Rasismi og rétttrúnaður

fyrirokkars-688x451

Eitt af því sem gerir umræðu um málefni innflytjenda stundum erfiða er pólitískur rétttrúnaður. Annað sem gerir hana erfiða er rasismi. Og þegar tveir hópar kasta þessum hugtökum hvor í annan eins og skít, án þess að velta merkingu þeirra sérstaklega fyrir sér, er lítið á þeirri umræðu að græða.

Síðustu daga hefur sú skoðun heyrst að andúð á islam sé ekki rasismi því trú sé óháð kynþætti. Nokkrir áhrifamenn hafa einnig afgreitt reiði almennings, vegna afstöðu Kópavogsframbjóðanda Framsóknarflokksins í Reykjavík til lóðarúthlutunar til moskubyggingar, sem pólitískan rétttrúnað. Mér finnst því ástæða til að ræða hugtökin rasimi og rétttrúnaður.

Rasismi og ný-rasismi

Enda þótt bókstafleg merking orðsins rasismi sé kynþáttahyggja, er það einnig notað um það að draga fólk í dilka eftir trú og menningarbakgrunni.  Sumir nota orðið ný-rasismi í þessu samhengi. Það væri auðvitað best ef einhver styngi upp á heppilegra orði en ástæðurnar fyrir því að orðið rasismi eða ný-rasismi er notað í þessari útvíkkuðu merkingu eru einkum tvær: Annarsvegar sú að fordómar á grundvelli trúar og menningar eru nákvæmlega sama eðlis og kynþáttahyggja. Hinsvegar sú að fylgnin milli trúar, menningarbakgrunns og kynþáttar var svo sterk allt fram á 20. öldina að menn gengu hreinlega út frá því að þetta færi saman.

Eins og ég benti á í þessum pistli er rasismi ekki endilega stjórnlaust hatur.

Rasismi er það að álíta suma hópa samfélagsins réttborna til meiri þæginda, frelsis og fyrirgreiðslu en aðra. Að setja þægindi „okkar fólks“ ofar mannréttindum „hinna“.

Sú hugmynd að okkur standi ógn af ókunnugum er útbreidd og hún er lúmsk og það er í raun skiljanlegt í ljósi þess að maðurinn er hjarðdýr. Ég held að langflest fólk falli einhverntíma í þá gryfju að líta niður á útlendinga eða óttast þá, ég hef staðið sjálfa mig að því þrátt fyrir megna óbeit á rasisma, og við gerum sjálfum okkur engan greiða með því að afneita þessari tilhneigingu. Við þurfum að horfast í augu við hana og takast á við hana.

En sumir hafa bara engan áhuga á að takast á við sinn eigin rasisma. Sumir telja það bara í alvöru ekkert vandamál að vilja mismuna fólki á grundvelli kynþáttar, trúar eða menningarbakgrunns. Þeir vita auðvitað vel að afstaða þeirra er ekkert annað en rasismi og þar sem þeir hafa engin skynsamleg rök fyrir afstöðu sinni grípa þeir til þeirrar nauðvarnar að kalla skoðanir andmælenda sinna „pólitískan rétttrúnað“.

Það sem pólitískur rétttrúnaður felur í sér

Pólitískur rétttrúnaður er vissulega sterkur meðal hugsjónafólks. Hann felur í sér afneitun á vandamálum, mikla og hatramma tortryggni gagnvart hverjum þeim sem verður vís að fordómum og gerir það að verkum að það er varla hægt að ræða þau vandamál sem koma upp í samfélagi, til dæmis þegar árekstrar verða milli fólks með ólíkan menningarbargrunn. En pólitískur rétttrúnaður er ekki það að vera ósammála Jóni Magnússyni og öðrum þjóðernissinnum.

Pólitískur rétttrúnaður er það þegar hollusta við ákveðinn málstað og/eða hóp, verður heilbrigðri skynsemi yfirsterkari og tekur ekki tillit til forsögunnar, samfélags eða einstaklingsaðstæðna.

Það er dæmi um pólitíska rétthugsun að vilja gefa afslátt af tjáningarfrelsinu þegar hætta er á að það móðgi minnihlutahóp.  Það er líka pólitískur rétttrúnaður sem er að verki þegar hryðjuverk eru afsökuð, eða ofsóknir gagnvart þeim sem hafa móðgað minnihlutahóp eru réttlættar eða þolandinn gerður ábyrgur. Það er pólitískur rétttrúnaður ef má ekki fordæma heiðursmorð, grýtingar, barnabrúðkaup og önnur mannréttindabrot sem tíðkast í þriðja heiminum, því það sé „bara þeirra menning“. Það er pólitískur rétttrúnaður að afneita því að gengjamyndun er áberandi meðal barna innflytjenda á hinum Norðurlöndunum.

Það sem pólitískur rétttrúnaður er ekki

Það er hinsvegar ekki pólitískur rétttrúnaður að hafna mismunun á grundvelli trúarbragða og menningarbakgrunns. Það er heldur ekki pólitískur rétttrúnaður að krefja þá sem telja múslimi stórhættulegar afætur um einhver áreiðanlegri gögn en fullyrðingar af vefsíðum nýnasista, þar sem iðulega er slengt fram tölfræði sem hvergi finnst í áreiðanlegum gögnum. Og það er ekki pólitísk rétthugsun að benda á að fjandskapur í garð innflytjenda stuðlar beinlínis að því að fyrsta kynslóð Íslendinga (sem oftast er ranglega nefnd önnur kynslóð innflytjenda) verði jaðarhópur sem bregst við þjóðerniskreppu sinni með því að skapa sína eigin menningu.

Það er ekkert erfitt að svara pólitískum rétttrúnaði. Það þarf bara að benda á rökvillurnar. En þjóðernissinnar eru bara ekkert að takast á við pólitískan rétttrúnað í þessu moskumáli heldur skynsamleg rök. Þeir geta ekki svarað þeim og þessvegna reyna þeir að kæfa gagnrýni á ný-rasismann með órökstuddum fullyrðingum um pólitískan rétttrúnað.

Og ef einhver efast um að sú þjóðernishyggja sem þrífst á Íslandi í dag eigi eitthvað skylt við rasisma eða nazisma, horfið þá á Kastljós gærkvöldins.

Ég skrifaði einnig um muninn á pólitískri afstöðu og pólitískum rétttrúnaði hér.

Share to Facebook