Jú það á víst fyrir mat

Því ef fók er með lágmarkstekjur þá duga þær fyrir brýnustu nauðsynjum. Þær duga hinsvegar ekki fyrir afborgunum af húslánum og öðrum lánum miðað við þá vaxtastefnu sem viðgengst hér.

Ef maður á mjög lítið af peningum verður maður að forgangsraða og þótt ég mæli eindregið með því við venjulegar kringustæður að fólk leggi sig fram um að standa í skilum, þá eru það ekki neinar venjulegar aðstæður sem eru uppi í samfélaginu núna.

Við stöndum frammi fyrir vanda sem er sannarlega ekki þeim lægst launuðu að kenna. Ef þessi ríkisstjórn situr áfram, má líka reikna með að félagsþjónustan verði fyrir ‘hagræðingu’, einnig heilbrigðiskerfið og menntakerfið og það eru því þeir verst settu sem verða látnir taka á sig þyngstu byrðarnar.

Nú legg ég til að við hagræðum fjármálum okkar þannig að ríkið og bankarnir fari neðst á forgangslistann. Auðvitað eigum við að vera hagsýn og halda aftur af neyslufíkninni en við ættum samt að láta nauðsynjar ganga fyrir.

Kaupum mat og ef þess er einhver kostur að versla beint við framleiðandann gerum það þá frekar en að hella meiri pening á svikamyllur Jóns Ásgeirs og henda 7% í vaskinn. Reynum samt að kaupa lítið og hættum algerlega að borga af lánum sem við erum ekki með ábyrgðarmenn á, þar til búið er að breyta reglum um vexti og verðbætur, þannig að fólk geti eignast íbúðirnar sínar og eigi allavega möguleika á að greiða upp yfirdráttinn og kreditkortin.

mbl.is Fólk á ekki fyrir mat
Share to Facebook

One thought on “Jú það á víst fyrir mat

  1. ——————————————————————

    Sæl Eva synd væri að segja að ég hafi verið einn af þínum helstu aðdáendum,enda margoft látið það í ljós en þessi athugasemd þín „Ég hef lýst yfir samstöðu með þeim sem nú eru að lenda í vandræðum með því að hætta að borga af lánum hjá ríki og bönkum. Ég hvet aðra til þess sama.“ Og greini hér að ofan færi mig aðeins til að hlusta á það sem þú segir.Í raun er ég þér algjörlega sammálan en þar sem að ég hef ekki enn safnað nægum kjarki til þess að hætta að borga af lánum og reyndar næ enn að standa í skilum langar mig að biðja þig að lýsa því annað kastið hvernig gengur hjá þér.Hvort fógeti sé inná gafli og svo framvegis.Hef reyndar trú að þetta séu sterkust mótmæli sem hægt er að gera þarna setja menn allt undir. Ég vona að þér gang vel í þessari baráttu þótt að ég reikni með að við verðum ekki sammála um allar aðrar aðgerðir sem þú heldur úti.Hver veit kannski ert þú dropinn sem holaði steininn.

    Einar Oddur Ólafsson, 12.12.2008 kl. 18:17

    ——————————————————————

    Það þarf kjark til að hætta að borga af lánunum.

    Heidi Strand, 12.12.2008 kl. 18:40

    ——————————————————————

    Já það þarf kjark til þess og ég játa að ég hef legið andvaka af áhyggjum og ég velti því fyrir mér daglega hvort ég sé að gera rétt með þessu.

    Til þess að svona aðgerð heppnist þarf samstöðu og einhver verður að ríða á vaðið. Ég get ekki beðið aðra að grípa til aðgerða sem ég er ekki tilbúin til að beita sjálf og þessvegna ákvað ég að byrja á þessu strax 1. desember. Hugsanlega leiðir þetta mig í gjaldþrot en það verður þá bara svo að vera. Þeir fyrstu sem börðust fyrir réttindum verkafólks tóku áhættu á að missa vinnuna (og fá kannski enga aðra). Fyrstu kvenréttindakonurnar þurftu að takast á við fordóma samfélags sem setti þær i flokk með dræsum og misyndismönnum.

