Hvernig skal uppræta Islam

Í umræðunni um innflytjendur og flóttafólk heyrast æ oftar fullyrðingar um „Islamsvæðingu“ Evrópu, að múslímar séu að yfirtaka álfuna, innleiða Sharía lög og kollvarpa menningunni og vestrænum gildum. Hugmyndin um opnun landamæra þykir fullkomin brjálsemi, þótt enginn hafi stungið upp á því að það verði gert öðruvísi en í samstarfi ríkja og með rækilegum undirbúningi og alveg sama þótt maður bendi á að þvert á allar dómsdagsspárnar hefur samstarf ríkja um greiðari fólksflutninga innan Evrópu ekki valdið neinum hörmungum. Litháísk glæpagengi hafa ekki yfirtekið borgarstjórn Reykjavíkur og konur verða ennþá helst fyrir kynferðisbrotum af hálfu vina sinna og vinnufélaga, óháð þjóðerni þeirra. Austur Evrópubúar eru ekki lengur svo skelfilegir, nú eru það múslímar sem þarf að halda í óviðunandi aðstæðum, því Islamsvæðingin hræðilega er alveg að ríða okkur á slig.

 

Meint Islamsvæðing

Hvernig í ósköpunum birtist svo öll þessi Islamsvæðing? Eru Danir hættir að borða svínakjöt? Eru Þjóðverjar hættir að drekka? Eru Bretar búnir að panna Gay Pride? Ganga franskar konur í búrku? Eru Hollendingar farnir að taka ákvörðun um hjónabönd barna sinna? Hafa Svisslendingar tekið upp kynjaskipta sætaskipan á opinberum viðburðum? Láta Ítalir heiðursdráp óátalin? Stefna Svíar að því að afnema jafnrétti kynjanna?

Nei, það eru engin slík áhrif merkjanleg í Evrópu og ekkert sem bendir til þess að vestræn gildi séu á neinu undanhaldi. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur m.a.s. staðfest að Sharía lög séu ósamrýmanleg Mannréttindasáttmála Evrópu og viðurkennt rétt ríkja til að banna starfsemi stjórnmálaflokka sem aðhyllast heilagt stríð. Eina „Islamsvæðingin“ felst í því að Evrópubúar þurfa að þola það að sjá einstaka konu með slæðu bregða fyrir á almannafæri. Einu menningaráhrif Mið Austurlanda birtast í kebabstöðum og litlum búðum sem selja ódýr verkfæri, búsáhöld og ritföng.

Myndin sýnir menningarástandið eftir Islamsvæðingu Evrópskrar stórborgar.  Finnst ykkur þetta ekki ferlegt?

 

Takmörkun tjáningarfrelsis

Að vísu hefur aukinn fjöldi innflytjenda frá Arabaríkjum og Afríku haft neikvæð áhrif á einu sviði. Mörg ríki hafa leynt eða ljóst takmarkað tjáningarfrelsi til þess að þóknast múslímum. Það er samt engin „Islamsvæðing“ heldur algerlega í stíl við þá stefnu nokkurra Evrópuríka að banna fólki að tjá efasemdir um að allt sem sagt hefur verið um Helförina standist skoðun. Ótti stjórnvalda við að umræða sem særir minnihlutahópa fari út í ofsóknir er ekkert bundin við Islam en þessi árin er barátta gegn múslímahatri að taka slæma stefnu. Að minnsta kosti í Austurríki, Þýskalandi og Bretlandi hafa guðlastslög og lög sem ætlað er að sporna gegn hatursorðræðu stundum verið túlkuð á þann veg að ekki megi segja neitt sem líklegt er að styggi minnihlutahópa. Bæði stjórnvöld og ákæruvald í þessum ríkjum hafa tekið þátt í þessari vitleysu og í nokkrum tilvikum hafa dómstólar staðfest þá túlkun að ekki megi særa trúarkennd múslíma með því að gagnrýna Islam.

Þeir sem eru fylgjandi þessari stefnu halda því gjarnan fram að kvennakúgun, heiðursdráp, barnabrúðkaup, ómannúðlegar refsingar, gyðingahatur, heilagt stríð og hryðjuverk í nafni Allah hafi „ekkert með Islam að gera“ og þessvegna felist múslímahatur í því að kenna Islam um þessa þætti menningarinnar. Það er auðvitað fráleitt að skýr fyrirmæli trúarrita, túlkun kennimanna á þeim og hefðir sem eru réttlættar með trúnni hafi ekkert með Islam að gera. Og ef svo væri þá væri nær að leiðrétta villuna en að reyna að þagga niður gagnrýnisraddir. Þeir sem óttast Islamisma hafa ekki áhuga á því hvort Múhammeð meinti það sem hann sagði eða eitthvað allt annað, heldur því hvernig trúnni er framfylgt í reynd. Þessi hneigð í átt að banni við gagnrýni á trúarbrögð er ógnvænleg en þar er við yfirvöld að sakast en ekki múslíma. Það er svo undir almenningi og fjölmiðlum komið að sýna stjórnmálamönnum fram á að ástæðulitlar takamarkanir á tjáningarfrelsi verði ekki umbornar. Og það verður að gerast því lýðræði þrífst ekki án tjáningarfrelsis.

