Kristín Vala og örbylgjugrýlan

Í gær birti ég pistil þar sem ég gagnrýndi framsetningu vísindamanns í áhrifastöðu á því sem ég taldi í fyrstu að væri hugsað sem viðvörun við gervivísindum. Forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ póstaði á facebook, án nokkurrar gagnrýni, tenglum á greinar sem eiga að sýna fram á skaðsemi örbylgjuofna. Greinum sem hafa birtst á veftímaritum þar sem uppistaða efnis er einkar vafasöm „vísindi“ á borð við  nýaldarkenningar, skottulækningar og geimverufræði. Mér fannst bagalegt að engar athugasemdir fylgdu.

(Þær greinar sem Kristín Vala tengdi á eru eftirfarandi:
http://www.globalhealingcenter.com/health-hazards-to-know-about/microwave-ovens-the-proven-dangers
http://www.jesus-is-savior.com/Disturbing%20Truths/microwaves.htm
http://www.naturallifemagazine.com/0506/microwave.htm)

Þegar nánar var að gáð, kom í ljós að Dr Kristín Vala var ekki að grínast. Hún er í fullri alvöru að halda þeirri hugmynd að almenningi að örbylgjuofnar séu stórskaðlegir. Meðal þess sem fullyrt er í þeim greinum sem hún hefur tengt á er eftirfarandi:

-Vatn sem er hitað í örbylgjuofni og kælt svo niður, drepur plöntur.
-Örbylgjur valda hættulegum efnahvörfum í mjólk fyrir ungbörn.
-Blóð sem hitað er í örbylgjuofni drepur sjúklinga.
-Fæða sem elduð er í örbylgjuofni hækkar kólesterol og veldur ýmsum fleiri breytingum á blóði þeirra sem neyta þess.
-Matur sem eldaður er í örbylgjuofni er næringarsnauður.
-Regluleg neysla fæðu sem elduð er í örbylgjuofni brýtur niður ónæmiskerfið og veldur með tímanum minnisleysi, varanlegum heilaskemmdum, truflun á hormónastarfsemi, tilfinningalegu ójafnvægi og mörgum tegundum krabbameins.

Skýringarnar á öllum þessum hryllingi hljóma afar vísindalega í eyrum þess sem hefur litla þekkingu á eðlis- og efnafræði t.d:

-Örbylgjur valda því að sameindir umpólast, skipta um form (ísómerast) og sundrast.
-Örbylgjur eru það sama og geislun.
-Örbylgjur valda jónun.

Hreyfingu sameindanna (en hreyfing er forsenda þess að hiti myndist), er lýst með orðunum „this violent movement of molecules“ og að sögn greinarhöfundar veldur hún breytingum á sameindum. Ekki er útskýrt hversvegna meintar sameindabreytingar eru slæmar en af samhenginu má ætla að þær séu undirrót þeirra hryllilegu sjúkdóma sem örbylgjumatreiðsla á að hafa í för með sér.

Það að vera í nálægð örbylgjuofns á svo að leiða til enn frekari hörmunga m.a. „örbylgjuveikinnar“ sem tilteknir Rússar töldu sig hafa uppgötvað 1950. Einkenni hennar o.fl. einkenni sem nefnd eru í þeim greinum sem Kristín Vala mælir með eru t.d:

-Breytingar á blóðþrýstingi, hann lækkar fyrst en hækkar svo
-Orkuleysi
-Hárlos
-Höfuðverkur
-Svimi
Verkir í augum
-Ský á auga
-Svefnerfiðleikar
-Einbeitingarleysi
-Kvíði, taugaspenna og óþol gagnvart áreiti
-Magaverkir
-Botnlangabólga
-Ófrjósemi
-Kransæðastífla
-Krabbamein

Þótt örbylgjuofnar komi frá Satni 
notar hann sjálfur gamaldags pott 

Þetta hljómar allt saman skelfilega og ekki að undra þótt fyrstu viðbrögð lesandans séu þau að hringja á lögguna og biðja um aðstoð við að fjarlægja geislavopn af heimilnu. En þegar nánar er að gætt er full ástæða til að draga þessar fullyrðingar í efa. Aðal heimildirnar eru nefnilega annarsvegar rússnesk rannsókn frá 1950 og hinsvegar rannsókn Hans Ulrich Hertel og Bernard H. Blanc sem birt var í svissnesku tímariti, Journal Franz Weber,1991. Journal Franz Weber er ekki ritrýnt vísindatímarit og ekki er að sjá að greinin hafi birst í neinu virtu vísindatímariti.

