Ósigur yfirvofandi

Röddin í símanum var klökk.

-Helvítin hafa vaðið hér um allar sveitir síðustu vikur og herjað á fólk, og mest þá sem þeir vita að eru í fjárhagsvandræðum. Í allavega einu tilviki óðu þeir inn á landareign til að gera einhverjar rannsóknir án leyfis landeiganda, töluðu bara við unglinginn á heimilinu og fannst það víst nóg. Ég hef aldrei heyrt jafn þungt hljóð í mínum félögum fyrr. Björk er víst komin með einhverja bakþanka, ekkert víst að hún komi hingað austur og það stendur til að samningar við landeigendur í Rangárvallasýslunni verði undirritaðir á mánudaginn. Við erum hrædd um að Landsvirkjun komi hingað með vinnuvélar strax í næstu viku.


-Eru samtökin að skipuleggja einhverja aðgerð sem þau vilja þiggja aðstoð við? 
spurði ég og svarið var á þá leið að samtökin vildu alls ekki að aktivistar færu að æða austur og hafa sig í frammi.
-Sko, þau vilja frekar vinna þetta með lipurðinni.
-Um helgina semsagt?
-Ja, jaaá. Þau vilja allavega engin vandræði. 

Jamm. Þannig er nú það. Samtökin Sól á Suðurlandi hafa ekki sýnt nokkurn áhuga á samstarfi við Saving Iceland. Vilja vinna neðri Þjórsá á diplómatískan hátt. Við höfum algerlega virt það sjónarmið. Allar aðgerðir Saving Iceland viðkomandi Þjórsá, hafa verið svo penar og máttlausar að það hefur varla nokkur maður frétt af þeim. Við höfum haldið á skiltum, heimsótt Þórunni, galdrað smá, skrifað smá… ekkert róttækt.

Og enn finnst náttúruverndarfólki í Sól á Suðurlandi ekki kominn tími á beinar aðgerðir. Vinna þetta á lipurðinni. Enda er heil helgi til stefnu enn og óþarfi að vera eitthvað að æsa sig. Um að gera að prófa málefnalegu aðferðina fyrst. Kannski ljóðalestur við Urriðafoss verði til að snúa þeim.

Ég vona að það dugi til. Eða er hægt að nota orðið von, þegar enginn vottur af trú er til staðar?

 

Share to Facebook

1 thought on “Ósigur yfirvofandi

 1. ————-

  Ég er bara að spá, hafa beinu aðgerðir ykkar skilað einhverju öðru en málaferlum? Ég er alfarið á ykkar máli, og þakklát fyrir aðgerðirnar. En hafið þið einhvern tímann náð að stöðva atganginn í yfirvöldum?

  Posted by: Kristín | 20.06.2008 | 19:55:46

  ————-

   Við höfum ekki ennþá náð að stöðva eina einustu, enda erum við bæði fáliðuð og fátæk. Við höfum eingöngu náð að halda umræðunni vakandi og vekja athygli erlendra fjölmiðla á því sem er að gerast í umhverfismálum á Íslandi. (Við sjáum það t.d. á því að margt fjölmiðlafólk sem kemur hingað til að fjalla um náttúru og náttúruvernd hefur samband við okkur til að fá upplýsingar.)
  Þótt við höfum ekki náð að bíta hausinn af Landsvirkjun, merkir það ekki að beinar aðgerðir séu gagnslausar. Aktivistahreyfingar víða um heim hafa náð að stöðva framkvæmdir, jafnvel eftir að þær hófust. Mesti árangurinn af beinum aðgerðum er þó yfirleitt sá að þær vekja eftirtekt. Fólkið sem les ekki fræðigreinar, horfir ekki á fréttaskýringaþætti og heimilidamyndir og skannar aðeins fyrirsagnir í blöðunum, jafnvel það fólk fer að hlusta á óþægilegar spurningar þegar það mætir í vinnuna og byrjar daginn á kaffipásu af því að það er einhver hippi hlekkjaður við jarðýtuna. Í þessari aðgerð sem ég var viðstödd á Hellisheiði, kom t.d. í ljós að yfirmaður öryggiseftirlitsins á staðnum hafði ekki hugmynd um að stækkunin væri á nokkurn hátt tengd áliðnaði. Hann veit það núna 🙂

  Posted by: Eva | 20.06.2008 | 22:13:12

  ————-

  Ég er á því að þau hjá Sól á Suðurlandi ættu að hætta allri kurteisi nú á elleftu stundu, kalla til vitni (fjölmiðla), öskra og berja sér á brjóst, og sýna örvæntingu sína í verki. Ég held að það verði ömurlegt fyrir þau að horfa upp á framkvæmdir hefjast, vitandi að þau reyndu ekki ALLT.
  Heyrðu, þið eruð fátæk. Ég er ekki fátæk. Hvert sendir maður stuðning í beinhörðum?

  Posted by: Kristín | 21.06.2008 | 6:32:10

  ————-

  Kristín, ef þú vilt senda beinharðann stuðning til Saving Iceland, þá er um að gera að senda fyrst lítið bréf á savingiceland@riseup.net og biðja um reikningsnúmerið. Einfalt mál.

  Posted by: Snorri | 22.06.2008 | 16:43:27

Lokað er á athugasemdir.