Nokkrar athugasemdir við ræðu Geirs Jóns

Geir Jón var semsagt alls ekki að kynna niðurstöður skýrslunnar heldur bara að segja frá sinni eigin upplifun af búsáhaldabyltingunni.

Jahá? Og upplifun yfirmanns lögreglunnar hafði væntanlega engin áhrif á gerð skýrslunnar? Hvað ætli Sjálfstæðismönnum hefði fundist um það ef höfundar rannsóknarskýrslu Alþingis, hefðu sagt frá sinni upplifun af hruninu, áður en skýrslan var gerð opinber, á stjórnmálanámskeiði hjá Vinstri grænum, undir heitinu „Glæpur gegn velferðarkerfinu“?

Ég hef ýmsar athugasemdir við ræðu Geirs Jóns, hér eru þær helstu:

Fullyrðing Geirs Jóns um að Haukur hafi verið handtekinn vegna þess að hann hafi ekki greitt sekt vegna vararefsingar er röng. Hann hafði ekki fengið neina tilkynningu. Þeir reyndu að kenna einhverri skrifstofublók á Blönduósi um en staðreyndin er sú að stafsmaður Alþingis hringdi í lögguna og sagði þeim að Bónusflaggarinn hefði verið í skólaheimsókn í húsinu. Síðar fór málið fyrir dómstóla og Haukur fékk greiddar bætur vegna þessarar ólöglegu handtöku.

Geir Jón talar um að nímenningarnir hafi „slasað starfsmenn þingsins og lögreglumenn“ í Alþingisshússaðgerðinni 8. des 2008. Dómurinn féllst ekki á það mat að þetta fólk hefði slasast.

Geir Jón virðist reyndar hafa nokkuð sérstakar hugmyndir um það hvenær fólk teljist „slasað“ og talar einnig um að níu lögreglumenn hafi slasast kvöldið sem þeir beittu táragasinu. Netorðabókin Snara gefur þessa skýringu á sögninni að slasast: „meiða, beinbrjóta, skadda stórlega“. Þetta er í samræmi við almennan skilning á orðinu. Lögreglumaður er ekki „slasaður“ þótt hann hafi fengið marblett í átökum við ólöglega handtöku eða annað lögregluofbeldi.

Enda þótt Hörður Torfason hafi hvatt fólk sérstaklega til að mæta með potta og pönnur við þingsetningu og sú auglýsing eflaust haft mikil áhrif, er það fráleit tilgáta að engin uppþot hefðu orðið ella. Vikurnar áður hafði það verið rætt töluvert á netinu að mótmæla kröftuglega við þingsetningu.

Geir Jón talaði um það sem móðgun við Norðmenn þegar jólatréð var brennt. Þetta var  þremur vikum eftir jól og auðvitað átti tréð að vera komið í safnhaug fyrir löngu. En það hefði kannski líka verið niðurlægjandi fyrir Norðmenn?

Hann talar um að „ákveðnir þingmenn“ hafi stýrt aðgerðum og það sé „skýrt lögbrot“. Samt hafi verið ákveðið að gera ekkert í því. Er hægt að verða öllu ótrúverðugri? Lögregla sem hefur fyrir því að rölta um götur og þefa út í loftið eftir kannabisfnyk, skiptir sér bara ekkert af valdaráni þingmanns?

Einnig má furðu sæta að þeir „tilteknu þingmenn“ sem töluðu til lögreglumanna „með svívirðingum“ þegar þeir voru að „leggja líf sitt“ í vinnuna hafi ekki verið handteknir því ekki stóð á löggunni að handtaka almenna borgara sem töluðu dónalega til þeirra.

Undarleg skilgreining Geirs Jóns á lífsháska er svo undirstrikuð þegar hann talar um að lögreglan hafi þurft að beita kylfum til að „verja líf“ Geirs Haarde, þegar hópur fólks veittist að ráðherrabifreið hans. Ég bara spyr, ef líf Geirs Haarde var í hættu hvers vegna var  Hallgrímur Helgason ekki ákærður fyrir morðtilraun?

Það allra hlægilegasta í ræðu Geirs Jóns er hugmyndin um að ákveðnir þingmenn hafi stjórnað aðgerðum innan úr Alþingishúsinu. Það næst hlægilegasta er sú hugmynd hans að fréttakona nokkur (sem af samhenginu má ætla að sé Þóra Kristín Ásgeirsdóttir) hafi borið ábyrgð á því að fólk sneri aftur á Austurvöll eftir kvöldmatarhlé. Á hverju byggir maðurinn eiginlega þessa skoðun? Heldur maðurinn virkilega að almenningur sé gjörsamlega ófær um nokkra sjálfstæða hugsun? Ef Álfheiður Ingadóttir og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir hafa slík tök á almenningi að þær geti fjarstýrt mörg þúsund manns með einni bendingu eða ósannri staðhæfingu um að fólk sé að flykkjast á Austurvöll, (ég var á staðnum og hópar fólks voru sannarlega að flykkjast á Austurvöll þótt sumir aðrir væru að fara heim í mat) af hverju eru þær þá ekki í æðstu ráðherraembættum í dag og búnar að sölsa undir sig öll völd í landinu?

Svo féll ríkisstjórnin loksins og Geir Jón segir frá samtali við „ágætan vin sinn úr hópi anarkista“. Geir Jón spyr hann hvað muni nú gerast og undrast stórum þegar viðkomandi segir að það versta sem geti gerst sé að vg komist til valda. Anarkistanum hefur væntanlega þótt það vera það versta í stöðunni þar sem hann var að vonast eftir raunverulegri bylingu en Geir Jón veit auðvitað ekki að á meðan 7000 manns hrópuðu „vanhæf ríkisstjórn“ stóð 70 manna hópur og hrópaði „enga ríkisstjórn.“ Ég leyfi mér að fullyrða að enginn úr þeim hópi er vinur Geirs Jóns.

Yfirmaður lögreglunnar vinnur skýrslu sem ekki er ætluð augum almennings. Hann heldur svo fyrirlestur um sama efni fyrir stjórnmálaflokk, mánuði eftir að skýrslugerð lýkur. Þessi gjörningur sem og þau svör sem Agnar fékk við bréfi sínu til lögreglustjórans, eru lítið en gott dæmi um dýpt spillingarinnar á Íslandi. Þeir skilja bara ekki hvað er athugavert við þetta.

Bætt við kl 16:40

Ég mundi hreinlega ekki eftir þeim ummælum sem vísað er til í þessari fyrirsögn, þegar ég skrifaði þennan pistil fyrr í dag. Rétt er að fram komi að Álfheiður Ingadóttir réðist ekki á lögreglustöðina, allavega ekki í umrætt sinn. Vel má vera að hún hafi staðið einhversstaðar í námunda við hana og fylgst með atburðum en að halda því þar með fram að hún hafi ráðist á lögreglustöðina er jafn fáránlegt og að segja að Geir Jón hafi ráðist á Alþingi fyrst hann sást ítrekað á vappinu á Austurvelli á tímum búsáhaldabyltingarinnar.

Share to Facebook

1 thought on “Nokkrar athugasemdir við ræðu Geirs Jóns

Lokað er á athugasemdir.