Innflytjendamýta 3 – glæpahneigð innflytjenda

Eitthvað ætlar að standa á kynþáttahöturum að þiggja boð mitt um að nota tjásukerfið til að gera grein fyrir skoðunum sínum. Það virðist vera eitthvað flókið þegar krafan er sú að þeir færi rök fyrir máli sínu. Jæja, það er þá kannski hægt að halda áfram að ræða innflytjendamýturnar án þess að hnjóta endalaust um þessa þjóðarmorðsþvælu.

Sú mýta sem sennilega er líklegust til að ýta undir kynþáttaofsóknir er þessi:

3 Innflytjendur og flóttamenn eru glæpahneigðir

Sumir ganga svo langt að halda því fram að „þetta fólk“ (þ.e. allir aðrir en hvítir Vestur-Evrópubúar- og hvítir Bandaríkjamenn) sé einfaldlega glæpahneigt í eðli sínu. Oftar heyri ég þó þá skoðun að það sé glæpalýðurinn sem flytur sig um set og hreiðrar um sig í ríkjum velferðar og lýðræðis, því þar hafi lágstéttarmafíósar mörgu að stela og margan manninn að berja sér til skemmtunar. Þessi hugmynd vindur svo upp á sig, ekki nóg með að liðið sé glæpahneigt, heldur vinnur það í hópum. Niðurstaðan er önnur mýta þessari tengd:

-Erlend glæpagengi eru stórt vandamál á Íslandi

Í fyrsta lagi er það rangt að hátt hlutfall innflytjenda sé glæpamenn (því miður finn ég ekki tengil á upprunalegu grenina hans Helga) og reyndar er staðreyndin sú að hegningarlagabrotum á Íslandi fækkaði verulega á árunum 2001-2006, sama tíma og innflytjendum fjölgaði til muna.

Í öðru lagi þá spretta glæpir ekki af misjöfnu eðli þjóða heldur af félagslegum aðstæðum.

Mýtan á sér grunn. „Perkavandamálið“ á Norðurlöndum. Athyglisvert er þó að há glæpatíðni „Perka“ í Noregi og Danmörku er bundin við aðra kynslóð innflytjenda. Það eru ekki innflytendurnir sjálfir, heldur börnin þeirra sem mynda andfélagslegar klíkur. Ég frábið mér einhver komment um að ég sé að réttlæta glæpi innflytjenda eða kenna öðrum um þá, vitanlega ber hver maður ábyrgð á gjörðum sínum. En við berum líka ábyrgð á þeim samfélagsaðstæðum sem ala upp glæpagengi og ef við viljum vera laus við þau þá er eins gott að við gerum okkur grein fyrir því að vandinn kemur ekkert frá útlöndum, hann er heimaalinn.

Önnur kynslóð innflytjenda (sem væri kannski eðlilegra að kalla fyrstu kynslóð Íslendinga, Dana eða Svía) býr við stöðuga framandgervingu (það sem á ensku nefnist alientation og felur í sér þá kennd að tilheyra hvergi). Þessi börn alast upp við menningu foreldra sinna heima en mæta allt öðrum kröfum úti í samfélaginu. Þau þekkja ekkert annað föðurland en fá þó stöðugt þau skilaboð að þau séu gestir, og yfirleitt hreint engir auðfúsugestir. Heima eru þau skömmuð fyrir að vera ekki Tyrkir/Serbar/Arabar en í skólanum fyrir að vera ekki Danir/Svíar/Norðmenn. Menning foreldra þeirra er ekki þeirra menning, menning „nýja“ landsins ekki heldur. Hvernig haldið þið svo að þessum krakkagreyjum líði? Allt fólk hefur þörf fyrir að tilheyra samfélagi, vera einhverstaðar í veröldinni velkomið og að sjálfsögðu rotta þessir krakkar sig saman og stofna sín eigin samfélög, setja sínar eigin reglur, sem skilnanlega miða að því að tryggja sér yfirráðasvæði og verja það.