Rannsóknin þótti svo vafasöm og greinin sett fram með þvílíku offorsi að mönnunum var stefnt fyrir rétt í Sviss. Blanc gaf út yfirlýsingu þar sem hann hafnaði aðild að greinaskrifum um skaðsemi örbylgjuofna og sagði niðurstöðurnar hafa verið birtar án síns samþykkis. Hertel fór fyrir dóm og tvö dómstig komust að þeirri niðurstöðu að honum skyldi bannað að tjá sig um skaðsemi örbylgjuofna á opinberum vettvangi. Gerræðislegt, vissulega enda hnekkti Mannréttindadómstóll Evrópu þessum dómi 1998, vitanlega með þeim rökum að málfrelsi  manna megi ekki skerða. Dómurinn tók enga afstöðu til vísindagildis rannsókna þeirra Hertels og Blanc en Hertel voru dæmdar bætur. Þrír af níu dómurum mótmæltu niðurstöðu meirihluta dómsins.

Ekki hef ég fundið heimilidir um að þeir Hertel og Blanc hafi hlotið frekari frama innan vísindaheimsins. Þó er víst að að Hertel nýtur mikillar virðingar meðal nýaldarsinna. T.d. er iðulega vitnað í hann af fyrirlesurum „World Foundation for Natural Science„. Nafn stofnunarinnar hljómar vel þar til maður sér kynningarsíðu vefsetursins: „The World Foundation for Natural Science is the new Franciscan Scientific World Mission Endeavour of The New World Church. It is our mission to heal this world in accord with Natural Law, thus restoring Divine Order on this precious Planet Earth,“

Þegar Kristín Vala tengdi á þriðju greinina sem á að sýna fram á þá hættu sem stafar af örbylgjuofnum, velktist ég ekki lengur í vafa um að henni væri alvara. Greinin virðist fremur skrifuð af eldmóði en þekkingu. Eitt af því sem vakti mér verulegar efasemdir um vísindagildi hennar er sú staðhæfing greinarhöfundar að þeir sem flokka örbylgjufóbíuna sem gervivísindi, hafi ekki afsannað það sem áhangendur hennar halda fram. Þetta minnir óneitanlega á kröfu trúmanna um að efasemdamenn afsanni tilvist Gvuðs eða viðurkenni hana ella.

Ég spurði Kristínu Völu hvort hún teldi þessa grein standast vísindalegar kröfur. Hún taldi ekki vafa á því og vísaði því til staðfestingar á rannsókn Dr Cristina García-Viguera frá árinu 2003 sem vitnað er til í greininni. Hún benti einnig á umfjöllun BBC um þessa rannsókn og aðra finnska sem sýndi svipaða niðurstöðu. Reyndar er hér um að ræða rannsókn sem tekur aðeins til eins þáttar af þeim margvíslegu hörmungum sem örbylgjuofnar eiga að leiða til en þar fyrir utan staðfestir hún síður en svo hugmyndir um skaðsemi örbylgjuofna. Þegar ég benti Kristínu Völu á að aðstandendur rannsóknanna tækju einmitt fram að niðurstöður þeirra merktu ekki að fólk ætti að hafna örbylgjumatreiðslu heldur draga úr vatnsnotkun við suðuna, neitaði hún að ræða málið frekar.

Rannsóknin sem Kristín Vala nefnir er mjög sértæk, nær aðeins til áhrifa mismunandi matreiðsluaðferða á varðveislu andoxunarefna í spergilkáli. Þessi tiltekna rannsókn bendir til þess að örbylgjusuða með vatni varðveiti þessi ákveðnu efni síður en aðrar aðferðir. Þegar rannsóknin var kynnt var þessari niðurstöðu slegið upp í blöðum sem stórfrétt um að örbylgjumatreiðsla væri óheilsusamleg.  Sú skýring sem bæði er gefin í niðurstöðum rannsóknarinnar (og sem aðstandendur hennar og aðrir sem hafa skoðað þessi mál hafa hamrað á í fjölmiðlum) er að meira af andoxunarefnum fari út í vatnið við örbylgjusuðu en við suðu í potti. Hinsvegar megi búast við því að þetta „vandamál“ hverfi með framþróun örbylgjuofna. Ýmsar aðrar rannsóknir komast ennfremur að gagnstæðri niðurstöðu, þ.e. að fæða missi síður næringarefni við matreiðslu í örbylgjuofni og C García-Viguera tekur það skýrt fram í rannsókn sinni.

