Á snjáldrinu keppast notendur við að deila tengli á grein sem á að sýna fram á skaðsemi örbylgjuofna.
Efni greinarinnar er tilraun grunnskólabarns á tveimur plöntum. Margir hafa endurtekið þessa tilraun með töluvert vísindalegri vinnubrögðum og komist að þeirri niðurstöðu að ekkert bendi til þess að örbylgjuhitað vatn hafi önnur áhrif á plöntur en vatn sem hitað er með öðrum aðferðum.
Engu að síður sér maður ótrúlegar umræður um þetta á fésinu. Ég hef m.a. séð því haldið fram að örbylgjuhitun „breyti efnasamsetningu vatns“ og „sundri vatnssameindum“.
Ég undrast oft þann einbeitta bábiljuvilja sem birtist í fastheldni við þvælu af þessum toga og það er eiginlega stórfurðulegt að svona fáfræði þrífist á tímum Gúgguls og félaga. Það gekk þó ekki fram af mér fyrr en bent var á að forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ hefði póstað þessu á vegginn sinn á fb. Það fyrsta sem mér datt í hug var að umræddur vísindamaður, Kristín Vala Ragnarsdóttir, hefði tengt á greinina einmitt til þess að vara fólk við þessari vitleysu. Það fékk því töluvert á mig að sjá að tengillinn var settur inn á öðrum stað með „like“ skipuninni, sem getur hæglega gefið fólki þá hugmynd að Kristín Vala sé sammála efni greinarinnar. Verra er þó að engin athugasemd fylgir nema bein tilvitnun í greinina.
Þegar þetta er ritað hefur tengillinn verið inni á vegg sviðsforsetans, Kristínar Völu Ragnarsdóttur í meira en sólarhring. Á veggnum hennar hafa farið fram umræður um hvað það sé hræðilegt að ungbörnum sé gefin örbylgjuhituð mjólk en engar athugasemdir eru sjáanlegar frá henni sjálfri nema tenglar á greinar sem birst hafa á verulega vafasömum vefritum á borð við Global Healing Center og Jesus is Our Saviour. Manneskjan er augljóslega að grínast en það lítur út fyrir að sumir sem taka þátt í umræðunni, líti svo á að henni sé alvara. Hún hefur ekki leiðrétt þá hugmynd og ég hélt í fyrstu að hún hefði verið upptekin við annað og kannski ekki skoðað umræðurnar almennilega en svo sá ég að hún hefur „lækað“ afar vafasöm ummæli.
Jesús Kristur, mannkynslausnari með meiru, reyndi eitt sinn að elda egg í örbylgjuofni. Hann komst að þeirri niðurstöðu að örbylgjuofnar séu verkfæri Satans og í dag spælir hann eggin sín eingöngu á gamalli fægiskúffu.
Hér er um að ræða manneskju sem gegnir áhrifa- og ábyrgðarstöðu á sviði rannsókna og kennslu í raunvísindum við virtustu menntastofnun landsins. Hún vitnar gagnrýnilaust í tilraun grunnskólabarns, tilraun sem birtist á vefsetri „vísindavefrits“ sem birtir forsíðufrétt um að í genamengi mannsins sé að finna gen úr geimverum. Ekki nóg með það, heldur má hæglega túlka notkun hennar á „like“ skipuninni á þann hátt að hún taki undir vitleysuna.
Facebook er ekki lítill kunningjaklúbbur fólks sem þekkir hvert annars húmor og hugsanagang. Facebook er risastórt vefsamfélag þar sem fólk skiptist á upplýsingum, sumum góðum og þörfum en öðrum beinlínis röngum og jafnvel skaðlegum. Er ekki eðlilegt að gera þá kröfu til vísindamanns í þessari stöðu, að hann útskýri tilgang sinn þegar hann birtir tengla á greinar á opnum vegg, allavega þegar um er að ræða fráleitar hugmyndir sem fjöldi manns trúir, enda þótt þær eigi sér enga stoð í raunveruleikanum?
