Lítill stuðningur við Kúrda á Íslandi

Og næst verður það „aldrei aftur Rojava“?

Þessi undirskriftasöfnun hefur nú staðið í tæpar 3 vikur. Undirtektir hafa verið dræmar, innan við 2000 manns hafa lýst stuðningi við það að Ísland fordæmi innrás Tyrkja í Afrín.

Ég setti undirskriftasöfnun af stað í þeirri trú að stitjandi forsætisráðherra væri líklegri en utanríkisráðherra til þess að fordæma þessa innrás og ég taldi líklegt að Íslendingar væru henni almennt mótfallnir. Mér virðist hafa skjátlast um það. Ég ætlaði að afhenda undirskriftirnar, þótt fáar væru, síðasta föstudag en ákvað að halda söfnuninni opinni yfir helgina í von um að ná 2000 hræðum. Á meðan gerðist það að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur lýsti yfir stuðningi við árásir vestrænna ríkja á Sýrland.

Ég hafði ekkert allt of góða von um það fyrir að forsætisráðherra tæki afstöðu gegn óþarfa árásum. Ég hélt þó að þrýstingur frá almenningi myndi kannski hjálpa til. En nú fallast mér bara hendur. Ég sé ekki tilgang í að afhenda þessar undirskriftir en mér finnst heldur ekki hægt að gleyma þessari áskorun bara og láta eins og engum hafi dottið í hug að það kæmi til greina að fordæma innrásina.

Það réttasta er líkllega að lýsa yfir ósigri svo ég geri það hér með. Níðurstaðan er sú að flestum Íslendingum er skítsama um meðferðina á Kúrdum og Katrín Jakobsdóttir hefur fullan stuðning kjósenda til að hundsa innrásina og mannréttindabrot Tyrkja gagnvart Kúrdum. Ég sé ekki ástæðu til þess að afhenda henni sérstaklega staðfestingu á því. Ætla því ekki að gera neitt meira í sambandi við þessa undirskriftasöfnun, hvorki að loka henni né auglýsa hana frekar.

Það er ekki árennilegt að fara til Afrín í augnablikinu því þótt loftárásir hafi ekki verið gerðar undanfarið halda hersveitir Erdoğans íbúum Afrín í heljargreipum. Stríðsglæpir eru daglegt brauð og þar ríkir upplausnarástand sem þrátt fyrir þessa fyrisögn á ekkert skylt við anarkí í pólitískri merkingu. En skilaboðin sem þeir 1933 sem hafa með þátttöku sinni farið þess á leit að forsætisráðherra fordæmi innrásina geta tekið til sín eru þessi:

Umræða og upplýsing eru afskaplega óskilvirkar aðferðir til þess að hafa áhrif. Ef þú vilt aðstoða ofsótta og þjáða er tilgangslaust að treysta á samtakamátt og því síður skaltu reiða þig á þjóðarleiðtoga.

Þetta eru skilaboð hins þögla meirihluta og þau eru skýr. Rökrétt ályktun er sú að valið standi á milli þess að gefa skít í mannréttindi eða fara sjálfur á staðinn og reyna að verða að einhverju gagni. Bretar eru búnir að missa átta manns sem fóru þá leið til þess að sýna Kúrdum samstöðu. Ég veit ekki hversu margir Grikkir, Ítalir, Þjóðverjar, Frakkar, Hollendingar og Spánverjar hafa látist í átökum í Rojava en allt útlit er fyrir að einn  Íslendingur sé þegar látinn. Vonandi verður hann sá síðasti. Kannski ætti maður bara að fagna því hversu fáir láta sig mannréttindi og lýðræði í fjarlægum heimslutum varða fyrst er ekki hægt að hafa áhrif nema setja sig í lífshættu hvort sem er?

Share to Facebook