Mótmæli vegna Múhammedsmynda Jótlandspóstsins.
Ekkert með Islam að gera?

 

Líklegt er að óttinn við hefndaraðgerðir öfgamanna hafi ýtt undir þá stefnu að þagga niður gagnrýni á Islam. Að verulegu leyti eru þetta líka áhrif frá þeim sem berjast gegn félagslegu óréttlæti með persónulegum árásum á þá sem eru þeim ósammála. Ekki aðeins með reiði gagnvart þeim sem hatast út í innflytjendur og taka ekki rökum, heldur einnig með heilagri vandlætingu í garð hvers þess sem sýnir merki um vanþekkingu eða hefur eðlilegar áhyggjur af því að fjöldi innfytjenda hafi vandamál í för með sér. Ég skil það vel og er hreint ekki saklaus af því sjálf að bregðast harkalega við af litlu tilefni en það er ekki skynsamleg aðferð til að vinna gegn fordómum að þagga niður í þeim sem vilja harða innflytjendastefnu og það getur vel haft öfug áhrif.

Hvorki óttinn við ofbeldi Islamista né þöggunartaktík „góða fólksins“ (sem er í alvöru frekar gott fólk) ætti að hafa áhrif á löggjöf, stefnu stjórnvalda eða túlkun laga, enda getur það á skömmum tíma stuðlað að ritskoðun og afnámi fjölmiðlafrelsis. Það er ekki bara sjálfsagður réttur borgara í lýðræðisríki að gagnrýna Islam rétt eins og önnur trúarbrögð, heldur er brýn þörf á því. Ekki vegna meintrar Islamsvæðingar Evrópu, heldur vegna þeirra tuga milljóna manns sem búa við þá kúgun og ofbeldi sem þessi ógeðfelldu trúarbrögð ala af sér.

 

Líkleg áhrif opinna landamæra

Sú hugmynd að það verði að sporna gegn innflutningi múslíma til Evrópu vegna Islamsvæðingar og/eða vegna hryðjuverkaógnar bendir til hugsanavillu. Múslímar eru nú þegar í Evrópu í milljónatali og því meiri óvild sem þeir mæta, því líklegra er að börn þeirra alist upp í hatri á vestrænni menningu og tileinki sér hættulega trúartúlkun. Eina leiðin til að sporna gegn „radikaliseringu“ er sú að hætta að jaðarsetja áhættuhópinn. Og því fleiri sem alast upp við þá skoðanakúgun sem viðgengst í flestum ef ekki öllum ríkjum þar sem múslímar eru í meirihluta, því meiri líkur eru á að Islamska ríkið eða sambærilegir hópar nái útbreiðslu.

Það er engin ástæða til að óttast að opnun landamæra yrði til þess að múslíma myndu yfirtaka Evrópu og innleiða Sharía lög. Langflestir múslímar eru friðsamt fólk sem í mörgum tilvikum fellst á mildari og nútímalegri túlkun trúarritanna þegar það loksins fær tækifæri til þess, rétt eins og kristnir menn hafa gert. Það skiptir ekki máli þótt Múhammeð spámaður hafi skipað sínu fólki að drepa trúvillinga. Biblían fyrirskipar ofsóknir gegn hommum en kristnu fólki tekst samt að líta svo á að þau skilaboð séu úrelt. Múslímar eru ekkert örðuvísi innréttaðir. Fólk fær hinsvegar ekki raunhæf tækifæri til þess að tileinka sér nýjan skilning á trúnni á meðan það býr við harðstjórn og miklar takmarkanir á tjáningarfrelsi. Því síður á múslími sem í reynd er genginn af trúnni möguleika á því að tala opinskátt um trúleysi sitt nema hann búi í lýðræðisríki. Fólk sem þjáist undir bókstafstúlkun á Islam verður að eiga kost á því að setjast að þar sem skoðanir þess njóta verndar. Auðvitað myndu öfgamenn slæðast með en hvort er líklegra að snarbrjálaður jihadisti komist upp með manndráp í Pakistan eða Noregi? Og hversvegna er betra að hann drepi Araba en Norðurlandabúa?

Það gleymist oft í umræðunni að helstu
fórnarlömb Islamista eru Múslimar

 

Reyndar eru Vesturlönd lítt aðlaðandi í augum Islamista og það mætti vel undirstrika það – einmitt með því að hvika hvergi frá viðhorfum sem spretta af virðingu fyrir mannréttindum og lýðræði og gera sömu kröfur til innflytjenda og innfæddra.