Og við hverju búast menn eiginlega? Áttu Danir kannski von á því að með því að flytja inn Tyrki og Júgóslava í stórum stíl, hola þeim niður í útlendingahverfi ásamt slatta af Pakistönum, bjóða fyrstu kynslóð ekki upp á neina menningarmenntun og segja börnunum þeirra í skammartón að fara „heim“ (til lands sem þau höfðu aðeins heimsótt tvær vikur í sumarfríinu) í hvert sinn sem þeim varð á að sýna einhver merki um að eiga erfitt með að „aðlagast“, væru þeir að skapa gott og friðsamlegt fjölmenningarsamfélag?

Á Íslandi er önnur kynslóð innflytjenda ekki ennþá orðin að vandamáli. Þ.e.a.s. hún er ekki orðn vandamál fyrir samfélagið en mikið brottfall innflytendabarna úr námi segir okkur þó að það fólk á vissulega við vandamál að stríða. Og við skulum athuga að önnur kynslóð innflytjenda stækkar stöðugt. Íslendingum er hinsvegar tíðrætt um Austur-Evrópsk glæpagengi. Þar er um að ræða fyrstu kynslóð innflytjenda og þrátt fyrir að glæpatíðni hafi lækkað er ekki um það deilt að skipulögð glæpastarfsemi Austur-Evrópumanna á sér stað, þótt hún sé langt því frá að vera eins umfangsmikil og ætla mætti af umræðunni. Glæpatíðni í flestum löndum Austur-Evrópu er þar að auki há, svo það er rökrétt að hafa áhyggjur.

Við skulum samt hafa í huga að skýringin á ástandinu í Austur-Evrópu er ekki sú að Litháar séu verr innrættir en Íslendingar. Há glæpatíðni einkennir alltaf samfélög sem eru að liðast í sundur eftir langvarandi valdníðslu og slæmt efnahagsástand. Há glæpatíðni er alltaf fylgifiskur mikillar fátæktar, áberandi misskiptingar auðs og valds, skerðingar á tjáningarfrelsi og mikils lögreglueftirlits. Það er vegna þess að flest fólk hefur réttlætiskennd og finnur hjá sér hvöt til að „leiðrétta“ ástandið. Þegar löglegar leiðir eru illfærar þá er rökrétt að beita öðrum ráðum og þegar hópar á annað borð fara að setja sínar eigin reglur án samráðs við samfélag sitt, verður til klíka. Gengin líta ekki á sig sem glæpamenn, þau telja sig standa í stríði, hugsanaháttur þeirra er nákvæmlega sá sami og hugsunarháttur hvítþveginna ráðamanna sem skipuleggja árásir á aðrar þjóðir.

Nú jæja, kannski á glæpamenning sér rökréttar skýringar en það breytir því ekki að við sitjum uppi með þetta pakk eða hvað? Eins og við höfum ekki nóg með okkar eigið bófahyski.

Jújú, glæpamenn slæðast til Norðurlanda. Að sjálfsögðu. Og á meðan við tökum á móti innflytjendum með tregðu og tortryggni, bjóðum hvorki upp á tungumálakennslu né aðra kynningu á menningunni, látum þá finna fyrir því á hverjum einasta degi að þeir séu aðskotadýr á vinnumarkaðnum og yfirhöfuð óvelkomnir, þá munu innflytjendur mynda klíkur og nota andfélagslegar aðferðir til að komast af. Lausnin er ekki sú að mæta innflytjendum með því hugarfari að þarna sé nú kominn erlendur glæpalýður sem best sé að forðast, heldur að vinna gegn aðskilnaðarhyggju, skapa samfélag sem býður upp á efnislegt og tilfinningalegt öryggi fyrir alla. Innflytjendur eru nefnilega ekki glæpahneigðari en við hin, glæpaklíkur eins og öll önnur félagsleg vandamál eru afsprengi samfélagsaðstæðna sem vel er hægt að breyta.

