu skal ég trúa.

  Ég ritskoða ekki nei. Ástæðan fyrir því að ummæli birtast ekki strax er sú að mér hefur ekki tekist að setja inn spam síu svo það koma mjög mörg komment sem eru bara auglýsingar eða annað rusl. Þeim hendi ég en allt sem varðar efni pistlanna birti ég. Ég hef tvisvar sinnum á þessu ári eytt ummælum án þess að birta þau. Í bæði skiptin var um að ræða meiðandi ummæli um nafngreinda einstaklinga. Ég er almennt á móti ritskoðun en þeir sem finna hjá sér hvöt til að skíta fólk út, verða að finna sér annan vettvang en mínar netsíður.

 3. Nú (a.m.k. 4-5 síðustu mánuði), er hamrað á því að við eigum að borða smjör á brauð, steikja upp úr smjöri, alls ekki sólblómaolíu, þessvegna búa til frostpinna úr smjöri, etc. Ég las laaaangan pistil um þetta nýlega, þar sem úði og grúði af tilvísunum í hávísindalegar rannsóknir. En ég man ekki annað en þetta: Borðum íslenskt saltað smjör!

 4. Gaman að heyra þetta Guðrún, ég er mikið fyrir smjör sjálf. Ég er ekki frá því að allt sem sagt hefur verið um næringarfræði sé lygi. Ef fólki líður vel og er í kjörþyngd þá er sennilega allt í lagi með mataræðið hjá því.

 5. Takk Ragna. Veistu svörin við spurningunum sem ég varpa fram í seinni hluta færslunnar?

 6. Skemmtilegar spurningar sem sennilega er ekki till eitt rétt svar við.
  Hér koma tillögur:
  Líklega grennist fólk af sulti þ.e. hitaeiningaskorti
  Fólk fitnar af kolvetnum
  og svo þessi hérna http://www.skaldeman.se/
  Hann léttist þegar hann sleppti kolvetnunum og fór að borða fituríkan mat

  Kv. jón

 7. Fólk þyngist af því að það innbyrðir meiri orku en það brennir. Það grennist af því að það innbyrðir minni orku en það brennir. Skiptir ekki baun í rassgati hvort sú orka kemur úr kolvetnum, fitu, guðlegum orkustraumum eða Satni sjálfum.

 8. Já ég er sammála þessu.
  Það sagði mér eitt sinn gamall maður frá ágætis þumalputtareglu; að til þess að haldast grannur þá skyldu menn ekki éta meira en þeir skíta.
  Þessi speki dugði mér ágætlega þar til ég varð fertugur.
  Þá fór ég þessi granni maður að þyngjast.
  Núna vitum við að kolvetnin hækka blóðsykurinn, við það dælist insúlín frá brisinu en insúlín er lykilefnið sem segir frumunum að búa til fitu. Þessvegna vil ég ekki leggja allar kaloríur í matvælum að jöfnu eins og hægt er í vélfræði eða rafmagnsfræði. Vil benda á Robert Lustig sem er hér
  http://www.youtube.com/watch?v=0ndTEu_qDGA&feature=relmfu

 9. Takk fyrir ábendinguna, þetta myndband er mjög áhugavert. Og já þetta er áreiðanlega ekki svo einfalt að öll fæða brenni á sama hátt. Einhversstaðar sá ég t.d. að hitaeiningar í áfengi brotni ekki niður í sykur á sama hátt og orka í flestum fæðutegundum. Þar fyrir er nokkuð augljóst að til þess að fitna þarf að borða meira en maður brennir. Og enn sé ég ekki betur en að fólk grennist án þess að borða fitu.

Lokað er á athugasemdir.