—
Bætt við kl 21.00
Kristín Vala hefur fjarlægt af veggnum sínum á fb umræðuþráð þar sem hún var gagnrýnd fyrir gagnrýnileysi sitt á tilraun grunnskólabarnsins og spurð hreint út hvort hún áliti örbylgjumatreiðslu hættulega eftir að hafa séð aðrar greinar þar sem tilraunin er gagnrýnd. Ég tók afrit af þessum þræði svo ef einhver hefur áhuga á að kynna sér þessar umræður þá er þetta allt saman til. Ennþá er á veggnum hennar annar þráður þar sem þessir hlutir eru til umræðu. Kristín Vala sjálf vísar þar á þessa grein, að því er virðist til stuðnings þeirri tilgátu að örbylgjumatreiðsla sé óheilsusamleg.
ffs, þarft ekki einu sinni gúgúl http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=270
Hún er nú búin að taka þetta út, athugsasemdalaust. Ég held hún hafi hreinlega verið að meina þetta og sé að reyna að fela þetta núna.
Ertu gengin til liðs við hugsanalögguna, Eva?
Nei. Ég geri hinsvegar þá kröfu til fólks sem leiðir vísindastarf að það sleppi því að hampa gervivísindum gagnrýnilaust. Finnst þér það ósanngjörn krafa?
Mér finnst að fólk megi halda fram skoðunum sínum á Fb. án tillits til starfs síns og án þess að eiga í hættu að einhverjir afriti vegginn þess til að nota þessu fólki til hnjóðs. Ég undanskil málflutning sem varðar við lög (t.d. hegningalög). Mér finnst hugsanalöggan fara offari og höft á tjáningarfrelsi af hálfu hinna pólitískt rétthugsandi eru orðin alltof sterk. Hefði seint trúað að þú bættist í hóp þeirra sem básúna á götum: „Má kennari segja svona“? vitnandi í persónuleg skrif viðkomandi. Ertu kannski gengin í „Stóru systur“ líka?
Ég hef ekki bannað Kristínu Völu að halda fram þeirri skoðun á opinberum vettvangi (en opinn veggur á fb hlýtur að teljast opinber vettvangur) að örbylgjuofnar séu hættulegir. Ég gagnrýni hinsvegar harðlega rök hennar fyrir þeirri skoðun og dreg í efa að það sé sæmandi að vísindamaður vitni í jesúsíður og grunnskólabörn máli sínu til stuðnings. Kristín Vala er leiðandi í vísindastarfi og slíkri stöðu fylgir ábyrgð.
Að sjálfsögðu er í lagi að afrita opinn fb vegg. Ekkert síður en að afrita bloggpistla og fréttir vefmiðla.
Harpa, gagnrýni er ekki það sama og að hefta tjáningarfrelsi, heldur einmitt hið gagnstæða. Alvöru hugsanalögga hefði einfaldlega farið fram á að Kristín Vala myndi fjarlægja þennan fb-þráð sinn og viljað banna henni að tjá sig nokkurn tímann aftur um þetta mál. Kristín Vala ákvað sjálf að taka út þennan þráð sinn, hver svo sem ástæðan var.
Það að geta gagnrýnt málflutning annarra, án þess að eiga hættu á refsingu finnst mér vera einn helsti kjarni alvöru tjáningarfrelsis. Krafa um að mega halda fram hvaða skoðunum sem er án hættu á að fá sig gagnrýni á móti tel ég hins vegar vera tilraun til að hefta tjáningarfrelsið.
Fólk á rétt á sínum eigin skoðunum já , en ekki staðreyndum
Að sjálfsögðu er í lagi að afrita hvað sem er af ýmsum ástæðum og jafnvel af afritunarlöngun einni saman. Mér fannst: „Ég tók afrit af þessum þræði svo ef einhver hefur áhuga á að kynna sér þessar umræður þá er þetta allt saman til“ aftur á móti svolítið einkennilegt boð, frá þér, Eva. Hefði þótt það alveg eðlilegt og fyrirsjáanlegt boð frá ýmsum öðrum.
Það að hefta málfrelsi kennara sérstaklega, eins og virðist í uppsiglingu (sbr. þessa bloggfærslu Evu og mál Snorra í Betel) á grundvelli einhvers sem þeim rétthugsandi (að eigin mati) þykir „sæmandi“ eða „ekki sæmandi“ finnst mér heldur vafasöm þróun og vona að hún gangi ekki öllu lengra en komið er. Líklega er best að halda sig við landslög áfram og sleppa sjálfskipuðum hugsanalöggum.
Setjum sem svo að ég krækti athugasemdalaust í Youtube myndband af Lagarfljótsskrímslinu á opinni Facebook , umræðuþráður yrði til fyrir neðan, og ég væri enn starfandi kennari … myndi fólk þá leggja á sig að afrita þann Fb.vegg og bjóða hann þeim sem hefðu áhuga á? Til hvers? Af því ég væri kennari?
