Nóg komið

Mér segir svo hugur um að nú þyki ýmsum nóg komið og rúmlega það. Sjálfsagt er þó til lítils að þenja sig því það hefur sýnt sig að lög ná ekki yfir samráðsmenn olíufélaganna.

Hvað er þá til ráða?

Hvernig væri að prófa beinar aðgerðir?

Neinei, ég er ekki að leggja til að neytendur ryðjist inn á skrifstofu Skeljungs með háreysti og hlekki sig við húsgögnin. Það mun aldrei nást samstaða um slíkt uppþot og þótt 7-8 hræður fengjust til þess hefði það ekkert að segja. Nei, ég er með betri hugmynd.

Ef allir bifreiðaeigendur sem eru ekki til í að láta stela af sér fórnuðu fjárhæð sem svarar einum bensíntank, þá gætum við ráðið 3-4 íturvaxna menn sem eiga vísa vist á Hrauninu hvort sem er, til að grípa til þrautreyndar uppeldisaðferðar. Aðferðar sem felur í sér skilaboðin; nú er nóg komið, og skammastu þín barasta!

Ég er ekkert að tala um að hóta að skaða fjölskyldur samráðsmanna, hvað þá að mölva úr þeim tennurnar eða brjóta á þeim hnéskeljarnar. Ég er algerlega mótfallin líkamsmeiðingum en þegar þarf að kenna mönnum að skammast sín, getur svolítið valdbeiting verið nauðsynleg. Ég á við aðgerð sem hefur fyrst og fremst táknrænt gildi. Refsingu sem margur óþekktargemlingurinn hefur gengið í gegnum án þess að bera af því varanlegan skaða. Þeir sem tækju verkið að sér myndu semsagt taka niður um þessa háu herra, leggja þá yfir kné sér og gefa þeim góðan skell á beran bossann. Athöfnin yrði mynduð og sett á netið, öðrum til viðvörunar og Glanni glæpur og co myndu með ánægju gista Hraunið nokkrum vikum lengur en ella. Reyndar er alveg hugsanlegt að með því að stofna fyrirtæki sem réði þá til verksins, væri hægt að koma því svo fyrir að þeir þyrftu ekki að bera persónulega ábyrgð á flengingunni en auk þess má búast við að þeir nytu þjóðarhylli fyrir vikið og fengju jafnvel fasta vinnu við að leika í auglýsingum þegar þeir kæmu út.

Ef svo ólíklega færi að okkar menn fengju harðan dóm fyrir tiltölulega nærgætna flengingu, yrði bónusinn sá að dómstólar neyddust til að endurskoða þau skilaboð sem þeir senda út í hverju ofbeldismálinu á fætur öðru. Niðurstaðan yrði þannig alltaf góð, hvernig sem allt færi.

Ef er einhver stemning fyrir svona aðgerð, skal ég með ánægju taka á mig ábyrgðina á henni. Það er áreiðanlega leyfilegt að lesa bækur og nota andlitsmaska og fótleggjavax í Kópavogsgrjótinu, svo ég kæmi þaðan út ennþá fallegri og gáfaðri en ég er í dag.

Ég er ekki að djóka. Þeir sem geta bent á hæfa menn sem væru tilleiðanlegir til að rassskella nokkra forstjóra, eru vinsamlegast beðnir að hafa samband. Á morgun mun ég stofna bankareikning til að safna fyrir aðgerðinni.

 

 

Share to Facebook

One thought on “Nóg komið

  1. —————————-

    ég hef reyndar fyrir margt löngu tekið upp mínar eigin aðgerðir gegn þessum 3 gömlu olíufélögum – kaupi bara bensín hjá Atlantsolíu. Meðan ég ekki veit til þess að þeir séu skítseyði líka þá líður mér áberandi mikið betur þannig : )

    Posted by: Jón Kjartan Ingólfsson | 6.06.2007 | 21:02:05

    —————————————

    hehe, segi reyndar sama, kaupi bara af AO þegar ég mögulega get (erfitt á ferð um landið)

    En ég skal samt leggja inn á reikninginn, ekki spurning. Óþolandi pakk, þarna…

    Posted by: hildigunnur | 6.06.2007 | 21:14:47

    —————————————

    Fínt að versla við AO en það mun aldrei nást samstaða um það meðal þessarar voluðu þjóðar.

    Posted by: Eva | 7.06.2007 | 0:33:29

    —————————————

    Og hvers vegna viltu bjarga fólki sem hefur ekki vit á því að sniðganga okurfyrirtæki?

    Posted by: Þorkell | 7.06.2007 | 7:23:09

    —————————————

    Ég er ekkert að tala um að bjarga þeim sem nenna ekki að sniðganga risana heldur að refsa þeim sem misnota vald sitt.

    Ég kæri mig ekki um að láta þessi skítafyrirtæki komast upp með að svindla á MÉR og það er óréttlátt að ég og annað venjulegt fólk skuli þurfa að leggjast í rannsóknarvinnu til að finna fyrirtæki sem hafa heiðarlega viðskiptahætti í heiðri. Ef ekki er takið fyrir svona subbuskap þá breiðir hann bara úr sér. Auk þess trúi ég á réttlæti, réttlætisins vegna.

    Það er vegna almenns umburðarlyndis gegn óréttlæti sem Guatanamo búðirnar eru ennþá starfræktar og Davíð Oddsson fær launahækkun sem svarar 135% örorkulifeyris. Þar sem aldrei mun nást almenn samstaða um að sniðganga bandarískar vörur eða taka meðlimi bankaráðs seðlabankans út af jólakortalistanum, eru þær aðferðir ónýtar og nauðsynlegt að taka upp skilvirkari úrræði.

    Posted by: Eva | 7.06.2007 | 8:50:29

    —————————————

    Mér finnst þetta góð hugmynd, Eva, og ég skal leggja í púkkið. Ég gef samt ekki kost á mér, enda hvorki nógu íturvaxinn né á leið á Hraunið hvort sem er.

    Posted by: Vésteinn Valgarðsson | 7.06.2007 | 10:20:24

    —————————————

    Ég er hrifin af hugmyndinni. Þetta gæti þó orðið nokkur vinna – margir sem þurfa á flengingu að halda í þessu þjóðfélagi.

    Posted by: lindablinda | 7.06.2007 | 12:02:19

Lokað er á athugasemdir.