Pírataskjaldborgin, fjármálaráðherra og sjötta boðorðið

screen-shot-2015-09-01-at-11-13-24-688x451Mikið gæfuspor yrði það ef kjósendur sýndu jafn mikinn áhuga á störfum fjármálaráðherra og meintum bólfararáformum hans. En með fullri virðingu fyrir einkalífi Bjarna Ben og grunnstefnu pírata, þá er þessi pistill afar langt frá því að vera það skynsamlegasta sem sagt hefur verið um stóra Madison-málið.

Auðvitað er það freklegt brot gegn einkalífi fólks að birta upplýsingar um hverskyns fallerí opinberlega en að bera þessa innrás í einkalíf ráðherra saman við það það friðhelgisbrot sem Tony Omos varð fyrir, það er í skársta falli stórfurðulegt.

Munurinn á máli Tony Omos og Bjarna Ben

Það að óprúttinn hakkari leki út upplýsingum um hugsanlega kynlífsskandala ráðherra, er ekki sambærilegt við að aðstoðarmaður innanríkisráðherra gefi fjölmiðlum persónuupplýsingar sem eiga að fara leynt og  spinni auk þess upp sögu um að skjólstæðingur Útlendingastofnunar kunni að hafa framið að glæp sem við liggur allt að 12 ára fangelsi. Það hlýtur að vera eðlilegt að gera þá kröfu að starfsmenn ríkisstofnana hegði sér ekki eins og netglæpamenn.

Tony Omos var hælisleitandi, sem átti allt sitt undir Innanríkisráðuneytinu og stofnunum sem undir það heyra. Hann tilheyrir neðsta lagi samfélagsins; því sama og fíklar og fangar, sem flestir hafa þó í það minnsta vald á því tungumáli sem talað er í kringum þá og þekkja innviði samfélagsins betur. Það er varla hægt að hugsa sér mikið viðkvæmari fórnarlömb en Tony Omos og Evelyn Glory Joseph. Bjarni Ben er hinsvegar einn af valdamestu mönnum landsins. Þótt hann sé vissulega berskjaldaður gagnvart því slúðri sem fer af stað þegar  viðkvæmar persónuupplýsingar leka í fjölmiðla, á hann ekki á hættu að honum verði vísað úr landi og hann sviptur tækifæri til að sjá börnin sín alast upp. Við skulum hafa í huga að trúnaðarbrot og söguburður Innanríkisráðuneytisins stóð í beinu sambandi til tilraun No Borders til að fá viðurkenndan rétt Tony Omos til að vera hjá fjölskyldu sinni.

Tony Omos hafði enga ástæðu til að ætla að fjölmiðlar hefðu áhuga á honum. Stjórnmálamaður, að maður tali nú ekki um stjórnmálamann sem ætlar sér mikil völd, getur reiknað með því að einkalíf hans veki áhuga almennings og að pólitískir andstæðingar hans muni nota það til að koma á hann höggi. Þetta á ekki síst við þegar hann sýnir hegðun sem víkur frá því kristilega siðferði sem framámenn flokks hans halda á lofti.

Tony Omos hafði ekkert val um það hvaða upplýsingar væru skráðar um hann hjá Innanríkisráðuneytinu og öðrum stofnunum og reyndar var hluti þeirra „upplýsinga“ sem Gísli Freyr Valdórsson gaf fjölmiðlum, ekkert annað en hans eigin hugarórar. Stjórnmálamenn ráða því hinsvegar sjálfir hvort þeir skrá áhuga sinn, á því að skvetta úr skaufanum, á vafasama netsíðu.

benvsomos

Hvað getum við lært af þessari uppákomu?

Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að einhver skuli líkja lekanum um Madison-skráningu fjármálaráðherra við trúnaðarbrot Innanríkisráðuneytisins. Það kemur mér hinsvegar á óvart að einn af forkólfum pírata skuli bjóða upp á aðra eins þvælu og það undir merkjum grunnstefnunnar. Einnig furða ég mig á því hversu margt fólk, sem veit betur, hefur klappað fyrir þessum kjánalegu ummælum. Fyrst meintur pírati vildi endilega bera Bjarna Ben saman við Tony Omos hefði verið nærtækara að benda á það eina sem þeir eiga sameiginlegt; að vera kannski ekki algerlega einnar konu menn, eða hafa í það minnsta rennt girndarauga fram hjá barnsmæðrum sínum. Munurinn er þó sá að sú hegðun er viðurkennd í Nígeríu, föðurlandi Tony Omos, þar sem fjölkvæni er ennþá algengt og sumsstaðar löglegt, en ekki á hinu (að nafninu til) kristna Íslandi.

En nóg um það. Nú legg ég til að við tökum öll tvær mínútur í að vorkenna Bjarna Ben og Þóru konu hans, sem sannarlega eru þolendur ósmekklegs afbrots, en lítum svo á björtu hliðina á þessari hörmungarsögu. Uppátæki fjármálaráðherra vekur nefnilega von um að hann hafi alvarlegar efasemdir um, að minnsta kosti hið sjötta í röð þeirra tíu boðorða sem ásamt ýmsum aldagömlum og úreltum ritum mynda kenningargrundvöll Þjóðkirkjunnar.

Væri ekki rétt að nýta þetta gullna tækifæri til að horfast í augu við það að ekki einu sinni formaður þess flokks sem hefur mælt með því að lagasetning í landinu taki mið af „kristnum gildum“ tekur þau sérlega alvarlega í einkalífi sínu? Væri ekki rétt, í stað þess að þrátta um hvort við ættum frekar fordæma ráðherra fyrir Madison-gjörninginn eða slá um hann skjaldborg, að leggja þær vangaveltur til hliðar og líta frekar á uppátækið sem merki um að það sé tímabært að aðskilja ríki og kirkju?

Share to Facebook