Flóttinn

Hátt hlutfall svartra manna í Máritaníu eru þrælar. Að vísu hefur þrælasala verið ölögleg þar frá árinu 1981 en þótt opnir þrælamarkaðir tíðkist ekki er hefðin fyrir erfðaþrælum mjög sterk og tilraunir mannréttindasamtaka til að sporna gegn þrælahaldi hafa litlu skilað. Þrælahald var ekki gert refsivert fyrr en 2007 en ennþá hefur enginn dómur fallið vegna þrælahalds.
Í borgunum eru þrælar kallaðir vinnufólk en þeir fá ekki önnur laun en fæði, húsnæði og í skársta falli smánarlega vasapeninga. Enda þótt þeim sé að nafninu til frjálst að fara burt, ríkir samkomulag milli húsbænda um að ráða ekki þræla annarra í vinnu. Þeim er markvisst haldið í fáfræði, bæði um réttindi sín og allt annað sem gæti gagnast þeim og þeir sem velja frelsið búa oft við algera örbirgð, í raun lítið skárri aðstæður en sem þrælar. Eyðimerkurþrælar eiga ennþá minni möguleika á að komast undan þrældómnum en borgarþrælar. Þeir eru enn verr upplýstir, ennþá neðar í virðingarstiganum og liðsmenn mannréttindasamtaka eiga mun erfiðara með að aðstoða þá.
.
Þar sem gróður og vatnslindir endurnýjast seint í eyðimörkinni, þurfa hirðingjasamfélög að flytja sig úr stað á nokkurra mánaða fresti. Mohammed fæddist í þeim hluta Máritaníu sem liggur að Senegal en á þeim tveimur áratugum sem hann hafði lifað, hafði samfélagið ferðast langa leið og nú var hann staddur nær  Nouadhibou, mun norðar í landinu. Foreldrar hans voru látnir, vinnuharkan ennþá verri en áður og ofbeldið af hálfu húsbóndans jókst þegar systkinin önnuðu ekki vinnunni á eigin spýtur.
.

Eitt sinn var Mohammed barinn svo illa í andlitið að tvær framtennur brotnuðu úr honum. Barsmíðar voru svosem engin nýlunda en ástandið hafði versnað og hann var hann orðinn hræddur um líf sitt og systur sinnar. Hann hafði oft hugsað um það síðan faðir hans dó en nú var hann ákveðinn. Hann ætlaði að strjúka. Hann hefði ekki getað yfirgefið foreldra sína og það kom ekki til greina að fara og skilja systurina eftir eina en hann trúði því hreinlega ekki upp á Guð að hann myndi senda hann til Helvítis og hann vissi að til væri betra líf. Það hlyti að vera einhver leið til að koma þeim báðum undan.

Hann fékk vin sinn til að gæta hjarðarinnar á meðan hann gerði sér ferð til smábæjar í nágrenninu.  Þar komst hann í samband við frjálsa svarta menn sem sögðu honum að í  væri fólk sem hjálpaði storkuþrælum. Hann skildi systur sína eftir með hjörðina, reið úlfalda langleiðina til Nouadhibou, batt hann fyrir utan þorpið og bað til Guðs um að hann yrði þar enn þegar hann kæmi til baka. Í Nouadhibou fann hann mann sem honum hafði verið bent á að leita til. Niðurstaða samtals þeirra var sú að ef Mohammed gæti útvegað einn úlfalda til að standa staum af ferðakostnaði, gæti viðmælandinn komið systur hans til kunningjafólks síns í Senegal og Mohammed sjálfum til Spánar. Það væri raunhæfasta leiðin til að koma þeim báðum í örugga höfn.

Ég veit ekki hvort velgjörðarfólk Mohammeds og systur hans, í Nouadhibou, tilheyrir bara einni fjölskyldu eða hvort um er að ræða skipulagða andspyrnuhreyfingu. Það sem ég veit er að nokkrum dögum síðar kvaddi Mohammed systur sína og horfði á eftir henni þegar hún reið einum af úlföldum húsbóndans í átt til Nouadhibou. Mohammed varð eftir, bæði af því það var ekki hægt að útvega honum far til Spánar strax og það yrði áhættusamara að leynast í borginni ef þau væru saman. Þau vissu ekki hvort þau fengju nokkurntíma að sjást framar.

