Málefnaleg umræða og þras

argueSamkvæmt orðanna hljóðan einkennist málefnaleg umræða af því að menn halda sig við málefnið en forðast að draga vammir og skammir viðmælenda sinna inn í umræðuna. Markmið málefnalegrar umræðu er yfirleitt að varpa nýju ljósi á málið með því að skiptast á skoðunum og þekkingu. Tilgangurinn með þrasi er hins vegar sá að styrkja eigin sannfæringu og helst að fá aðra á sitt band, einnig að efla eigið sjálfstraust með því að „vinna“ þrætuna. Venjulega álíta báðir aðilar að þeir hafi „unnið“ þrætu þegar upp er staðið.

Ef málefnaleg og ómálefnaleg umræða er borin saman sjáum við fljótt eftirfarandi einkenni:

Málefnaleg umræða miðar að því að varpa nýju ljósi á málefnið og draga saman ólík viðhorf til þess. Hún einkennist af löngun til að auka víðsýni og þekkingu eða jafnvel komast að niðurstöðu.

Þras miðar að því að „vinna“ deilu.

Málefnaleg umræða einkennist af því að þáttakendur halda sig við efnið og reyna af fremsta megni að skýra mál sitt, svara spurningum heiðarlega og ganga úr skugga um að þeir skilji viðmælendur sína rétt.

Þras einkennist af því að óskyldir hlutir eru dregnir inn í umræðuna til að teyma hana í ákveðna átt, menn koma sér hjá því að svara óþægilegum spurningum með því að teygja lopann, svara einhverju öðru en um er spurt eða beita útúrsnúningum. Viðmælandum eru gerðar upp skoðanir, viðhorf og tilfinningar, gjarnan samhliða fordómakenndri umræðu um þann hóp sem hann tilheyrir. Honum eru jafnvel lögð orð í munn af yfirlögðu ráði, hann krafinn svara um eitthvað sem einhver skoðanabróðir hans hefur sagt og athyglinni þannig beint frá því sem um var rætt og að einhverju sem alls ekki átti að vera til umræðu.

Hinn málefnalegi leitast við að sýna andmælendum sínum sæmilega kurteisi, jafnvel þótt þeir fari í taugarnar á honum.

Hinn ómálefnalegi reynir að koma höggi á andmælendur sína með órökstuddum aðdróttunum um innræti þeirra, atgervi, þekkingu og reynslu, jafnvel persónulegu skítkasti og dónaskap.

Málefnaleg umræða einkennist af yfirvegaðri röksemdafærslu og þáttakendur reyna sitt besta til að koma í veg fyrir misskilning

Þras einkennist af geðshræringu og tilraunum til að varpa ábyrgð á misskilningi yfir á hinn aðilann.

Málefnaleg umræða vekur upp nýjar og áhugaverðar spurningar og því er hægt að halda henni áfram mjög lengi

Þras einkennist af hjakki í sama hjólfarinu, sömu skoðanir eru virðraðar með mismunandi orðalagi aftur og aftur og aftur þar til þeir einu sem hafa nokkra ánægju af þrasinu eru þáttakendurnir sjálfir en hinn þögli áheyrandi löngu farinn að hugsa um eitthvað annað.

Sjálfsagt má nefna mörg fleiri einkenni en þessi eru þau fyrstu sem koma mér í hug.

 

Share to Facebook