Gullauga þjóðarinnar

bessastadir-688x451
Forsetinn á að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Tákn um það sem við getum öll sameinast um. Eins og við sameinuðumst um Kristján Eldjárn, eða a.m.k. þessi 65% sem kusu hann. Alveg eins og 34% þjóðarinnar sameinuðust um Vigdísi Finnbogadóttur. Þau voru tákn sameiningar þessi tvö. alveg eins og aðrir þjóðhöfðingjar og þjóðarleiðtogar. T.d. Pútín og Margrét Danadrottning. Að maður tali nú ekki um Obama. Hver hefur ekki horft á Obama og hugsað með sér; svona, já einmitt svona eru Bandaríkjamenn, ein þjóð með eitt markmið, ein þjóð sem sameinast í þessum dæmigerða Bandaríkjamanni?

Við Íslendingar erum sameinuð þjóð. Við höfum sameinast um þá skoðun að Jónas Hallgrímsson sé mesta skáld sem uppi hefur verið og Björk mest tónskálda, að kæstur hákarl sé herramannsmatur  og að lopapeysur séu einstaklega þægilegar. Öllum finnst okkur gaman að ganga á fjöll og dansa gömlu dansana á þorrablótum. Við erum sammála um að það sé fallegt að klappa öryrkjum, útlendingum og gamla fólkinu en hóflega þó svo aumingjagæskan raski ekki hagsmunum auðmanna og atvinnurekenda, sem við erum einnig sammála um að séu okkar helstu bjargvættir og hetjur. Við aðhyllumst ein trúarbrögð og eina stjórnmálastefnu. Okkur þykir vænt um þjóðfánann, forsetann, Kárahnjúkavirkjun og Gullfoss – Íslendingar borða SS pylsur.

Eða ekki. Ef þessi klisja um sameiningartákn þjóðarinnar hefði einhverja merkingu lægi beinast við að kjósa karlalandsliðið í fótbolta á Bessastaði. Það skapaðist í það minnsta nokkuð víðtæk samstaða um fagnaðarlæti og sigurvímu þegar liðið skoraði mark sem tryggði því sæti á EM. Sem er auðvitað afrek út af fyrir sig þótt kvennalandsliðið hafi náð sama árangri fyrir langa löngu.

Þegar nánar er að gáð erum við ekkert svo ofboðslega sameinuð. Það er náttúrulega þessvegna sem við þurfum forseta sem er sameiningartákn. Til þess að telja okkur og alheiminum trú um að við séum sameinuð enda þótt við séum það ekki. Það er nefnilega mikilvægt að þjóð sé sameinuð eða líti a.m.k. út fyrir að vera það. Að vísu virðist enginn vita hvað það er sem þjóðin á að sameinast um, hvað þá hver eigi að velja þau viðhorf, siði eða hátterni sem við sameinumst um, hvorki þjóðin sjálf (enda næsta ólíklegt að hún gæti komið sér saman um það) né heldur sá sægur frambjóðenda sem vill endilega taka að sér að vera tákn um meinta sameiningu.

Þrátt fyrir þessa sameiningarmöntru virðist engum blaðamanni hafa dottið í hug að leita skýringa þeirra forsetaframbjóðenda sem telja sig sérlega heppileg sameiningartákn á því hvern fjandann það merkir eiginlega; hversvegna við ættum endilega að vera sameinuð og um hvað. Mér segir svo hugur um að fátt hefði orðið um bitastæð svör enda er þetta með sameiningartáknið merkingarrýr klisja. Í skásta falli merkir hún að forseti eigi ekki að rugga bátnum. Að Vigdís hafi verið sameiningartákn fremur en Ólafur Ragnar, ekki aðallega af því að hún hlaut afgerandi kosningu þegar hún fékk mótframboð, heldur mun fremur af því að engum var sérstakur ami af henni. Kannski er það það sem Íslendingar eiga að sameinast um; forseti sem er dálítið eins og soðnar kartöflur, kannski ekkert sérstaklega spennandi en óumdeilanlega viðeigandi við öll tækifæri og truflar ekki þá sem eru ekki beinlínis hrifnir af honum?

Kannski er það eitthvað í þá veruna sem fólk á við þegar það talar um sameiningartákn þjóðarinnar og það er þá bara fínt. En verum samt meðvituð um það að frambjóðandi sem ætlar að vera Gullauga þjóðarinnar mun ekki standa gegn ríkisstjórninni þegar stendur til að keyra umdeild lagafrumvörp í gegnum þingið eins og Ólafur Ragnar átti þó til. Hann mun ekki bjóða þeim byrginn sem brjóta gegn mannréttindum, níðast á náttúrunni eða fara illa með dýr, ekki frekar en Ólafur Ragnar eða nokkur forseti á undan honum. Hann mun ekki beita áhrifum sínum í þágu friðar og mannúðar enda hefur þjóðin alls ekkert sameinast um þá skoðun að heimsfriður og mannúð sé neitt eftirsóknarvert. Sennilega erum við öllu nær því að sameinast um að borða vondar kindapylsur með tómatsósu, sinnepi og steiktum lauk.

Gullauga þjóðarinnar mun vera hverri ríkisstjórn jafn þægilegur forseti og Kristján Eldjárn. Hann mun ekki synja ófyrirleitnum forsætisráðherra um þingrof. Hann mun tala um tré og börnin okkar eins og Vigdís, eða kannski hálendið frekar en tré – óheft skógrækt er ekki lengur óumdeild. Kannski mun hann forðast að klappa fyrir fjárglæframönnum eins og Ólafur Ragnar gerði en hann mun ekki, fremur en Ólafur, afþakka boð í snobbveislur með helstu valdníðingum veraldarinnar og öðrum þrívíddardrullusokkum sem jafnan sækja slíkar samkomur. Hann mun ekki segja fálkaorðunefnd að hann ætli ekki að taka að sér að heiðra fólk sem tilheyrir einhverri elítu fyrir það eitt að hafa mætt í vinnuna – eða bara fyrir það eitt að vera til, og hann mun ekki standa með nýju stjórnarskránni eða neinum þeim tillögum sem geta komið illa við útgerðarauðvaldið.

Kannski vill stór hluti þjóðarinnar einmitt svoleiðis forseta. Huggulegan veislustjóra sem ögrar engum og kemur aldrei á óvart og ef Gullauga þjóðarinnar er það sem við viljum þá er enginn skortur á frambjóðendum sem hafa burði til að sinna því hlutverki. En þjóðin er auðvitað ekkert nær því að  sameinast um eitt eða neitt þótt við fáum meinleysislega kartöflu sem forseta.

Share to Facebook