    Ég geri þetta þótt ég sé hrædd af því að ég trúi því að samstaða um slíka aðgerð skili hámarks árangri með lágmarks erfiði. Við þurfum ekki einu sinni að mæta á Austurvöll til að hætta að borga, hvað þá að kasta eggjum eða standa á stéttinni fyrir framan skrifstofu ríkissaksóknara og vera asnaleg. En já, þeir fyrstu þurfa kjark og kjark öðlast maður aðeins á einn hátt; með því að gera það þótt maður þori ekki.

    Eva Hauksdóttir, 12.12.2008 kl. 18:57

    ——————————————————————

    Mikið svakalega er ég þinni bylgjulengd!  Heyr heyr og hó hó! GOTT MEÐ ÞIG!

    MINN STUÐNINGUR ER VIÐ ÞIG

    Kjartan Pálmarsson, 12.12.2008 kl. 19:35

    ——————————————————————

    Sæl Eva, mig langar að byrja á að segja að ég dáist að þér fyrir hreinskilni þína og kjark. Að standa upp gegn risanum og svínunum er stórt skref og það þora því ekki hver sem er. Hauk son þinn væri ég til í að hitta, í spjall og ég veit að ég þekki svipað fólk og hann.  Ég hef mótmælt margsinnis, verið handtekin, barin og lítilsvirtur en það breytir ekki mér! Ég er einlægur aðdáandi þinn, því að Þú ÞORIR!

    Óskar Steinn Gestsson, 12.12.2008 kl. 19:45

    ——————————————————————

    Fólk á að áskilja sér rétt til að lifa mannsæmandi lífi og þá er ég ekki að tala um bruðl. Borga lánin ef það getur en ekki ef það getur það ekki, heldur á það að eiga fyrir mat og nauðsynjum og borga orkureikninga og þ.h.   Það þarf enginn að svelta.

    Tek undir þín skrif 

    Annars langar mig að benda á það að það er hægt að spara helling í ríkisrekstri með því að aðskilja ríki og kirkju. Þjóðkirkjan fær 2-3 milljarða á ári frá skattborgurum, kristinnar trúar, trúlausum og annarrar trúar, og þetta er fyrir utan sóknargjöldin!   Sóknargjöldin ein og sér nægja fyrir launum presta og helsta rekstri.  Síðan eru prestar hálaunafólk!  Hafa þeir farið fram á launalækkun eða hefur kirkjan afþakkað styrki, svo það sé hægt í staðinn að halda úti rekstri á hjartadeild sem dæmi?

    Það virðist eitthvað tabú að það megi ekki tala um þessi mál.

    Kveðja 

    Margrét St Hafsteinsdóttir, 12.12.2008 kl. 21:54

    ——————————————————————

    Borga ekki 7% virðisaukann segirðu… og hefur svo áhyggjur af því að ríkið hagræði í útgjöldum sínum! Mér þykir nú mótsögn í þessu.

    Gunnar Th. Gunnarsson, 13.12.2008 kl. 05:38

    ——————————————————————

    Ef þú borgar ekki af þínum lánum þá endar það bara á einn veg.. að við hin þurfum á endanum að borga þau fyrir þig…

    Takk..

    David (IP-tala skráð) 13.12.2008 kl. 06:33

    ——————————————————————

    Þeir Gunnar og David hér að ofan virðast ekki ná point´inu eða inntaki pistilsins!

    Ef ég skipti við bónda á poka af kartöflum og skóflu sem ég nota ekki þá þarf ekki að borga neinn 7% VSK!

    Það eru margir möguleikar fyrir ríkið að hagræða án þess að það komi niður á borgurum eins og t.d skera af alvöru niður í utanríkisþjónustu sendiráðum, varnarmálum o.þ.h. Því meira sem fólk borgar, því meira er eytt í vitleysu á meðan óhæf ríkisstjórn er við völd. Það er fullt af góðu fólk til sem getur tekið við stjórn en það er í sitthvorum flokkunum og því þarf að vera hægt að kjósa einstaklinga.

    Ef fólk borgar í stórum stíl ekkert af lánunum þá verður ríkistjórn tilneydd til að gera eitthvað í málunum! Og það er margt hægt að gera. Eitt af því er að taka upp nýjan gjaldmiðil strax. Það er vel hægt og enginn vandkvæði miðað við öll vandamálin sem slík aðgerð leysir. En það er mótstaða gegn því vegna þess að svo margir ráðamenn missa mikil völd ef þeir hafa ekki lengur ISK til að ráðskast með til að stýra fólkinu.

