Opið bréf til Höllu Gunnarsdóttur

Ég var að hlusta á Spegilinn -og nei Halla Gunnarsdóttir, þú þarft ekkert að láta íslenska skattgreiðendur borga undir þig ferðir til hinna Norðurlandanna til þess að kynna þér hvernig frændþjóðir okkar, sem iðulega brjóta gegn mannréttindum flóttamanna, haga afgreiðslu á málum hælisleitenda.

Þú þarft ósköp einfaldlega að fara eftir þeim mannréttindasáttmálum sem Íslendingar hafa skrifað undir. Þeirra á meðal er flóttamannasamningur Sameinuðu Þjóðanna. Samkvæmt honum er það algerlega fráleitt, sem þú hélst fram í þessu viðtali, að ef flóttamenn séu hugsanlega að leita hælis á öðrum forsendum en þeim að þeir þarfnist verndar, þurfi að finna leið til að losna við þá. Eins og þú veist mæta vel, kveður flóttamannasamningurinn þvert á móti á um, að takist ekki að sanna hverjar aðstæður flóttamannsins eru, eigi hann að njóta vafans. Þetta er algerlega kristaltært og frekar ömurlegt að aðstoðarmaður Innanríkisráðherra og formaður hóps sem á að vinna að hagsmunum flóttamanna og annarra útlendinga sem standa utan EES, skuli láta sem hann velkist í vafa um það.

Nú hefur Innanríkisráðuneytið haft rúmt hálft ár til að komast að niðurstöðu í máli  Mohammeds Lo, strokuþræls frá Márítaníu. Mohammed fellur undir skilgreiningu Sameinuðu Þjóðanna á flóttamanni, ekki bara á einn hátt, heldur á a.m.k. fjóra vegu.

-Hann var í fyrsta lagi þræll og ólögmæt frelsissvipting er gild ástæða til að fólk fái stöðu flóttamanns.

-Kynþáttur hans býr við alvarlega mismunun í heimalandi hans, mismunun sem felur m.a. í sér skort á lágmarks heilsugæslu og menntun. Mismunun á grundvelli kynþáttar og/eða félagslegrar stöðu er gild ástæða til þess að veita manni stöðu flóttamanns og Mohammed bjó við hvort tveggja.

-Hann hefur sætt ofsóknum og ekki aðeins hann heldur öll hans fjölskylda og reyndar allir sem hann þekkir. Hann hefur ríka ástæðu til að óttast áframhaldandi ofsóknir, fari hann aftur til Máritaníu, það eitt er fullgild ástæða til að veita manni stöðu flóttamanns.

-Hann hefur sætt líkamlegum misþyrmingum og lítilsvirðandi meðferð á grundvelli kynþáttar síns og félagslegrar stöðu. Hann hefur ríka ástæðu til að óttast að sú meðferð verði ennþá verri, stofni jafnvel lífi hans í voða, verði hann sendur til baka. Það er fullgild ástæða til að veita honum hæli sem flóttamanni.

Mohammed Lo hefur nú setið í sjálfskipuðu stofufangelsi á Íslandi í meira en hálft ár, af ótta um frelsi sitt og öryggi.  Á meðan hafið þið Ögmundur varið tíma ykkar til að uppfylla alla villtustu drauma Björns Bjarnasonar með því að vinna að lagafrumvörpum um heimildir til persónunjósna. Nær væri ykkur að vinna að mannréttindamálum en gegn þeim. Ég bendi t.d. á að samkvæmt flóttamannasamningnum er ólöglegt að refsa fólki sem ferðast á röngum skilríkjum, ef ætla má að það hafi skilyrði til að hljóta stöðu flóttamanns. Samkvæmt íslenskum lögum ber hinsvegar að fangelsa hvern þann útlending sem kemur til landsins án gildra skilríkja. Mannréttindabrot er þannig í raun lögbundið á Íslandi.

Þegar Ögmundur Jónasson tók við æðsta valdi í mannréttindamálum á Íslandi, vonuðu margir að mikil bragarbót yrði á þeim málaflokki og vafalaust hafa margir einnig bundið vonir við þig, Halla. Það er þó ekki að sjá að mannréttindi séu í neinni forgangsröð hjá ráðuneytinu. Ég bendi þér á að lesa þennan ágæta pistil áður en þú boðar vinnuhóp um málefni flóttamanna til næsta fundar, og sleppa því svo að hreykja þér og þínum vinnustað af því að hafa bætt stöðu flóttamanna, þar til einhver alvöru skref hafa verið tekin í þá átt.

Hér er viðbót um réttarstöðu flóttamanna og aðstæður Mohammeds Lo.

Share to Facebook

5 thoughts on “Opið bréf til Höllu Gunnarsdóttur

  1. „frændþjóðir okkar, sem iðulega brjóta gegn mannréttindum flóttamanna“

    Það er stórt upp í sig tekið finnst mér um frændþjóðir okkar og algjörlega án þess að bjóða uppá nokkuð til að styðja þessa fullyrðingu auk þess staðhæfir þú að þessi ákveðni maður Mohammed Lo sé að segja sannleikann með sinn bakgrunn.
    Kæmi það þér á óvart ef að þér yrði sagt að það er alls ekki óalgengt að flóttamenn ljúgi til um sína hagi, upprunaland og fleira?
    Þér væri mikill akkur í að kynna þér vel hvaða vandamál þessar stofnanir kljást við og þau áhrif sem mikill fjöldi flóttamanna hefur á samfélagið.
    Þangað til að þú gerir það verður vart hægt að taka þessum pistli öðruvísi en sem vanhugsaðri upphópun og sleggju dómum af sömu tegund og þú sakar Útlendinga Stofnun og frændþjóðir okkar um.
    Við nánari tilhugsun þá er kannski eins gott að þín áhrif takmarkist við að skrifa pistla sem þennan.

