Það sem þurfti til að ofbjóða Bjartri framtíð

Nú vitum við loksins hvað þarf til þess að ofbjóða Bjartri framtíð. Það gleður mig í sjálfu sér að flokkurinn hafi slitið ríkisstjórnarsamstarfinu en forsenda Bjartrar fyrir þeirri ákvörðun er umhugsunarverð.

Mikið hefur verið rætt og ritað um leyndarhyggju dómsmálaráðherra síðustu daga en mér finnst rétt að benda á að við það bætist svo frekar fyrirlitleg viðleitni til að hagræða sannleikanum. Sigríður Andersen skýrir tregðu dómsmálaráðuneytisins til að afhenda gögn um mál Roberts Downey með því að sú ákvörðun hafi verið tekin „lögum samkvæmt“ og að ráðuneytið hafi „farið þá leið“ að bíða eftir úrskurði frá Úrskurðarnefnd um upplýsingamál (sjá þetta viðtal við dómsmálaráðherra, mín 2:24-2:50).

Þetta er skýrt dæmi um staðreyndaförðun. Ekki fölsun, ekki bein ósannindi, heldur tilraun til að villa um fyrir áheyrandanum, láta hlutina líta aðeins betur út. Orð Sigríðar má nefnilega skilja á þann veg að ráðuneytið hafi leitað álits úrskurðaraðila og fengið staðfestingu á ákvörðun sinni. Svo er ekki enda er það ekki hlutverk Úrskurðarnefndar um upplýsingamál að þjónusta ráðuneytið eða veita því lögfræðilega ráðgjöf, heldur að skera úr um ágreining að kröfu þeirra sem synjað er um upplýsingar. Þetta kemur skýrt fram í 20. gr. upplýsingalaga. Í þokkabót er svo fráleitt að Úrskurðarnefndin hafi tekið undir álit ráðherra nema að mjög takmörkuðu leyti. Og þetta var enginn klaufaskapur hjá henni Sigríði því daginn eftir leikur hún sama leikinn eins og sjá má í myndbandinu hér að ofan (mín 4:42-5:18).

Í ljósi þess að afgreiðsla ráðuneytisins á gagnabeiði fjölmiðla um uppreistarmál lyktar af leyndarhyggju var full ástæða til þess að láta dómsmálaráðherra víkja. Staðreyndaförðun í kjölfarið ætti að vera kornið sem fyllir mælinn. Forsætisráðherra gerði engan reka að því að hreinsa til í dómsmálaráðuneytinu þrátt fyrir að dómsmálaráðherra hafi brotið gegn lögum í Landsréttarmálinu og síðan legið á upplýsingum að óþörfu í máli Roberts Downey. Sú ákvörðun Bjartrar framtíðar að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu væri í því samhengi rökrétt og skiljanleg.

Það er hinsvegar augljóst hverjum þeim sem fylgist með fjölmiðlum að það sem í raun felldi ríkissjórnina var ekki viðleitni dómsmálaráðherra til að leyna upplýsingum, heldur sú staðreynd að faðir forsætisráðherra gerði barnaníðingi greiða. Bjarni Benediksson geldur ekki sinnar eigin framgöngu eða samstarfsmanna sinna í ríkisstjórn, heldur geldur hann gjörða föður síns, sem koma stöðu hans sem forsætisráðherra ekkert við.

Ef meðmælabréf hins valinkunna föður hans hefði ekki komið fyrir almenningssjónir væri ríkisstjórnarsamstarfið ekki í neinni hættu. Björt framtíð hefði áfram umborið það leynimakk, valdhroka, ættbálkahyggju og spillingu sem einkennir Sjálfstæðisflokkinn. Slíkt framferði mun seint ganga fram af landanum þegar sá flokkur á í hlut, eins og best sést á því að fylgi flokksins jókst í kjölfar Panamahneykslisins enda nægði sá skandall Bjartri framtíð ekki til að hafna ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Við skulum velta því fyrir okkur þegar gengið verður til næstu Alþingskosninga hvar þolmörk þeirra sem við gefum atkvæði okkar liggja. Það er nefnilega ólíklegt að fjarlæg tengsl ættingja stjórnmálamanna við barnanauðgara verði afhjúpuð næst þegar við fáum vonda ríkisstjórn svo kannski væri heppilegra að kjósa fólk sem sættir sig heldur ekki við einkavinapólitík með tilheyrandi baktjaldamakki og valdníðslu.

Share to Facebook