Nýlegar rannsóknir virðast ekki styðja þá kenningu að örbylgjumatreiðsla eyðileggi mat og valdi margskonar hræðilegum sjúkdómum enda forsendan sjálf vafasöm. Nýjasta umfjöllunin um efna- og eðlisfræðileg áhrif örbylgjuhitunar sem ég fann með hjálp Gúgguls er eftir eðlisfræðiprófessorinn Louis A. Bloomfield. Hana er að finna í einni af eðlisfræðibókum hans fyrir almenning „How Everthing Works„, sem kom fyrst út 2006.

Bloomfield hafnar alfarið þeirri kenningu að örbylgjuhitun valdi óæskilegum breytingum á sameindum í matnum:

Microwaves don’t affect the molecular structure of the food, except through the thermal effects we associate with normal cooking (e.g., denaturing of proteins with heat and caramelizing of sugars). That’s because, like all electromagnetic waves, microwaves are emitted and absorbed as particles called „photons.“ The energy in a microwave photon is so tiny that it can’t cause any chemical rearrangement in a molecule. Instead, it can only add a tiny amount of heat to a water molecule. During the microwave cooking process, microwave photons stream into the food and heat it up. But millions of them would have to work together in order to cause non-thermal chemical changes in the food molecules and they don’t normally do that. The photons can only work together if there is a conducting material, such as a metal wire, inside the oven. In that case, the photons can accelerate mobile electric charges along the conducting paths and create sparks. Such sparks can cause chemical damage, but nothing worse than the chemical damage caused by scorching food with a flame or broiler. Even if your microwave is full of sparks for some reason, I doubt that the food will be any worse for you than it would be if you cooked it over an open flame or barbecue.

 

Ég hef verið spurð að því hversvegna ég, sem hef ekki einu sinni sérstakan áhuga á eðlisfræði, sé að ergja mig yfir því að einhver trúi á skaðsemi örbylgjuofna. Sannast sagna er mér slétt sama um það. Fólk má mín vegna forðast hvaða tækni sem það vill og éta eins mikið af hveitigrasi og makróbíótísku fæði og það lystir. Mér finnst hinsvegar nóg komið af vitleysunni þegar leiðandi vísindamaður tekur undir hugmyndir um að venjulegt heimilstæki valdi heilaskemmdum, kransæðastíflu og krabbameini. Sami vísindamaður rökstyður svo þessar tilgátur með tilvitnunum í grunnskólabörn og áratugagamlar rannsóknir sem hvergi njóta virðingar nema meðal nýaldarsinna og geimveruspekinga.

Finnst ykkur þetta í lagi?

Share to Facebook

25 thoughts on “Kristín Vala og örbylgjugrýlan

  1. Hva, hún var bara að viðra þessar hugmyndir sínar á sinni síðu. Ekki var hún að koma þessum örbylgju skoðunum sínum á framfæri í skólastofunni. Má fólk ekki tala um það sem það vill, sama hvað öðrum finnst.

  2. Þetta snýst ekki bara um hugmyndir heldur líka um staðreyndir. Opinn veggur á fb er opinver vettvangur og þessi kona er ekki kennari heldur forseti Verkfræði- og Náttúrusviðs æðstu menntastofnunar landsins. Það skiptir því máli hverskonar „rannsóknir“ hún vísar í.

  3. Já mörg er nú vitleysan sem berst frá þessari stofnun. Hannes Hólmsteinn kennir fólki að græða á daginn og grilla á kvöldin, þessi doktor Kristín Vala varar við örbylgjuofnum var ekki Sigurjón Árnason að innræta sína speki í fólk þarna líka? Gæti reyndar verið að mig sé að misminna og illræmdustu náttúrumorðingjarnir halda græna daga gagnrýnislaust (næstum því þó því einhver ljúfmenni tóku sig til og heiðruðu virðingaverðar skyrslettur Helga Hós) og kenna um græna orku. Mér finnst það samt fyndnast að þarna hangir fólk og heldur að það sé að gera eitthvað agalega merkilegt.

