Meintir

Mér fannst einhver hlutdrægnikeimur af þessari frétt, „Meintir mótmælendur á Seyðisfirði“  svo ég sló „meintir“ og „meintur“ upp á google. Fékk upp síður með orðinu í ýmsum samsetningum en þar sem það vísar til persónu eða fleiri manna kemur í ljós að menn eru gjarnan:

meintir morðingjar
meintir sjálfsmorðsárásarmenn
meintir hryðjuverkamenn
meintir brotamenn
meintir glæpamenn
meintir þjófar
meintir árásarmenn
meintir ofbelsismenn
meintir nauðgarar
meintir barnaníðingar

Í fáum tilvikum koma fyrir:
meintir spunameistarar (í merkingunni þeir sem reka pólitískan áróður)
meintir fróðir menn
meintir sakborningar
meintir álversvinir
meintir álversfjandmenn

Maður fær svona á tilfinninguna að sá sem er „meintur“ eitthvað, liggi undir rökstuddum grun um glæpsamlegt athæfi.

Reyndar er ekki ólöglegt að mótmæla Kárahnjúkavirkjun eða álverinu á Reyðarfirði, ekki ennþá allavega. Líklega eru þessir menn grunaðir um að hafa skoðanir sem stjórnvöldum eru ekki að skapi og að vera líklegir til að vekja rækilega athygli á þeim skoðunum sínum.

Share to Facebook

One thought on “Meintir

  1. ————————————-

    Mér finnst reyndar undarlegt að þetta skuli teljast fréttnæmt. Ekki eru sagðar fréttir af ferðafólki sem kemur til að skoða fuglalífið á Íslandi eða hefur áhuga á fornbókmenntum. Ef það væri bannað að mótmæla þá væri þetta frétt. Þetta hljómar nánast eins og þeir séu grunaðir um að vera dópdílerar.

    Posted by: Þorkell | 29.06.2007 | 21:52:32

    —————————————–

    Sú túlkun hvarflaði nú reyndar ekki að mér. Kannski bara af því að ég man ekki eftir neinum fréttum af fíkniefnamálum í tengslum við stóriðjumótmæli hér á landi. En vel má vera að það sé hugmyndin með „fréttinni“.

    Posted by: Eva | 29.06.2007 | 22:53:48

    —————————————–

    Nei þú misskilur mig eða ég hef ekki tjáð mig nógu skýrt. Ég held ekki að það sé hugmyndin með fréttinni heldur finnst mér þetta sett fram eins og þau séu glæpamenn eða alla vega mögulegir glæpamenn.

    Ef markmiðið væri að fjalla um að barátta gegn stóriðju héldi áfram og að útlendingar streymdu aftur til landsins þá væri eðlilegra að skrifa eitthvað á þessa leið:

    Ýmislegt bendir til þess að fyrstu útlensku mótmælendur þessa sumars séu komnir til landsins til að mótmæla virkjun hér á landi…

    Þetta hljómar allt öðru vísi en „meintir mótmælendur“ sem lögreglan fylgist með.

    Posted by: Þorkell | 29.06.2007 | 23:39:57

    —————————————–

    fyllir mig öryggiskennd að sjá hversu vel lögreglan sinnir starfi sínu.

    eins gott að fylgjast með þessu pakki sem gæti tekið upp á því að viðra skoðun sína, allir vita jú að það er hættulegt fólk sem mótmælir.

    Posted by: baun | 30.06.2007 | 9:10:06

Lokað er á athugasemdir.