Hvurslags eiginlega fréttamennska …

… er þetta?

Kosningasigur Hamas er sumsé ástæðan fyrir fjárskortinum!

Hér með leiðréttist; ástæðurnar fyrir fjárskortinum eru:
a) Ísraelsmenn hafa neitað að skila lýðræðislega kjörinni heimastjórn Palestínumanna skatttekjum. Á íslensku heitir það þjófnaður.
b) Vestræn ríki hafa hætt fjárstuðningi við þessa undirokuðu þjóð (sem er algerlega háð utanaðkomandi stuðningi), til að refsa henni fyrir að kjósa sér stjórn sem er þeim ekki að skapi. Á íslensku heitir það kúgunaraðgerðir.

Ég er ekki hrifin af aðferðum Hamas. Ég hef forsendur til að vera það ekki því ég bý við þá lúxusaðstöðu að hafa alist upp í samfélagi þar sem þykir almennt æskilegt að leysa ágreiningsmál án ofbeldis. Ég hef aldrei lifað undir ógn herveldis sem er staðráðið í að svelta mig til bana. Ég er ekki hrifin af sjálfsmorðsárásum. Þær eru ekki geðslegar, þær eru heldur ekki rökréttar. (Eins og eitthvað sér rökrétt í lífi Palestínumanns í dag) Ég get hinsvegar vel skilið að fjölskyldufaðir sem á ekki lengur heimili af því að fólk sem nýtur verndar hers og lögreglu henti fjölskyldunni út, kemst ekki í vinnuna af því að búið er að reisa 8 metra háan múrvegg utan um hverfið þar sem hann býr, horfir upp á börnin sín grýtt á leiðinni í skólann og á á hættu að lenda í fangelsi ef hann reynir að hrindra það, og þarf að standa í margra klukkustunda argaþrasi til að komast yfrir vegatálma svo fáveik koma hans fái læknishjálp, sjái ekki annan kost vænlegri en að gefa herskáum stjórnmálaflokkið tækifæri. Ekki tókst hinum hófsama Yesser Arafat að binda endi á landránið.

Vesturlandabúar, sem hafa ekki döngun í sér til að skamma Ísraela fyrir vel lukkað þjóðarmorð, hvað þá meir, telja sig hinsvegar nógu merkilega til að sýna vandlætingu þegar hersetin þjóð rís gegn útrýmingarherferð á hendur sér og ekki nóg með þann subbuskap heldur tala fréttamenn virtra fjölmiðla eins og Hamas beri ábyrgð á fátæktinni.

Ég kann ekkert fuss sem lýsir hneykslun minni en vona að fréttamaðurinn sem skrifaði þetta fái bæði niðurgang og nábít.

 

Share to Facebook

1 thought on “Hvurslags eiginlega fréttamennska …

 1. —————————-

  Eva, takandi sjéns á bæði nábít og steinsmugu þá verð ég að segja að þó mér finnist hegðun Ísraelsmanna gagnvart Palestínumönnum viðurstyggileg þá er erfitt að átelja þá fyrir að útvega ekki ríkisstjórn fé sem hefur það markmið að útrýma Ísrael og íbúum þess. Mundir þú útvega þínum versta óvin fé og þar með vopn til að vinna þér mein ?

  Posted by: Guðjón Viðar | 30.03.2007 | 19:32:11

  —————————————

  Það kemur mér ekki á óvart að sjá fávíslega athugasemd frá þér Guðjón en þú slærð sjálfum þér út í bullinu í þetta sinni. Ísrael „útvegar“ Palestínumönnum ekki fé. Þetta eru skatttekjur Palestínumanna sem hernámsþjóðinni ber að skila til lýðræðislegra kjörinna stjórnvalda.

  Eina þjóðin sem hefur bolmagn til að útrýma Ísraelsmönnum eru þeir sjálfir. Ísraelsmenn eru að fremja þjóðarmorð á Palestínumönnum, það er augljóst markmið þeirra að ná allri Palestínu undir sig og þeir geta ekki búist við öðru en að fólk sem býr við stöðuga kúgun og mannréttindabrot reyni að verja sig.

  Posted by: Eva | 30.03.2007 | 21:31:49

  —————————————

  Thad ma einnig benda a ad frettamadurinn sem skrifadi thetta thunnildi helt tvi fram ad mannvirki a Gaza saeu vesturbakkanum (sem er hinu megin i landinu) fyrir vatni. Einhvern veginn dreg eg thad i efa.

  Posted by: Haukur | 30.03.2007 | 21:35:43

  —————————————

  Eva, það er vitað að ég mæli eins og ég hef vit til (augljóslega ekki mikið) en ertu að leggja til að Ísrael greiði þetta skattfé til lýðræðislegra kjörina stjórnvalda sem hafa það að opinberri stefnu að tortíma Ísrael. Finnst þér líklegt að það gerist ?

  Posted by: Guðjón Viðar | 30.03.2007 | 22:29:11

  —————————————

  Nei mér finnst ekki líklegt að það gerist. Ekki frekar en að Vesturlandabúar skipti sér af þeirri óhæfu sem Ísraelsmenn vinna þessari þjóð sem þeir hertóku með stuðningi Bandaríkjamanna.

  Ég vildi samt sjá að mannréttindi (þ.m.t. réttur þjóðar til eigin skattfjár) verði virt.

  Posted by: Eva | 30.03.2007 | 23:36:23

  —————————————

  Fyrir nú utan það að orðalagið „að tortíma Ísrael“ eða „útrýma“ er óafsakanlega villandi. Hamas samtökin vilja afmá Ísraelsríki af landakortinu, að sjálfsögðu á þeirri forsendu að það sé óhæfa að önnur þjóð geti flutt inn óboðin, yfirtekið stór landsvæði og stofnað sitt eigið ríki. Ég hef hinsvegar ekki heyrt neinsstaðar nema hjá Zionistum að Hamas hafi hugsað sér að útrýma Gyðingum.

  Posted by: Eva | 31.03.2007 | 19:33:26

Lokað er á athugasemdir.