    Biturð dagsins í boði mín.

  4. Það sorglega er að það er endalaust hægt að halda áfram. Þegar Ragna Þrjótur Árnadóttir átti að setja einhverja mannréttindastefnu eftir að vera búin að senda hælisleitanda á barnsaldri til Grikklands í flóttamannabúðir allslausann. Þeir sem gagnrýndu voru víst með skrílslæti, lýðurinn sat spenntur og beið eftir spekinni frá RÁ en sem betur fer fékk hún ekki frið til að halda erindi sitt um mannréttindi og fór án þess að segja orð: http://www.youtube.com/watch?v=6xu64mA6F3I

  5. Nei, þetta er ekki í lagi. Það verður að gera þær kröfur til vísindamanna að þeir styðji fullyrðingar sínar með rökum og tilvísunum í ritrýndar greinar. Mér finnst HÍ setja ofan við þetta.

  6. Þar sem Raunvísindadeild hefur ekki mótmælt þessum yfirmanni sínum má gera ráð fyrir að deildin sé samþykk þessum niðurstöðum hennar. Kannski eru þessar pælingar fræðasviðsforsetans um örbylgjur og áhrif þeirra byggðar á niðurstöðum eðlis- og efnafræðinga deildarinnar?
    Hrekkjalómur

  7. Ragna var nógu slæm sem æðsti maður mannréttinda á Íslandi en Ögmundur virðist ætla að toppa bæði hana og Björn Bjarnason. Og nú ætla ég ekki að ræða það frekar í bili því þá verð ég svo reið að ég get ekki sofnað.

  8. Nú ætla ég ekki að hætta mér út á örbylgjusviðið því ég veit ekkert um eðlisfræði og viðurkenni fúslega að ég kveiki aldrei á örbylgjuofni heimilisins fremur en öðrum græjum í eldhúsinu. Ég er á hinn bóginn viss um að einhver er heitur fyrir að kæra þessa Kristínu Völu fyrir siðanefnd HÍ munu þau Þórður Harðarson, Þorsteinn Vilhjálmsson og Eyja Margrét Brynjarsdóttir fús stökkva til og græja málin fyrir viðkomandi 😉 Þau eru nefnilega öll svo upplýst og svo mikið á móti hættulegum hindurvitnum.

    En sem alþýðukona velti ég fyrir mér hvort það skipti mjög miklu máli hvort margir eða fáir eða einhverjir eða engir trúi því að örbylgjuofnar séu skaðlegir?

    Þessi umræða og fleiri minnir mig svolítið á danska umræðu sem nú er í gangi, út af grein sem prófessor í tónlist skrifaði í sumar í Politiken, Dansk humaniora er en skandale, eða öllu heldur viðbrögðin við greinaskrifunum sem m.a. má sjá í þessari frétt. Og sjónarmið danska prófessorsins má svo lesa á hennar eigin bloggsíðu.

    Bendir til þess að hugsanalöggan sé „grænseløs“ 😉

    Og svo krossa ég fingur fyrir því að einfaldar HTML-skipanir virki í þessu athugasemdakerfi því annars mun textinn hér að ofan líta hörmulega út.

  9. hbdckokdjc http://www.pistillinn.is

    ducijnðovf´ðswdspfokgvb
    dfkcjofdkc

    Hmmm… samkvæmt mínum stillingum er visual editor á umræðukerfinu svo þú átt ekki að þurfa html. Virkar alveg eins og það á að gera hjá mér. Eru það greinarskil sem þú lendir í vandræðum með, eða tenglar?

  10. Sæl Eva og þakkka þér fyrir ákaflega greinargóða pistla um þetta mál.
    Sem prófessor við Háskóla Íslands þá verð ég að taka undir orð þín að að þessi skrif forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ standast enga fræðilega skoðun. Það breytir ekkert málinu hvort hún fjarlægði færsluna eða ekki. Hún verður að getað staðið fræðilega við skoðun sína í þessu máli. Það er að sjálfsögðu enginn að banna henni að skrifa þetta og ég túlka skrif þín einmitt í ljósi þess að þú vilt fá frekari skýringar frá henni.
    Þögn innan fræðasamfélags þegar svona mál koma upp bera ekki fræðasamfélagi gott vitni. Því miður.

