Hversvegna beinar aðgerðir?

crane high contrastredVegna þess minn mæti, að meirihlutinn hefur ekki endilega rétt fyrir sér.

Ef meirihlutinn hefði alltaf fengið að ráða, og ef minnihlutinn hefði alltaf farið að lögum, þá hefði aldrei orðið neitt þrælastríð. Indverjar hefðu aldrei risið gegn Bretum. Íslenskir verkamenn hangandi á horriminni hefðu sætt sig við 30% launalækkun í stað þess að berja kúgara sína með stólfótum fyrir utan Gúttó. Konur hefðu ekki kosningarétt, trúfrelsi væri óþekkt, verkalýðsfélög væru ekki til og flokkseinveldi væri skilgreint sem lýðræði. Gullfoss hefði þegar verið virkjaður og ég hefði verið brennd á báli fyrir trúvillu um það leyti sem þið bekkjarsystkinin mín fermdust.

Það sem er athugavert við mótmælaaðferðir Íslendinga er helst það að þær eru of kurteislegar til að skila nokkrum árangri. Herstöðvaandstæðingar mótmæltu hófsamlega, með labbitúrum, mótmælaspjöldum og fjöldasöng í 55 ár. Árangurinn var nákvæmlega enginn. Enn hef ég ekki séð eða heyrt eitt orð sem bendir til þess að nokkur kjaftur í ríkisstjórninni sé opinn fyrir tillögu Ómars Ragnarssonar um þjóðarsátt. Umræður skila engu. Rök skila engu. Friðsamleg mótmæli skila engu.

Múgurinn er nánast heiladauður af þeirri gnægð brauðs og leika sem honum er tryggður. Hann myndi vissulega vakna ef öllum pizzastöðum yrði lokað á einu bretti og skrúfað fyrir alla „raunveruleikaþætti“ um leið. Hinn raunverulegi raunveruleiki snertir hann hinsvegar ekki. Ekki á meðan þessum frumþörfum hans er fullnægt.

Það er verið að eyðileggja jörðina okkar. Þeir sem eru ábyrgir fyrir því hafa nöfn og kennitölur og við vitum hvar þeir búa. Það sem okkur vantar er ekki hlýðni við yfirvöld heldur röggsamur meindýraeyðir.

Share to Facebook