Inngangur að innflytjendamýtum

Síðustu daga hafa nokkrar mannvitsbrekkur sem kalla sig þjóðernissinna, tjáð sig um málefni strokuþrælsins frá Máritaníu á umræðukerfi DV. Þótt ég aðhyllist frjálslega flóttamannastefnu, skil ég vel áhyggjur þeirra sem sjá fyrir sér hörð kynþáttaátök og hafa áhyggjur af því að mikill fjöldi innflytjenda ali af sér efnahagsvanda og ýmis félagsleg vandamál. Ég hef hinsvegar takmarkað umburðarlyndi gagnvart skoðunum þeirra sem álíta að lausnin á þessum vanda sé fólgin í aðskilnaðarstefnu og telja hvítt fólk og kristið á einhvern hátt öðru fólki æðra og rétthærra.

Umræðuþræðir fjölmiðla eru hugsaðir sem vettvangur fyrir skoðanaskipti og það er nauðsynlegt að ræða það hvernig eigi að standa að málefnum innflytjenda og þau vandamál sem koma upp í tengslum við fólksflutninga til landsins. Mér finnst uppbyggilegra að ræða það hvernig hægt sé að taka á móti fólki án þess að stofna um leið til vandamála en þeir eru sennilega fleiri sem telja að besta leiðin til að koma í veg fyrir vandamál sé sú að vísa sem flestum frá. Venjulega finnst mér gaman að rökræða við fólk sem er mér ósammála en til að slíkar umræður skili manni víðari sýn á málið, þarf viðmælandinn þó að hafa a.m.k. hundsvit á því sem hann er að tala um. Það er hreinlega ekki hægt að halda uppi vitrænum samræðum við fólk sem heldur að slæm landamæragæsla sé orsökin fyrir þrælahaldi í Máritaníu eða að rétta leiðin fyrir strokuþræl til að losna úr ánauðinni sé að fara heim og „vinna í sínum málum þar“ (væntanlega með því að skrifa kvörtunarbréf til Noregs eftir að hann hefur gengist undir geldingu). Eins og umræðan er þörf þá skapar það ákveðinn vanda þegar hver fáráðurinn á fætur öðrum malbikar internetið með svona speki. Maður hefur ekki undan að leiðrétta ruglið og samræðan snýst upp í grunnkennslu í mannkynssögu í stað þess að fólk skiptist á hugmyndum um það hvernig leysa skuli vandamál.

Á næstu dögum ætla ég að skrifa stutta pistla um nokkrar innflytjendamýtur sem ég hef orðið vör við. Ég nenni að vísu lítið að ræða jafn fáránlegar hugmyndir og þær að það jafngildi þjóðarmorði að taka á móti flóttamönnum eða að þrælar og hermundar þjóðir hafi það bara helvíti fínt undir harðstjórn kúgara sinna, en beini orðum mínum frekar til viðræðuhæfs fólks sem hefur áhyggjur af því að aukinn fjöldi innflytjenda hafi vandamál í för með sér. Ég hvet lesendur eindregið til að skilja eftir athugasemdir við pistlana og einnig væri gaman að fá ábendingar um fleiri mýtur.

Helstu mýtur sem ég verð vör við og verða til umræðu hér á næstu dögum eru þessar:

 

1 Innflytjendavandamál skapast þegar ólíkri menningu er blandað saman

-Þetta fólk vill ekkert aðlagast vestrænu samfélagi.
-Flestir þeirra vilja ekki einu sinni læra tungumálið.
-Menningu okkar stafar hætta af muslimum og öðru fólki með ólíkan menningarbakgrunn.

2 Frjálsleg innflytjendastefna er óhagkvæm fyrir okkur

-Þetta fólk kemur hingað til að taka vinnu frá okkur.
-Þau koma hingað til að leggjast á velferðarkerfið.
-Innflytjendur lækka vinnulaun.
-Svertingjar eru svo latir að það er ekki hægt að hafa þá í vinnu nema lemja þá.


3 Innflytjendur og þá einkum flóttamenn eru glæpahneigðir

-Flestir flóttamenn eru á flótta undan réttvísinni.
-Kynferðisoflbeldi er viðurkennt meðal sumra þjóða svo það má reikna með að með auknum fjölda innflytjenda fari heilu nauðgunargengin hamförum.
-Á Norðurlöndum eru erlend glæpagengi stórt vandamál.
-Þetta fólk er vant svo mikilli spillingu og vondu siðferði að stór hluti þess mun bera þessa siði áfram til okkar.