Annars er ég sammála því að opin Fb. hlýtur að hafa sama status og spjallborð í skilningi laga, þ.e. falla undir „jafningjanet“, sem nýtur ekki friðhelgi sem einkamál. (Fyrir Rebekku tek ég fram að þetta gildir að öllum líkindum einnig um svokölluð „lokuð spjallsvæði“ 🙂
Að lokum tek ég fram að ég hef ekki hugmynd um hver Kristín Vala er. Raunar hef ég engan sérstakan áhuga á að vita það né hvað sú kona kýs að linka í á sinni Facebook. En tel ólíklegt að hún vísi í sína Facebook sem náms- eða kennsluefni.
Á þessum þræði var Dr Kristín Vala gagnrýnd og spurð óþægilegra spurninga. Í stað þess að svara þeim, eyddi hún þræðinum. Það verulega lélegt að reyna að eyða gagnrýni í stað þess að svara henni og ég sé nákvæmlega ekkert að því að fólk viti að þessu sé haldið til haga.
Nú ert þú ekki í sömu stöðu og Kristín Vala og þér leyfist því meira, en hefði hún, sem forseti Náttúruvísindasviðs HÍ, birt myndbandið af Lagarfljótsorminum á veggnum sínum, hefði engum dottið í hug að hún væri þar með að vara fólk við lagarskrímslum. Það eru nefnilega mjög fáir sem trúa á skrímsli. Þeir eru hinsvegar margir sem trúa á skaðsemi örbylgjuofna og hefði manneskja í þessari stöðu birt myndbandið ásamt tenglum á „vísindagreinar“ um skrímsli og sagt í fullri alvöru að fólk skyldi forðast landbúnaðarvörur frá Austurlandi, þar sem sýnt hefði verið fram á fjölda sullarveikistilfella í sauðfé af völdum lagarskrímsla, þá er ég hrædd um að „alvöru“ blaðamenn, hefðu gert athugasemdir. Ég gæti m.a.s. trúað því að þú, sem kennari hefðir fengið spurningar um það frá þínum yfirmanni, hvort þú værir nokkuð að ganga af göflunum.
Annars hefur enginn reynt að hefta málfrelsi Kristínar Völu, heldur aðeins reynt að fá hana til að gefa upp vitrænar heimildir fyrir kenningunni um skaðsemi örbylgjuofna eða að öðrum kosti viðurkenna að engin góð vísindi styðji hana. Það hefur ekki tekist.
Frekar hugsanalögguleg skrif, og tilgangurinn vandséður. Frekja og dónaskapur að skammast yfir því sem aðrir setja á vegginn sinn og tilkynna öllum að þeir hafi hent því út, og nánast gera það að einhverri trúarherferð að birta það opinberlega.
Ef konan hefur eytt þessum skrifum, hefur hún kannski áttað sig á að þetta voru vanhugsaðar pælingar.
Rúllaði snöggt yfir vegginn hjá Kristínu Völu og sé þar bara ansi margt af viti, en .. ,,finni maður fölnað tré, fordæmir hann skóginn .. “
Er bannað að hugsa útfyrir einhver viðurkennd mörk vegna menntunar?
Ein greinin sem hún tengir í, segir frá rannsóknum frá 1998 og 1999 þar sem virtist sem B12-vítamín hyrfi úr mat sem eldaður væri í örbylgjuofni. Við vitum í dag að það stenst nú varla, en ég man vel eftir því þegar því var fullum fetum haldið fram að ljósabekkir væru alveg skaðlausir. Afhverju má blessuð konan ekki velta þessu fyrir sér?
Fyrir nú utan það að þú veist ekki einusinni hvort hún var að grínast, einsog þú segir sjálf ..
ó, ég hélt að þetta væri nýr pistill .. rakst á hann á Fb .. 😉
Hún er ekki bara að velta þessu fyrir sér heldur að breiða út gervivísindi. Það er jafn gagnrýnivert að vísindamaður breiði út gervivísidi og að dýralæknir bjóði upp á kjöt af sjálfdauðu á opinberum vettvangi. Og nei það er ekki í lagi að áhrifafólk feli efni í því skyni að koma sér hjá því að svara spurningum sem varða árekstra milli stöðu þess og þess hvernig það tjáir sig.