Fær bókstafstrúarmaður sem vill flytja til Íslands upplýsingar um að skólakerfið muni ala börnin hans upp við þá skoðun að samkynhneigð sé í fínu lagi? Veit hann að ef hann beitir barsmíðum sem uppeldisaðferð getur hann átt von á afskiptum yfirvalda? Fær hann upplýsingar um það að ef yfirmaður hans er kona þá verði hann að sýna henni nákvæmlega sömu hlýðni og virðingu og karlkyns yfirmanni? Er einhver sem segir honum að það sé ólöglegt að hafa mök við konuna sína gegn vilja hennar og að „vernda“ hana með því að hindra hana í að fara út fylgdarlaust og að ef hún vilji skilja við hann þá geti hún fengið alla aðstoð sem hún þarf til þess? Veit hann að það gilda engin guðlastslög í landinu lengur? Fær hann upplýsingar um að börnin hans þurfi að fara í sundtíma með krökkum af báðum kynjum? Er honum sagt að ef dóttir hans verður ólétt þá geti hún keypt pillu í næsta apóteki og að enginn muni segja honum frá því? Veit hann að þeir sem aðhyllast „fjölmenningu“ eiga yfirleitt við að þeim finnist klæðaburður annarra ekki koma þeim við og þykir bara fínt eiga kost á að því að borða falafel og sækja námskeið í magadansi, en hafna því hinsvegar með öllu að það geti verið réttlætanlegt að refsa fólki fyrir skírlífisbrot eða takmarka sönnunargildi vitnisburðar fyrir dómi á grundvelli kyns? Ætli séu í alvöru mjög margir öfgamenn sem hafa áhuga á að setjast að í svo guðlausu samfélagi?

Múslímar í Kanada mótmæla kynfræðslu í skólum.
Viðbrögðin minna óneitanlega á hugmyndir hlustenda
Útvarps Sögu um markmið kynfræðslu.

 

Hvers vegna ekki að prófa?

Hvernig væri nú að afleggja bæði þann tepruskap gagnvart ofbeldismenningu sem afhjúpast í afneitun og fegrunartilburðum róttæks vinstra fólks og þann fjandskap sem birtist í trúarhatri og kynþáttahyggju þeirra sem eru hvað lengst til hægri? Hvernig væri að opna landamæri Evrópu, hafa algerlega á hreinu hverjir skilmálarnir eru, láta fólk í friði með sína trúariðkun að svo miklu leyti sem hún samræmist lögum en hafna með öllu siðum sem ekki standast ákvæði mannréttindasáttmála og grundvallarreglur réttarríkis og lýðræðis? Ala börn innflytjenda upp við vinsemd og virðingu af hálfu skóla og samfélags, auka tækifæri þeirra til þátttöku og veita þeim sérstaka vernd sem rísa gegn kúgun af hálfu fjölskyldu sinnar og trúfélags. Sennilega myndi sú stefna draga verulega úr löngun öfgamanna til að setjast að í Evrópu en um leið auðvelda aðgengi þeirra sem vilja losna undan harðstjórn. Ég er ekki að segja að þetta yrði auðvelt en ef innflytjendastefna sem frá árinu 2014 hefur orðið á átjánda þúsund manns að bana (og þá erum við bara að tala um Miðjarðarhafið) er auðvelda leiðin er það þá skýringin sem við ætlum að gefa kynslóðum framtíðar – „ja það var bara einfaldast að drekkja þeim“?

Nei, ég held ekki að það sé hægt að uppræta Islam algerlega en ég held að það sé mögulegt að gera Islam jafn merkingarlaust og meinlítið og það afbrigði kristinnar trúar sem íslenska Þjóðkirkjan hefur fallist á í verki. Trúarbrögð sem eru lítið annað en umgjörð utan um athafnir og farvegur fyrir þörf mannskepnunnar fyrir persónudýrkun og trú á eitthvað yfirskilvitlegt. Eina siðlega leiðin til þess að sporna gegn útbreiðslu Islamsks trúarofstækis er sú að opna landamæri vestrænna ríkja, tryggja þar með gott upplýsingaflæði milli menningarsvæða og veita „villutrúarfólki“ möguleika á vernd. Það þarf að afleggja mismunun gagnvart múslímum en gera um leið sömu kröfur til þeirra og annarra borgara. Umfram allt þurfum við að vernda þá sem fæddust inn í ógnarveldi Islams en ganga af trúnni eða taka aðra trú, til að koma út úr skápnum. Og ekki síður þarf að styðja þá umbótasinna í hópi múslíma sem í stað þess að afneita skuggahliðum Islams líta á spámanninn sem barns síns tíma, og hafna þeim versum Kóransins sem hvetja til ofbeldis og grimmdar.

Ayaan Hirsi Ali er trúleysingi sem ólst upp við Islam.
Hún berst fyrir umbótum á Islam.

 

Share to Facebook