  11. Er það nú orðið „hugsanalögregla“ að gera kröfu um að fólk sem gegnir stöðu sem þessari hafi lágmarksþekkingu á vísindalegri aðferð?

    Harpa sér ekki kjarna málsins, frekar en venjulega.

  12. Ég vil bara koma því á framfæri að ég tók sæti í Siðanefnd HÍ fyrir um 3 mánuðum og hef því hvergi komið nálægt þessu tiltekna máli.

  13. Ég var ekki að ýja að neinu sérstöku máli, Eyja Margrét, hvað þig varðar heldur ágætri grein sem þú skrifaðir gegn grein Salvarar Nordal, um mikilvægi eða skaðsemi þess að halda kristinni trú að börnum (fer eftir hvorrar málflutning menn aðhyllast), opið bréf til forseta Íslands sem þú skrifaðir í fjölmiðla fyrir nokkrum árum og varðaði meint trúboð í einhverjum fjöldapósti frá forsetaembættinu og svörin sem þú hefur skrifað á Vísindavefinn. Af þessu dreg ég þá ályktun að þér sé í mun að berjast gegn hindurvitnum.

    Hvað varðar félaga þína í siðanefnd HÍ er ég einmitt að blogga um þá þessa dagana og sýnist næsta ljóst að þetta eru hugprúðir menn sem víla ekki fyrir sér að ráðast gegn meintum hindurvitnum með öllum tiltækum ráðum.

    Það var gaman að sjá svarið frá þér því ég er einmitt að bíða eftir upplýsingum úr HÍ um hvenær þú hefðir tekið sæti Salvarar Nordal í siðanefnd HÍ (og fékk þær óforvarendis núna upp í hendurnar frá frumheimild, þ.e. þér sjálfri) og hvernig það bar til að þú tókst sæti Salvarar (reikna með að HÍ upplýsi mig um það en ef þú vilt gera það sjálf er netfangið mitt harpa@fva.is).

    Og fyrirgefðu þessa langloku á þínum umræðuþræði, Eva, hún kemur efni færslunnar þinnar ekki við en ég reikna með að Eyja Margrét lesi umræðuþráðinn.

  14. Ég fékk póst í byrjun nóvember frá framkvæmdastjóra Félags háskólakennara þar sem ég var beðin um að vera fulltrúi þeirra samtaka í siðanefnd HÍ þar sem Salvör hefði sagt af sér. Eftir nokkra umhugsun svaraði ég þeirri beiðni játandi og var þá formlega tilnefnd. Hvers vegna Salvör sagði af sér veit ég ekki, ég ætlaði einmitt að spyrja hana en hún var ekki við þegar ég bankaði upp á hjá henni til að spyrja hana (við erum með skrifstofur á sömu hæð í sama húsi og ættu því að vera hæg heimatökin) og svo hef ég hreinlega gleymt að spyrja hana betur út í það, sem er kannski bölvaður trassaskapur. Meira veit ég ekki en það er auðvitað aldrei að vita nema eitthvert djöfullegt plott búi þarna að baki 🙂

  15. Án þess að leggja neinn dóm á notkun örbylgjuofna þá er orkudreifing með örbylgjum önnur en þegar efnið/maturinn er hitaður með hefðbundnum hætti. Með örbylgjum getur þannig fengist mun hærri staðbundinn hiti heldur en þegar t.d. matur er hitaður í vatni, hitastig sem er hærra en 100°C (ef vatnsmagnið er orðið mjög lítið). Þannig myndi slíkt hafa áhrif á byggingu próteina sem og annarra efna sem eru viðkvæm fyrir hitastigi.

    Þessi áhrif sjást vel ef við tökum brauð og hitum það í örbylgjuofni. Jú það verður mjúkt eftir hitun en eftir að það hefur staðið á dágóða stund verður það nánst að grjóti; sambland af því að fjarlægja vatnið sem og strúktúr breytingar á próteinum (afmyndun) og sterkju.

    Hins vegar gæti meðalhitastigið verið áþekkt þegar allur efnismassinn er tekinn.

Lokað er á athugasemdir.