4 Grimmd muslima elur af sér samfélagsvandamál

-Siðferði múslíma virðir engin mannréttindi, ef við hleypum þeim inn í landið getum við gert ráð fyrir ærumorðum og barnagiftingum.
-Búrkan er tákn kvennakúgunar. Ef við bönnum hana ekki erum við þar með að samþykkja kvennakúgun.
-Múslímar eru hryðjuverkamenn og trúa á heilagt stríð.
-Múslímar líta á börn sem búfénað, og eru auk þess nógu heimskir til að fjölga sér eins og kanínur þótt þeir geti ekki einu sinni framfleytt öllum börnunum.

5 Muslimir virða ekki menningu annarra en ætlast samt til að aðrir virði menningu þeirra.

-Þegar við komum til „þessara landa“ þurfum við að aðlagast þeirra siðum en þeir vilja samt ekki aðlagast okkar siðum.
-Muslimir myndu aldrei samþykkja að kristnir menn reistu kirkjur í þeirra löndum svo af hverju ættum við að leyfa þeim að reisa moskur?
-Frekjan í þessu fólki tröllríður menningunni, nú má t.d. ekki lengur bjóða upp á svínakjöt í skólamötuneytum þar sem muslimabörn eru í skóla.
-Það er endalaust vesen með skólasundið af því að þetta getur ekki farið í sund með fólki af gagnstæðu kyni.

6. Við berum ekki ábyrgð á þessu fólki

-Við berum enga ábyrgð á ástandinu í þessum löndum svo hversvegna ættum við að taka við vandamálunum?
-Það er ekki okkur að kenna þótt verði náttúruhamfarir og uppskerubrestur í öðrum löndum og að þeir hafi ekki byggt upp velferðarkerfi og almannatryggingar svo af hverju ættum við að sitja uppi með fólk sem er að flýja fátækt?
-Við höfum nóg með sjálf okkur. Á meðan við getum ekki einu sinni rekið almennilega velferðarþjónustu fyrir Íslendinga, höfum við ekkert efni á að taka að okkur fleiri ómaga.
-Við eigum að hjálpa þessu fólki heima hjá sér en ekki hleypa því með öll sín vandamál hingað til okkar.

7 Hagkerfið ber ekki mikinn fjölda flóttamanna

-Maður sér best á Grikklandi og Ítalíu hvað mikill fjöldi flóttamanna skapar mikil vandamál.
-Ef við leggðum niður landamæri myndu Afríka, Mið-Austurlönd, Indland og Kína tæmast og tugir milljóna manna flykkjast inn í hvít lönd.
-Ef við bjóðum flóttamenn velkomna mun allt yfirfyllast af glæpamönnum og fólki í slæmu ástandi vegna stríðs og fátæktar.

8 Lögin ráða því hvort við tökum á móti flóttamönnum

-Þjóðir heims hafa gert með sér samkomulag um að mál flóttamanns skuli tekið til meðferðar í fyrsta móttökulandinu.
-Þar sem fólk með fölsuð skilríki er glæpamenn er ekkert hægt að gera annað en að fangelsa því og vísa því á braut.
-Hælisleitendur eru ekki sendir til baka í ómannúðlegar aðstæður, aðeins þeir sem ljúga til um aðstæður sínar eru sendir til baka.
-Umsóknir um hæli og dvalarleyfi fá vandaða afgreiðslu, það eru bara svo margir sem sækja um á fölskum forsendum.
-Útlendingastofnun fer bara eftir lögum, þessvegna er ekki hægt að krefjast þess að hún hleypi fleira fólki inn.

Share to Facebook

One thought on “Inngangur að innflytjendamýtum

  1.  ———————————-
    Frábært framtak. Ég var einmitt að hugsa um að gera eitthvað svipað. Hlakka til að lesa þetta.

    Varðandi fyrsta þáttinn þá er best að líta til Kanada, þar sem fólk hefur komið saman úr öllum áttum og náð að virkja það til góðs. Hlakka sem sagt til! 🙂

    Posted by: Þorkell | 8.08.2011 | 19:08:36

     ———————————-

    Mun bíða spenntur eftir því hvernig þú munt „tækla“ yfirstandandi útrýming á þínu fólki, Hvítu fólki, and-Hvíta Eva.

    Posted by: Skúli Jakobsson | 15.08.2011 | 23:02:13

Lokað er á athugasemdir.