Handa Kúrekanum

Útsendarar Friðriks eru byrjaðir að bora upp við Kröflu. Í leyfisleysi auðvitað, það er víst hefð fyrir því. Yfirvöld gera ekkert í málinu (það er líka hefð fyrir því) en ef ég fer á staðinn og reyni að stoppa þessa ósvinnu, verð ég dregin fyrir dómsstóla. Þannig er nú siðferðið í þessu bananalýðveldi. Ég þarf að kasta galdri. Vona að hann beri þann árangur að Friðrik fái bæði flatlús og njálg.

 Um helgina hitti ég forreiðan kúreka sem krafði mig svara um það hversvegna Saving Iceland hefði ekki komið til skjalanna fyrr. Með hávaða, og lamdi í bakið á bílsætinu þar sem hann hafði ekkert borð að berja í. Reyndar grunar mig að reiði hans beinist ekki gegn seinum viðbrögðum Saving Iceland heldur gegn tilvist þeirrar hreyfingar. Kúrekinn var of drukkinn og reiður til að hægt væri að halda uppi vitrænni umræðu og þótt ég hefði viljað svara honum hefði ég ekki komist að. Ég lofaði að svara þessu við betri aðstæður. Vessgú góði og takk fyrir síðast.

Við sem vinnum fyrir Saving Iceland byrjuðum reyndar að berjast gegn stóriðjustefnunni mörgum árum fyrr, flest um leið og umræðan um Eyjabakka hófst, þeir elstu fyrr, þeir yngstu voru ennþá börn. Þegar hópi umhverfissinna sem hafði (ásamt reyndar öllum náttúruverndar- og umhverfissamtökum á Íslandi) staðið í endalausum bréfaskrifum og blaðaskrifum, undirritað áskoranir, komið athugasemdum á framfæri við ráðherra og Landsvirkjun, staðið fyrir skiltaburði og mótmælastöðum, varð ljós eindreginn vilji stjórnvalda til að hundsa aðgerðir af því tagi, sendu þeir út neyðarkall til aktivistahreyfinga í Evrópu og báðu um liðsauka í aðgerðir sem ekki væri eins auðvelt að horfa framhjá. Þeir sem svöruðu því kalli mynduðu, ásamt þessum íslensku umhverfisverndarsinnum, hreyfingu sem fékk heitið Saving Iceland. Enginn taldi líklegt að aðgerðir Saving Iceland myndu einar og sér duga til að koma í veg fyrir Kárahnjúkavirkjun. Hinsvegar tókst að rífa umræðuna upp aftur og það er ekki eins og hreyfinguna skorti verkefni..

Ef öll áform um ný álver og stækkanir ná fram að ganga verðum við komin minnst 100% fram úr mengunarkvótanum (eins og hann er í dag, stefnan er sú að hann fari minnkandi) árið 2012. Ég er ekki til í að segja barnabörnunum mínum að ég hafi setið aðgerðalaus á meðan Friðrik og félagar gerðu það mögulegt með því að eyðileggja flestar náttúruperlur landsins. Kallaðu það öfgar ef þú vilt, ég tek órökstudda sleggjudóma síður en svo nærri mér og hef enn ekki heyrt nein rök fyrir því hversvegna það ætti að flokkast sem öfgar að reyna að stöðva þá lögleysu sem Landsvirkjun og álfyrirtækin komast upp með.

Ég vildi að ég gæti séð það sem fer fram í höfðum þeirra sem tekst að horfa fram hjá fílnum sem æðir yfir skóginn en kalla maurinn Emil öfgamann. Það hlýtur að vera mjög athyglisvert ferli sem leiðir til þeirrar niðurstöðu.

 

 

Share to Facebook

One thought on “Handa Kúrekanum

  1. Ég sagði Kúrekanum frá svarinu ; ) Hann hló mikið og ég held hann hafi haft gaman að fá svarið, kannski hann vilji ræða þetta betur?

    Posted by: Pegasus | 1.10.2007 | 20:32:03

Lokað er á athugasemdir.