Við Íslendingar getum lært af reynslu annarra Norðurlandabúa. Aðskilnaðarhyggjan varð ekki til neinnar blessunar þar og hún mun ekki blessast á Íslandi. Það er heldur ekki hægt að ætlast til þess af nokkrum manni að hann sætti sig við einhverja einstefnu aðlögun, þar sem hann á að fylgja siðum og hugmyndum sem eru honum ekki eðlilegar. Við getum hinsvegar reynt fjölmenningarleiðina, boðið innflytjendur velkomna, ekki bara sem kjötflykki sem kunna á skúringavélar, heldur sem manneskjur með eigin smekk og skoðanir.

Það fyrsta sem við þurfum að gera er að losa okkur við þá mýtu að innflytjendur séu vandamál á Íslandi. Glæpatíðni hefur nefnilega ekki aukist.

Í öðru lagi þurfum við að taka vel á móti innflytjendum og stefna að menningarblöndun í stað þess að krefjast þess að „þeir“ aðlagist „okkur“. Í fjölmenningarsamfélagi gildir nefnilega ekki lögmálið „við“ á móti „hinum“ heldur reynir ólíkt fólk að hjálpast að.

Í þriðja lagi þurfum við að koma í veg fyrir að önnur kynslóð innflytjenda alist upp við framandgervingu, því ef við komum ekki í veg fyrir það, þá mun glæpum fjölda og kynþáttaátök verða að raunverulegu vandamáli. Framandgerving innflytjendabarna er skilgetið afkvæmi aðskilnaðarhyggjunnar. Ekkert er líklegra til að skapa kynþáttaátök.

Tengd mýtunni um glæpahneigð innflytjenda er sú hugmynd að flóttamenn séu misindismenn (fokk hvað þetta orð væri miklu fallegra með y) á flótta undan réttvísinni. Ég tek hana fyrir í næsta pistli um innflytjendamýturnar.

 

 

Share to Facebook

One thought on “Innflytjendamýta 3 – glæpahneigð innflytjenda

  1. ——————————————–

    Þetta eru frábærar greinar hjá þér. En ég er með eina ábendingu. Þú mættir setja hlekki á hinar greinarnar í lokin og gera það við hinar greinarnar líka.

    Posted by: Þórður Ingvarsson | 19.08.2011 | 13:15:29

    ——————————————–

    Þakka þér fyrir ábendinguna Þórður (og lofsamlega umsögn.) Ég er búin að setja inn tengla og mun einnig birta þá með síðari greinum í þessum flokki.

    Posted by: Eva | 19.08.2011 | 17:11:24

    ——————————————–

    Af hverju „önnur kynslóð innflytjenda“?

    Af hverju ekki „fyrsta kynslóð Dana/Svía/Norðmanna“?

    Posted by: anna | 19.08.2011 | 18:25:01

    ——————————————–

    Góð ábending Anna. Sú venja að tala um aðra kynslóð innflytjenda afhjúpar ákveðnar hugmyndir sem vissullega bera keim af kynþáttahyggju. Það er í raun réttara að tala um fyrstu kynslóð íbúar nýrra heimkynna því börn sem fæðast í landinu eru ekki innflytjendur þótt foreldrar þeirra séu það og myndu i mörgum tilfellum falla verr að samfélaginu sem foreldrar þeirra ólust upp í.

    Posted by: Eva | 19.08.2011 | 18:47:37

    ——————————————–

    Sammála Þórði – þetta eru frábærar greinar hjá þér.

    Velti einu fyrir mér. Orðið kynþáttahatari truflar mig að einu leyti – er rétt að tala um að þeir sem eru á móti blöndun séu kynþáttahatarar ef þeir hygla eigin kynþátt? Veit svo sem ekki um neitt betra orð – bara vangaveltur.

    Posted by: Guðrún C. Emilsdóttir | 21.08.2011 | 21:14:25

    ——————————————–

    Góð grein hjá þér Eva. Þú talar um fráhverfingu (alientation). Norðmenn og Danir eiga orð sem mér finnst lýsa vandanum betur hjá annarri kynslóð innflytjenda: identitetskrise. Því miður eigum við Íslendingar ekkert orð sem nær þessu.

    Posted by: Jakob Bragi Hannesson | 22.08.2011 | 0:15:40

Lokað er á athugasemdir.