Nýtingarfasistinn 3. hluti

kaelir-688x451

Nú þegar þú hefur ákveðið að hætta að henda 62.000 krónum á hvern fjölskyldumeðlim árlega, hefur tekið til í ísskápnum og aflagt þann ósið að kaupa miklu meira en þú hefur þörf fyrir, skaltu tileikna þér þriðju reglu nýtingarfasistans; að ganga vel um ísskápinn.

1  Gakktu vel frá nýjum mat og afgöngum

Ekki henda matnum einhvernveginn inn í ísskápinn.  Hugsaðu sem fyrr út í það hvað á að nota hvenær og raðaðu í skápinn með tilliti til þess.   Ef eru margir í heimili er líklegt að ísskápurinn sé oft fullur og ef þú treður nýju vörunum fremst í hillurnar eru líkur á að þær verði teknar fyrst. Kenndu börnunum að líta á dagsetningar og opna það elsta fyrst.

Ef þú kaupir mat í stórum pakkningum skiptu honum þá í hæfilega skammta og settu í góð ílát eða frystipoka. Merktu ógagnsæ ílát og einnig poka og gegnsæ ílát ef minnsti vafi leikur á um innhaldið.

Gakktu strax frá afgöngum því þú munt sennilega ekki nýta mat sem hefur staðið óvarinn á eldhússborðinu í marga klukkutíma. Það skiptir líka máli að ganga snyrtilega frá afgöngum. Ég hef séð fólk taka stórt fat, klístrað af fitu, með einni kjötsneið og tíu kartöflum, hella salatinu og sósunni saman við, setja plasfilmu allt drasið ásamt notuðum áhöldum og henda því þannig inn í ísskápinn. Afgangar eru ekki freistandi þegar þannig er gengið frá þeim auk þess sem lykt berst í mjólk og annan viðkvæman mat ef frágangurinn er ekki í lagi.

leifar

leifar Ekki henda plastfilmu yfir diskinn. Settu afgangana í ílát með þéttum lokum, bollurnar í eitt og kartöflumúsina í annað.

2  Notaðu góð ílát

Notaðu góð ílát með þéttum lokum undir afganga. Ílát sem þola frysti, uppþvottavél og örbylgjuofn geta borgað sig en oft er líka hægt að endurnýta umbúðir. Ananasdósin á ekki að standa opin í ísskápnum. Settu afganginn úr dósinni í glerkrukku eða plastílát með góðu loki og ákveddu strax hvernig og hvenær þú ætlar að nota hann.

Stærðin skiptir máli. Ef þú notar allt of stór ílát kemst loft að matnum og skemmir hann. Ef þú átt bara of stórt ílát getur verið til bóta að setja plastfilmu yfir innihaldið áður en þú lokar ílátinu.

kaelir2

3  Hitastigið í kælinum skiptir máli

Kæliskápur sem notaður er undir mjólk, kjöt og grænmeti á að vera 4-6ºC. Ef þú hendir oft grænmeti er hugsanlegt að kælirinn sé of kaldur. Grænmeti á borð við gúrkur, tómata, paprikur og eggaldin þolir ekki mikið lægra hitastig en 5°C. Best geymist það við 10-12 gráður og ef ekki stendur til að geyma grænmeti lengi er jafnvel skárra að geyma það við stofuhita en allt of lágt hitastig. Kál og gulrætur ætti þó alltaf að geyma í kæli. Flestar káltegundir og gulrætur þola kulda allt niður að frostmarki. Óþarft er að geyma lauk og kartöflur í kæli nema þú sitjir uppi með margra vikna birgðir.

Ef þú notar viðkvæmt grænmeti og ávexti oft en vilt hafa mjólkina ískalda ættirðu að hugleiða möguleikann á að kaupa viskýsteina til að kæla mjólkina frekar en að hafa kæliskápinn of kaldan. Þeir eru að vísu dýrir en það er líka dýrt að henda mat.

Ekki setja óþroskaða ávexti í kæli því þá skemmast þeir áður en þeir ná að þroskast. Þetta á einkum við lárperur, mangó, banana og aðra suðræna ávexti en einnig um tómata. Ef þú kaupir ávexti sem virðast óþroskaðir en reynast svo vera farnir að skemmast þegar nánar er að gáð, er skýringin líklega sú að búðin eða birgirinn sem hún verslar við, hefur ekki geymt þá við rétt hitastig. Hringdu strax í búðina og hótaðu að fá anarkistakórinn til að halda and-kapítalíska tónleika fyrir utan búðina ef þetta gerist aftur.

Ekki láta neitt snerta bakvegginn á ísskápnum því þá hrímast hann og það getur skemmt matinn.

4  Frystu, frystu, frystu

Frystu hakkið og kjúklingabitana í skömmtum sem passa í eina máltíð. Ef þú frystir stóra pakkningu af kjöti þá er vesen að taka hæfilega stóran skammt út í einu og þú endar annaðhvort á því að elda of mikið eða setja afganginn í kæli og gleyma honum.

Ef brauð er ekki notað daglega, settu þá nokkrar brauðsneiðar saman í poka og frystu þær. Það er líka hægt að frysta samlokur til dæmis með kjötáleggi, osti og hnetusmjöri og draga þannig úr líkunum á því að krakkarnir skilji brauðið og áleggið eftir óvarið á eldhússborðinu. Kötturinn fer örugglega ekki í frystinn til að ná sér í ost en hann MUN fara upp á borð ef er ostur þar.

Ef ávextir eru farnir að láta á sjá, má skera þá í bita og frysta í hæfilegum skömmtum, nota svo í hrysting síðar.

Ekki henda eggjahvítunum þótt þú notir aðeins rauðurnar eða öfugt. Það er hægt að frysta bæði eggjahvítur og rauður og nota síðar.

Ef þú veist ekki hver mun borða afganginn af kvöldmatnum og hvenær, frystu hann þá.

Skoðaðu svo innihaldið í frystinum áður en þú skrifar næsta innkaupalista.

Share to Facebook