Þegar húsbóndinn kom, nokkrum dögum síðar og uppgötvaði að bæði dýrið og stúlkan voru horfin, varð hann æfur. Mohammed sagðist ekkert vita hvað hefði orðið af systur sinni, hún væri líklega að leita að úlfaldanum sagði hann en húsbóndinn trúði því ekki að Mohammed hefði látið systur sína leita að týndum úlfalda frekar en að biðja einhvern karlmannanna um hjálp. Hann taldi víst að hún hefði strokið og þegar hún hafði enn ekki látið sjá sig nokkrum klukkustundum síðar, taldi hann óþarft að leita annarra skýringa. Mohammed var bundinn við staur og hýddur með greinum og áður en húsbóndinn kvaddi sagði hann honum að ef systir hans og úlfaldinn yrðu ekki komin aftur næst þegar hann kæmi, þá myndi hann höggva af honum höndina og drepa hann svo. Kannski var það bara hótun, en Mohammed sá enga ástæðu til að reikna með því. Þjófar eru handhöggnir í Vestur Afríku, ekki fyrir smáþjófnað að vísu en úlfaldi er það verðmætasta sem eyðimerkurþræll er fær um stela og það er engin sérstök stemning fyrir því að láta þræl njóta vafans.

Hann bara fór. Hann var í uppnámi eftir barsmíðarnar og hótanirnar og vissi heldur ekki hvort eigandinn kæmi aftur að viku liðinni eins og venjulega eða hvort hann bryti venjuna og kæmi fyrr þar sem hann hafði ástæðu til að vantreysta þrælnum. „Ég óð bara af stað, hugsaði ekki mikið út í það, vildi bara komast burt sem fyrst“ segir hann. Hann hefði getað tekið annan úlfalda en hann þorði það ekki. Þar sem hann hafði ekki kaupanda var óvíst að hann gæti selt dýrið og það hefði vakið óþægilega athygli ef þeldökkur maður hefði boðið úlfalda til sölu án þess að gera grein fyrir því hver sendi hann þeirra erinda. Löngu síðar hugsaði hann sem svo að hann hefði allavega getað tekið úlfalda til að stytta sér leiðina og skilið hann eftir áður en hann kæmi í nágrenni borgarinnar, rétt eins og hann hafði gert þegar hann fór þangað í fyrra skiptið en á því augnabliki hvarflaði sá möguleiki ekki að honum, hann bara lagði af stað fótgangandi, með það litla sem hann gat borið af vatni og vistum.

Hann var þrjá daga á leiðinni til Nouadhibou, kom þangað svo þjakaður af þreytu og hungri að hann stóð varla undir sér. Systir hans þegar lögð af stað til Senegal.

Hann leyndist í borginni í nokkrar vikur en að lokum tókst bjargvætti hans að koma honum um borð í bát sem var á leið til Spánar. Ferðin tók fimm sólarhringa á opnum báti. Um borð voru auk Mohammeds 22 karlar og 2 konur. Hvergi hægt að halla sér svo farþegar áttu ekki annars kost en að dotta niður í bringuna á sér. 5 manns dóu á leiðinni. Ekki af því að neitt væri að þeim. Þeir köstuðu bara upp þar til vökvatapið dró þá til dauða.

Share to Facebook

2 thoughts on “Flóttinn

  1. Þakka þér hjartanlega fyrir þessa greinargerð. Færðu upplýsingarnar gegnum No Borders og/eða hann sjálfan?

    Leitt að sjá umræður um þetta málefni snarfalla á síðunni þinni, samanborið við orrahríðina alla kringum frjálsar konur og líkama þeirra.

  2. Takk Katrín. Ég hitti Mohammed reglulega. Hann kunni enga ensku þegar hann kom til Íslands og mjög litla frönsku svo við þurftum að fá túlk sem talar wolof til að fá botn í söguna. Það tók marga klukkutíma að fá þessar upplýsingar fram, því hann gerði sér litla grein fyrir því sjálfur hvaða þættir sögu hans skiptu máli. Hann telur að viðtalið við túlkinn sem útlendingastofnun útvegaði hounm, (og ræddi við hann á frönsku) hafi tekið 15-20 mínútur.

Lokað er á athugasemdir.