Má löggi leyna Búsóskýrslunni?

Í september 2012 synjaði Stefán Eiríksson lögreglustjóri mér um aðgang að skýrslu lögreglunnar um Búsáhaldabyltinguna. Þann 16. september 2012 kærði ég þá ákvörðun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Nefndin hefur nú loksins komist að niðurstöðu en hún er sú að lögreglustjóra hafi ekki verið heimilt að synja mér um aðgang að skýrslunni á grundvelli þeirra lagagreina sem hann notaði máli sínu til rökstuðnings. Einnig kemur fram að úr því hafi ekki verið bætt í skýringum lögreglustjórans til úrskurðarnefndarinnar.

Tekið er fram að úskurðarnefndin geti ekki útilokað að í þessari skýrslu, sem er 270 bls að lengd, sé að finna eitthvað sem ekki eigi erindi við almenning. Nefndin tekur því að svo stöddu ekki afstöðu til þess hvort beri að afhenda skýrsluna, heldur er málinu vísað aftur til lögreglunnar með tilmælum um rök á réttum lagagrundvelli. Það hefði auðvitað hentað mér best ef úrskurðarnefndin hefði skikkað Stefán til að afhenda mér skýrsluna umyrðalaust en þessi rök eru gild og það sem mestu skiptir er að það er hér með staðfest að lögreglan getur ekki neitað almennum borgurum um aðgang að upplýsingum að eigin geðþótta. Stefán Eiríksson þarf þannig að færa almennileg rök fyrir þeirri ákvörðun ef hann ætlar að komast upp með það.

Stefán er þegar búinn að senda mér aðra synjun, nú á grundvelli annarrar lagagreinar en áður. Ég sé þó ekki að sú ákvörðun standist enda tók ég fram í kærunni að ég væri ekki að fara fram á persónuupplýsingar og benti á að vel mætti afmá persónueinkenni og/eða klippa út upplýsingar sem góð lagarök séu fyrir að synja almennum borgurum um.  Mér finnst því líklegt að ég vísi þessari nýju synjun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Það hefur nú tekið á fjórða mánuð að fá úrskurð í þessu eina smámáli og þar sem löggi situr við sinni keip get ég væntanlega reiknað með að það taki marga mánuði í viðbót. Það er kannski ekkert við því að búast að almennir borgarar standi í því að sækja rétt sinn gagnvart yfirsöldum þegar tekur óratíma að fá úrskurð og það er bagalegt því yfirvöld eiga að þjóna almenningi en ekki öfugt.  Þann 31. ágúst 2010 kærði blaðamaður ákvörðun menntamálaráðuneytisins um synjun upplýsinga. Nefndin úrskurðaði blaðamanninum í vil en sá úrskurður féll ekki fyrr en 14. desember 2011. Þá var liðinn svo langur tími að þær upplýsingar voru ekki neitt fréttaefni lengur. Fréttin ónýt og enginn ábyrgur. Það er ekki nógu gott að yfirvöld geti tafið mál á þennan hátt og ég bind vonir við að ný stjórnmálaöfl, svosem Pírataflokkurinn eða Dögun, beiti sér fyrir umbótum í þessum málum.

 

Share to Facebook