Hvað merkir orðið velferðarkerfi?

Eftir umræðuna um atvinnuleysi á facebook í gærkvöld, get ég ekki orða bundist. Það er engu líkara en að fólk skilji ekki hvað orðið velferðarkerfi merkir. Þeir eru jafnvel til sem tala með fyrirlitningu um Norræna velferðarkerfið og benda á að það sé ekki hægt að reka velferðarkerfi nema mylja undir stóriðju. Á fb síðu Heiðu B. Heiðars tjáir sig fólk sem telur að vandi atvinnulausra geti fyrst og fremst skrifast á þá sem misnota bótakerfið.

Án þess að ég ætli neitt að gera lítið úr því álagi sem fylgir fjárhagserfiðleikum, þá snýst velferðarkerfi ekki bara um bætur og niðurgreiðslur. Velferðarkerfi snýst um að skapa þær aðstæður sem þarf til að fólki líði vel. Það krefst útgjalda en þegar upp er staðið sparar það peninga að hafa sem hæst hlutfall af heilbrigðu, virku og hamingjusömu fólki, þessvegna er velferðarkerfi ekki bara mannúðarmál, heldur líka hagkvæmt.

Langvarandi atvinnuleysi hefur ekki bara fjárhagserfiðleika í för með sér, það er langtum alvarlegra en svo. Þegar maður hefur á tilfinningunni að hann sé eingöngu byrði á samfélagi sínu, að enginn hafi þörf fyrir starfskrafta hans og að eini áhugi stjórnvalda á velferð hans snúi að því að halda í honum lífinu, er eðileg afleiðing af því, það sem kallast má lært hjálparleysi. Fólk verður framtakslaust, það missir metnað sinn, sjálfsmat þess verður neikvæðara. Endalaus frítími en engir peningar til að njóta hans á þann hátt sem markaðurinn segir að sé við hæfi og takmarkaður félagsskapur (því allir sem áður töldust jafningar þínir eru í fullri vinnu) auka svo enn á einmanaleikann og eymdina. Þetta ástand getur leitt til alvarlegs þunglyndis, sem aftur er ein af orsökum aukinnar óreglu og glæpastarfsemi.

Þegar stjórnvöld sjá fram á langvarandi atvinnu leysi er nauðsynlegt að koma á einhverskonar atvinnubótavinnu. Laun fyrir vinnu þurfa að vera hærri en atvinnuleysisbætur, jafnvel þótt það séu störf sem ekki eru bráðnauðsynleg til að halda samfélaginu gangandi, vegna þess að fólk sér yfirleitt lítinn tilgang í því að vinna nema það skili því meiri lífsgæðum.

Það er enginn skortur á verkefnum sem einhver þyrfti helst að vinna. Fólk á sjúkrahúsum, elliheimilum, fangelsum og fleiri stofnunum yrði himinlifandi ef einhver kæmi til að sinna félagslegum þörfum þess nokkra klukkutíma á viku. Það hefði sáralítinn aukakostnað í för með sér.

Í ársbyrjun 2009 heyrðust hugmyndir um að atvinnulausir fengju ókeypis aðgang að ýmsum menningarviðburðum sem annars krefjast fjárútláta þegar mörg sæti væru hvort sem er laus. Hvað varð um þær hugmyndir? Það væri velferðarmál sem ekki krefðist stórra útgjalda.

Af hverju geta læknar ekki framvísað þunglyndum, feitum og bakveikum sundskírteini eða aðgangskorti að líkamsræktarstöð í stað lyfja? Það væri velferðarmál.

Af hverju viðgengst það að hús standi auð á sama tíma og hópar af duglegu en skítblönku fólki dreymir um að koma á pólitískri félags- og menningarmiðstöð fyrir almenning? Það er engin slík miðstöð í Reykjavík, Friðarhúsið kemst líklega næst því og margir hópar hafa fengið afnot af því fyrir ákveðin verkefni en það er þörf fyrir miðstöð sem er stöðugt opin og aðgengileg. Það væri velferðarmál að bjóða grasrótarhreyfingum afnot af húsum sem standa auð.

Ókeypis strætóferðir fyrir þá sem ekki eiga bíl væru líka bæði umhverfis- og velferðarmál.

Það er eitt af sjúkdómseinkennum frjálshyggjunnar að hugsa velferðarmál fyrst og fremst út frá krónutölu og hvað stóriðjulausnina varðar, bendi ég á að Danir eiga engar auðlindir en halda samt uppi velferðarkerfi sem stendur hinu íslenska mun framar.

Share to Facebook

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.