Hólmsteinn, lækin og feministarnir

hhg

Kæri Hannes Hólmsteinn

Ég fyrirlít sumar pólitískar skoðanir þínar. Það er ekkert persónulegt. Ef ég sæi þig standa við stöðumæli og snúa vösunum út, myndi ég rétta þér tíkall. Ég fyrirlít samt brauðmolakenninguna, hugmyndina um einkavæðingu auðlinda, stóriðjustefnu og margt fleira sem pilsfaldakapítalistar boða.

Það er algengt að fólk yfirfæri óbeit sína á boðskap yfir á persónur og ég efast ekki um að til sé fólk sem hatar þig en í þessu tilviki er afstaðan til hlutverks Ríkisútvarpsins miklu nærtækari skýring á viðbrögðunum sem þú bendir á í pistli þínum.

Í fyrsta lagi segir þú ekkert í þessu viðtali sem lýsir sérfræðiþekkingu á bandarískum stjórnmálum. Eins og svo oft áður notaðir þú tækifærið til að stunda pólitískt trúboð og monta þig af kynnum þínum við áhrifamenn. Við því mátti búast  og þessvegna er það ósmekklegt af fréttaskýringaþætti á vegum Ríkisútvarpsins að fá þig sem viðmælanda. Spurningin „Af hverju er Hannes Hólmsteinn í útvarpinu mínu?“ af hálfu manneskju sem telur hlutverk Ríkisútvarpsins ekki vera það að sinna pólitískum áróðri á því fullan rétt á sér, og kvartanir Jóns Þórissonar líka.

Í öðru lagi þá ert þú ekki einu sinni sérfræðingur í bandarískum stjórnmálum Hólmsteinn minn. Í nótt svaraðir þú ummælum mínum á facebook, þess efnis að þú værir enginn fræðimaður, með upptalningu af ritum. Bókum sem eru kannski ágæt afþreying en hafa ekki staðist neina ritrýni og eru ekkert merkilegri fræði en lofrollur þínar um Davíð Oddsson. Eflaust veistu mikið um bandarísk stjórnmál en ég hef aldrei heyrt neitt frá þér sem bendir til þess að þú hafir djúpan skilning á þeim. Spegillinn hefði alveg eins getað boðið t.d. Silju Báru Ómarsdóttur eða Magnúsi Sveini Helgasyni að kynna pólitískar skoðanir sínar í krafti sérfræðiþekkingar og vel má vera að það hafi hann einhverntíma gert. En Ríkisútvarpið ætti ekki að vinna þannig.

Þessi umræða sem þú vísar til og öll „lækin“ eru miklu frekar viðbrögð við þeirri áráttu íslenskra fjölmiðla að kynna persónulegar skoðanir  stjórnmálafræðinga sem vísindi, en að þau séu merki um persónulega óvild vinstri manna gagnvart þér.

Sá ósiður að gefa pólitískum öfgastefnum vægi með því að kynna boðbera þeirra sem einhverskonar kennivald, á ekki aðeins við um snudd fjölmiðla utan í  stjórnmálafræðinga. Það er líka algengt að klámpostular séu fengnir til viðtals og kynntir sem sérfræðingar. Þó er „þekking“ þeirra fyrst og fremst pólitískt uppeldi sem fram fer í HÍ undir yfirskini „kynjafræði“,  þ.e. (samkvæmt Þorgerði Einarsdóttur) „akademískur feminismi“, m.ö.o. pólitísk stefna, dulbúin sem fræði.  Það er áhugavert að þú átt það einmitt sameiginlegt með feministum að bregðast við umræðu sem þér líkar ekki með því að túlka ummælin og „lækin“ sem merki um heift og hatur. Í staðinn ættirðu kannski að leggjast undir feld og velta því fyrir þér hvað það er í þínum málflutningi sem veldur því að fólki finnst óboðlegt að Ríkisútvarpið leiti álits þíns.

Share to Facebook