Frábær ósigur

screenshot-2015-05-22-11-29-43-688x451

Ísland komst ekki áfram í Eurovision. Það eru eflaust vonbrigði fyrir þá sem lögðu vinnu í undirbúning og sérstaklega fyrir ungu söngkonuna sem öll athyglin beinist að. En vonbrigði eru hluti af lífinu, maður vinnur bara ekkert alltaf. Flestir vinna aldrei. Í þetta sinn skíttöpuðum við. Eins og Danir. Eins og Finnar. Eins og allir sem komust ekki einu sinni í undanúrslit.  Og vitiði hvað – það er bara allt í lagi. Einhver verður að tapa.

Frábær flutningur?
Viðbrögð fjölmiðla vekja mér kjánahroll.  „María geislaði á sviðinu“ var fyrsta fyrirsögnin sem ég sá eftir að hún flutti lagið. Auðvitað geislaði hún, stúlkan er gullfalleg og gullfallegt fólk, vel til haft og uppábúið, geislar. Þetta snerist hinsvegar um frammistöðu hennar og öllum var ljóst að hún var mjög langt frá því að gera sitt besta. Fjölmiðlar leggja líka mat á flutninginn sjálfan: „Frábær flutningur hjá Maríu“ og þeir blaðamenn sem ekki halda þeirri þvælu fram í eigin nafni hafa hana bara eftir höfundi lagsins í staðinn: „María stóð sig eins og hetja“.

Nei. Þetta var ekkert frábær flutningur hjá henni Maríu. Hann var frekar slappur. Hún stóð sig ekki eins og hetja heldur eins og ósköp mannleg, óreynd og taugaóstyrk hæfileikakona sem náði því ekki að gera sitt besta – í þetta sinn. Það er út af fyrir sig ánægjulegt að fjölmiðlar hafi ekki farið þá leið að slátra henni en það er heldur engin ástæða til að halda því fram að hún hafi verið frábær. Hún hefur nefnilega fullt leyfi til þess að mistakast.

Er alveg hræðilegt að tapa?
Það er gaman að vinna. En keppni er þess eðlis að aðeins örfáir ná þeim árangri sem allir þáttakendur stefna að og í flestum tilvikum segir tap okkur andskotann ekkert annað en það hvernig viðkomandi var fyrirkallaður í nokkrar mínútur eða mesta lagi nokkra klukkutíma af heilli mannsævi. Eiginlega ættum við að ganga út frá því að fulltrúar okkar tapi, láta þeim sjálfum eftir að tjá vonbrigði sín í stað þess að skamma þá, en fagna hinsvegar með þeim þegar gengur vel. Þess í stað erum við búin að gera tap að feimnismáli en ekki sjálfsögðum hlut.  Heilu ráðstefnunar eru haldnar þar sem fyrirlestrar ganga meira og minna út það að við séum öll sigurvegarar. Ef stjórnmálaflokkur tapar í kosningum er hann samt sem áður hinn eiginlegi sigurvegari.  Við höldum íþróttamót fyrir börn þar sem allir keppendur fá verðlaunapening. Þess eru dæmi að skólar falli frá því að heiðra afburðarnemendur af því að það yrði svo leiðinlegt fyrir þá sem ekki ná hámarks árangi.

Við erum farin að líta ósigur sömu augum og fötlun, sjúkdóma og fátækt; eitthvað óréttlátt sem rýrir lífsgæði, eitthvað sem verði að sporna við með öllum ráðum.

Eins gott að halda andlitinu
María tekur ósigrinum vel. Það er skynsamlegt. Ekki bara vegna þess að það er í sjálfu sér góður árangur að standa fyrir framan alheiminn og syngja án þess að deyja úr hræðslu og hún á eftir að fá mörg tækifæri til að gera sitt besta, heldur líka vegna þess að þegar önnur ung kona klikkaði á því, fyrir nokkrum árum, að fagna eigin ósigri, var hún dæmd harðlega, ekki fyrir að vinna ekki, heldur fyrir að sykurhúða ekki vonbrigði sín. Krafan er sú að ef fulltrúar okkar vinna ekki, þá hegði þeir sér að minnsta kosti eins og þeir hafi unnið.

Það er áreiðanlega vel meint að hrósa fólki fyrir frammistöðu sína þegar því mistekst. Það er niðurbjótandi og tilgangslaust að skamma og ásaka. En þegar allt kemur til alls er óverðskuldað hrós aðeins önnur birtingarmynd á þeirri hugmynd að ósigur sé smán. Það er ekki jákvætt viðhorf til ósigurs heldur bara mannúðlegri nálgun.

Share to Facebook