Saga strokuþræls – 7. hluti

Til Íslands
Hann fór að ráðum félaga sinna. Kærði úrskurðinn en beið ekki eftir niðurstöðu. Afhenti manni sem heimsótti flóttamannabúðirnar alla peningana sína og fékk í staðinn falsað vegabréf og flugmiða til Kanada. Honum var sagt að hann myndi millilenda á Íslandi en það væri ekkert mál því þar væri ekkert vegabréfaeftirlit.

Um leið og hann fékk gögnin fékk hann blað með tölustöfum og nokkrum strikum sem vöktu athygli hans. Hann spurði félaga sinn út í þetta blað og fékk þær skýringar að merki rauða krossins táknaði að tölurnar hefðu verið lagðar saman, tvö þverstrik táknuðu að talan fyrir aftan þau væri samanlögð upphæð og eitt þverstrik að upphæðin fyrir neðan hefði verið dregin frá. Þetta var víst eitt af því sem börn lærðu í skólum, var honum sagt. Og tilfinningin flóði einhvernveginn yfir hann. Þetta var einfalt. Hann skildi þetta. Samt var þetta nánast eins og galdur. Galdur sem allir Norðmenn þekktu, allir Spánverjar, margir Afríkumenn líka. Kannski allir sem einhverntíma höfðu gengið í skóla. Það eru skólar allsstaðar, líka í Kanada, hugsaði hann. Svo steig upp í flugvél í fyrsta sinn á ævinni og þegar vélin tókst á loft varð hann smeykur en kyngdi óttanum og einbeitti sér að draumnum um að kannski kæmist hann í skóla í Kanada.

Hann millilenti á Íslandi 19. desember 2010 og komst að raun um að hann hefði ekki fengið alveg réttar upplýsingar um eftirlitsleysið á Leifsstöð. Þvert á móti þótti öryggisgæslunni vegabréfið hans einkar áhugavert. Hann var handtekinn og dæmdur fyrir skjalafals, þrælborinn maður sem kunni ekki að skrifa nafnið sitt og hafði komist að því aðeins nokkrum dögum fyrr að samlagningartáknið væri ekki merki Rauða Krossins. Að vísu er skýrt tekið fram í flóttamannasamningi SÞ (sem Íslendngar eiga aðild að) að ekki megi refsa fólki sem hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, fyrir að framvísa fölsuðum eða stolnum skilríkjum en þar sem Íslendingar hafa aldrei séð ástæðu til að virða mannréttindi einhverra halanegra sem hafa unnið sér það til óhelgi að fæðast á röngum stað, eru mannréttindabrot gegn flóttamönnum bundin í lög á Íslandi. Mouhamed var því samkvæmt þessari dásamlegu réttvísi stungið í fangelsi á þeirri forsendu að flóttamenn komi ekki til Íslands beint frá ríki þar sem lífi þeirra er ógnað.

Samkvæmt strangasta skilningi flóttamannasamningsins hefði hann átt að sækja um hæli á Spáni (það er orðið of seint núna því ef hann fer þangað aftur er hann ekki að koma beint frá Máritaníu og Spánverjar geta notað það sem réttlætingu alveg eins og útlendingastofnunin okkar.) Glæpur hans fólst þannig ekki aðeins í þeirri yfirgengilegu frekju að vilja lifa fram yfir fimmtugt og það án þess að þola ofbeldi og hungur heldur ekki síður í því að hafa fæðst til þrældóms og fáfræði.

Auðvitað á fólk sem elst upp við þessar aðstæður að hafa rænu á því
að sækja um hæli í því landi sem reglugerðir gera ráð fyrir.

 

Share to Facebook