  2. Hver sá sem eitthvað hefur kynnt sér málefni flóttamanna á Norðurlöndunum, veit að þau mannréttind sem flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna á að tryggja þeim eru iðulega brotin. Þú þarft ekki einu sinni að hafa fylgst sérstaklega með málum flóttamanna til þess að vita að það var ekki fyrr en eftir ákúrur frá Mannréttindadómstól Evrópu sem Norðmenn (og Íslendingar í framhaldi af því) hættu að senda flóttamenn til Grikklands. Þetta er alvitað og hvarflar ekki að mér að fara að leita uppi sannanir fyrir því. Hér er myndband sem sýnir aðstæður flóttamanna á Grikklandi. http://nrk.no/skole/artikkeldetalj?article=oid:T167271022#%2Fskole%2Fklippdetalj%3Ftopic%3Dnrk%3Aklipp%2F641722se Útlendingastofnun vissi þetta alveg. Útlendingastofnun í Noregi vissi það líka. Þeim var bara alveg sama. Það að senda fólk í þessar aðstæður heitir einfaldlega mannréttindabrot.

    Enda þótt Norðmenn séu hættir að senda flóttamenn til Grikklands –í bili, er ekki þar með sagt að þeir séu hættir að brjóta á þeim. Sögur nokkurra þeirra mannvera sem hafa orðið fyrir barðinu á virðingarleysi Norðurlandabúa gagnvart mannréttindum flóttamanna eru hverjum sem er aðgengilegar á netinu. Hér eru t.d. saga frá Noregi.

    http://www.timesofmalta.com/articles/view/20110701/local/Human-rights-breach-in-case-of-migrant-deported-from-Norway.373272

    Hér er smá í viðbót http://nrk.no/skole/artikkeldetalj?article=oid:T167271022#%2Fskole%2Fklippdetalj%3Ftopic%3Dnrk%3Aklipp%2F704551

    Mohammed Lo er eitt lifandi dæmi um það hvernig Norðmenn brjóta gegn mannréttindum flóttamanna. Ekkert í gögnum Útlendingastofnunar (já ég hef séð þau öll) né neitt annað sem komið hefur fram í málinu, gefur minnstu vísbendingu um að Mohammed segi ekki rétt til um bakgrunn sinn, eða að hann sé glæpamaður eða ógni öryggi ríkisins. Samt sem áður höfnuðu Norðmenn hælisumsókn hans. Það er hreint og klárt brot gegn flóttamannasamningnum. Af gögnum má sjá að hann tekur sérstaklega fram að hann eigi erfitt með að tjá sig á frönsku og hvað eftir annað segir hann að hann þori ekki til Noregs af því að hann verði sendur til Máritaníu (Útlendingastofnun í Noregi hefur staðfest það.)

    Jú, það er rétt, það kemur fyrir að menn ljúga um bakgrunn sinn og aðstæður. Og hvað með það? Heldurðu kannski að það ógildi það skýra ákvæði flóttamannasamningsins að ef ekki takist að sanna söguna, eigi flóttamaðurinn að njóta vafans?

    Það kemur fyrir að glæpamenn séu sýknaðir fyrir dómi. Sú staðreynd gefur dómnum ekki leyfi til þess að sakfella menn bara til öryggis. Ein helgasta regla réttarríkisins er sú að komi til álita að refsa manni, eigi hann að njóta vafans ef ekki tekst að sýna fram á sekt hans. Að sama skapi gildir sú regla í hverju því ríki sem viðurkennir mannréttindi að komi til álita að óski maður verndar og ekki tekst að sýna fram á að hann sé í raunverulegri hættu, þá á hann að njóta vafans. Þetta er ekki einu sinni umdeilt.

    Áhrif flóttamanna á samfélagið koma því ekki nokkurn hlut við hvort maður sem þarfnast verndar á að fá hæli eða ekki. Það er ekki leyfilegt að brjóta gegn mannréttindum af því að einhver hópur geti hugsanlega orðið til óþæginda. Ég veit að rasistum finnst það alveg hrikalega óréttlátt en það er sem betur fer ekki réttlætiskennd rasista sem er grundvöllur alþjóðlegra mannréttindasáttmála.

    Ég efast ekki um að Útlendingastofnun fái erfið mál inn á borð til sín. Það að mál sé erfitt er engin afsökun fyrir mannréttindabrotum. Ef þetta fólk ræður ekki við að fara að lögum, á einfaldlega að raka það.

  3. Kjánalegt að heyra þessa hálfmenntuðu aðstoðarmanneskju klappa sjálfri sér á bakið fyrir að hafa litið í kringum sig erlendis á meðan hún horfir vandlega framhjá því sem stendur henni nær.

  4. Halla Gunnarsdóttir er stórhættuleg, ekkert síður en yfirboðari hennar Ömurleikinn, en saman mynda þau dúett sem verður að koma frá völdum.

    Það sannar viðhorf þeirra beggja í lögreglumálum, til dæmis hvernig þau ætla sér að troða í gegn auknum njósnaheimildum lögreglunnar, jafnt sem flóttamannamálunum.

    Fyrir ekki svo löngu var einum ísraelskum hermanni, sem fangi var í Palestínu, sleppt lausum í skiptum fyrir þúsund palestínska fanga í Ísrael. Tökum það að fordæmi og bjóðum grískum yfirvöldum að fá Fjalla-Ögmund og Höllu í skiptum fyrir flóttamenn sem fangelsaðir eru í flóttamannagúlögum Evrópusambandsins!

Lokað er á athugasemdir.