Skiptir fjöldinn silfurskeiðadrengina máli?

Eitt af fyrstu afrekum Sigmundar Davíðs í embætti forsætisráðherra var að láta frá sér ummæli á þá leið að þegar hundruð manns sendu inn samskonar athugasemdir vegna aðgerða sem hafa umhverfisáhrif þá væri eðlilegt að skoða það sem eina athugasemd.

Þetta verður að teljast frekar anarkískur skilningur á lýðræðinu; það er ekki fjöldinn sem hefur skoðunina sem skiptir máli heldur það hversu mikið vit er í henni.  Þetta anarkíska viðhorf SDG væri mér líka fagnaðarefni ef hann hefði einnig það anarkíska viðhorf að hvort sem skoðun er vinsæl eða óvinsæl beri samfélaginu að taka hana til athugunar, með opnum huga og með sanngirni, velfarnað og sátt að leiðarljósi. En það viðhorf hefur SDG ekki heldur telur hann vilja stjórnvalda skipta meira máli en það hversu mikið vit er í ákvörðunum þeirra. Og það er ekki lýðræðislegt.

Því miður byggist það ófullkomna afbrigði lýðræðis sem við búum við ekki á víðtæku samráði og virkri hlustun heldur eru það vinsældir manna og málefna sem ráða för. Þegar menn eru svo búnir að afla sér og sínum hugmyndum vinsælda með áróðri og fögrum loforðum, geta þeir sem best fallið frá þeim og gert það sem þeim sýnist næstu árin. Þeir verða þó að reyna að halda nógu miklum vinsældum til að eiga möguleika á endurkjöri en þar er áróður stundum áhrifameiri en góð verk.

Þessi galli á lýðræðinu gerir það að verkum að eina aðferðin til þess að hafa áhrif á mikilvægar  ákvarðanir sem almenningi stendur til boða er sú að sannfæra stjórnvöld um vinsældir tiltekinnar skoðunar. Það er ekki nóg að sannfæra þau um að sé vit í hugmyndinni, heldur þarf að stofna hreyfingu, afla fylgis, safna liði… Þetta er eina leiðin en samt sem áður, og þrátt fyrir það að stjórnmálakerfið sjálft byggi á hugmyndinni um meirihlutavald, hefur formaður Sjálfstæðisflokksins látið hafa eftir sér að þjóðaratkvæðagreiðslur séu „ólýðræðislegar“.

Samkvæmt ummælum beggja leiðtoga ríkisstjórnarinnar er skoðun ekki betri þótt margir hafi hana. Ekki hef ég þó orðið þess vör að hugmyndir minnihlutans séu teknar til greina nema þegar sá minnihluti hefur hagsmuni auðvaldsins að leiðarljósi.    Meirihlutinn á ekki að ráða og ekki er þörf á að hlusta á minnihlutann. Nema auðvitað útgerðarmenn. Hvað heitir sú stjórnmálastefna?

Ég er að velta því fyrir mér hvort Sigmundi Davíð finnist nokkuð meiri ástæða til að taka mark á 14.000 undirskriftum (þegar þetta er skrifað) en 200 bréfum með sama erindinu.

En ef ríkisstjórnin ætlar að hundsa okkur er hægt að klaga í Óla, liggaliggalá, svo auðvitað skrifum við öll undir áskorun um óbreytt veiðigjald. Athugið að til þess að undirskriftin komist til skila þarf að fara í tölvupóstinn og staðfesta hana.

Einnig birt hér

Share to Facebook

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.