    Það kemur reyndar af sjálfu sér að um 10.000 manns borga ekki af lánum sínum febrúar 09! Vegna þess að þau geta það ekki.

    Walter Ehrat, 13.12.2008 kl. 10:41

    ——————————————————————

    Tinna eins og kemur fram í greininni þá bið ég engan að hætta að borga af lánum sem eru með ábyrgðarmönnum á, það myndi ég ekki gera sjálf. Við sem erum í þeirri lúxusaðstöðu að þurfa ekki að setja aðra í vanda með því að hætta að borga, ættum hinsvegar að sýna samstöðu með hinum.

    Eva Hauksdóttir, 13.12.2008 kl. 12:11

    ——————————————————————

    Gunnar, ég veit ekki hversu mikið þú hefur fylgst með þessari umræðu en hugmyndin er sú að svelta hagkerfið, þ.e. borga ekki af lánum hjá ríki og bönkum og versla eins lítið og mögulegt er, til þess að skapa þrýsting.

    Ég treysti þessari ríkisstjórn ekki fyrir peningum, þannig er rökrétt fyrir mig að geyma peningana í pappakassa og skila þeim þegar ég er búin að fá einhverja staðfestingu á því að ég muni ekki missa heimilið mitt og fyrirtækið út á svindl og svínarí nokkurra gerviskrilljónera.

    Ég er hinsvegar alls ekki að mæla með því að vaskurinn verði aflagður.

    Eva Hauksdóttir, 13.12.2008 kl. 12:17

    ——————————————————————

    David.

    Já, það er rétt. Ef fólk borgar ekki skuldirnar sínar, munu aðrir borga þær. Það er einmitt það sem er að gerast núna. ÉG og ÞÚ eigum að borga upp skuldir Hannesar Smárasonar og Jóns Ásgeirs með því að greiða vexti og skatta sem við ráðum ekki við. Ég vil það ekki og þessvegna vil ég mótmæla með því að borga ekkert fyrr er búið að leiðrétta það rugl.

    Ég ætla vissulega að borga skuldirnar mínar. Ég ætla hinsvegar ekki að borga þær tífalt þrítugfalt eða hundraðfalt.

    Eva Hauksdóttir, 13.12.2008 kl. 12:21

    ——————————————————————

    Ég er kannski ólíkur ykkur… en ég vil sýna samfélagslega ábyrgð og borga því mína skatta og skyldur. Ég vil verja okkar velferðar og menntakerfi, sem vel að merkja er eitt það besta í heimi.

    Gunnar Th. Gunnarsson, 13.12.2008 kl. 15:06

    ——————————————————————

    Ég vil líka verja veferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfin Gunnar. Þessvegna vil ég losna við ríkisstjórn sem ég tel líklega til að beita skurðarhnífnum harðast á þessi kerfi. Þessvegna er ég dauðhrædd við lán frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og aðild að Evrópusambandinu. Þessvegna vil ég skoða alvarlega möguleikann á því að taka upp dollar.

    Það er líka þessvegna sem ég vil sjá allsherjar greiðslustræk. Ef vextir og skattahækkanir bitna svo illa á heimilum og fyrirtækjum að allar eignir safnist á hendur örfárra manna, og ef atvinnuleysi verður svo mikið að atvinnuleysistryggingasjóður, LÍN og sjóðir felagsþjónustunnar tæmist, þá fyrst hrynur allt sem hrunið getur.

    Samfélagsleg ábyrgð merkir því t.d. að grípa til aðgerða strax.

    Eva Hauksdóttir, 13.12.2008 kl. 16:41

    ——————————————————————

    Þið eruð að auka fylgið systir góð.

    Finnst þú vera að berjast í rétta átt og finnst frekar undarlegt þegar fólk reynir að lesa eitthvað annað út úr færslunum þínum.
    Elsk jú inn tætls.

    Hulla Dan, 14.12.2008 kl. 17:26

Lokað er á athugasemdir.