Sniðugur dómari Pétur

Þá er fallinn dómur í nímenningamálinu. Sniðugur dómari Pétur. Dæmir ekki nógu svívirðilega til að von sé til þess að almenningur verði bandbrjálaður en þó þannig að nímenningarnir séu sekir. Um eitthvað. Nánar tiltekið ‘brot gegn valdstjórninni.’ Dómskerfið er ólíkindatól og maður átti svosem allt eins von á því að þau yrðu fundin sek um valdaránstilraun svo það liggur við að maður segi bara hjúkket! þótt auðvitað hefði maður helst viljað að þessu yrði bara vísað frá.

Það er hægt að taka hvaða atvik sem er og túlka það sem brot gegn valdstjórninni. Sjúkraliði með pappaspjald framdi brot gegn valdstjórninni með því að halda fram rétti sínum til að standa á almennri gagnstétt. “Brot gegn valdstjórninni“ er í dag jafn sterk rök og “það stendur í Biblíunni“ fyrir 200 árum. Og á þeim byggist dómurinn.

Að vissu leyti vorkenni ég dómaranum. Hann var í erfiðri aðstöðu. Ef hann hefði sýknað þau af öllum ákærum hefði hann sennilega verið lagður í einelti og eflaust hefði yfirvaldið (nei ég á ekki við Alþingi, heldur hið raunverulega pólitíska vald sem stjórnar Alþingi, dómskerfinu, bankakerfinu og fjölmiðlum) fundið einhverja leið til að refsa honum almennilega.

Því þetta mál snerist ekkert um valdarán, hryðjuverk eða mann sem beitti tönnunum þegar hann var tekinn kjálkataki. Það snerist um einmitt það sem þau voru dæmd fyrir ‘brot gegn valdstjórninni’. Sem er nánar tiltekið hver sú hegðun sem fer í taugarnar á einhverju yfirvaldi.

Share to Facebook