Fjölmiðlafrelsi á tímum kórónunar

Munið þið þegar öryggisleit var hert á flugvöllum og víða um heim sett lög sem heimiluðu stjórnvöldum ýmis inngrip í friðhelgi borgaanna í kjölfar árásanna á tvíburaturnana og Pentagon haustið 2001? Eftir öll þessi ár hefur ekkert verið slakað á öryggiskröfum á flugvöllum. Ráðstafanir sem eru réttlættar með „fordæmalausum tímum“ hafa tilhneigingu til að verða varanlegar.

Ritskoðun vegna veirunnar í Asíu

Alheimurinn veit nú um ofsóknir kínverskra stjórnvalda gegn læknum og blaðamönnum sem reyndu að vekja athygli umheimsins á því að faraldur hefði brotist út og á framgöngu stjórnvalda í baráttunni við veiruna. En það er ekkert bara í Kína sem ber á ritskoðun upplýsinga sem varða krúnufárið. Þessa dagana eru stjórnvöld víða í hinum fátækari hlutum veraldar að þrengja að frelsi fjölmiðla, undir því yfirskini að hefta þurfi falskar fréttir og rangar og villandi upplýsingar í tengslum við kórónuveiruna og áhrif hennar.

Stjórnvöld í Norður Kóreu standa enn fast á því að þar hafi ekkert kórónusmit fundist, en þar er rekin hörð ritskoðunarstefna og vegna krúnusýkinnar er erlendum blaðamönnum meinað aðgengi að landinu.

Á Filipseyjum hafa blaðamenn verið ákærðir fyrir að dreifa fölskum fréttum um kórónuveikina. Undarlegt nokk eru þeir vandræðagripir sem sakaðir eru um falsfréttir tengdar veirunni einmitt þeir sem hafa gagnrýnt stjórnvöld fyrir ógagnsæi og yfirhylmingar.

Í Myanmar hafa vefsíður verið blokkaðar og blaðamenn sætt ofsóknum.

Þetta eru aðeins örfá dæmi um þau höft á upplýsinga- og tjáningarfrelsi sem stjórnvöld í fjarlægum heimshlutum beita og við sem búum við fjölmiðlafrelsi og lýðræði þurfum nú ekkert að hafa áhyggjur af því eða hvað? Eins og skáldið sagði „heimstyrjaldir verða í öðrum löndum“, það sama gildir auðvitað um fasistatilburði.

Vesturlandabúar þurfa að vera vakandi

En nú skulum við vera vakandi og hlusta á allar varúðarbjöllur. Hvað er t.d. í gangi þegar frönsk stjórnvöld gera grein fyrir mannfalli af völdum krúnuveirunnar en telja andlát á hjúkrunarheimilum ekki með? Ekki hefur frést af neinum kúgunaraðgerðum gegn blaðamönnum í Frakklandi en er þetta tilraun til að stýra upplýsingagjöf?

Af hverju er bresku heilbrigðisstarfsfólki uppálagt að vera ekki að tjá sig við fjölmiðla um ástandið á sjúkrahúsum?

Og hvernig stendur á því að áætlaðar tölur sænska ríkisins um fjölda sýktra og látinna eru oftar en ekki lægri en raun ber vitni? Það er ekki verið að leyna upplýsingum í Svíþjóð. Tölur eru leiðréttar eftir á og sænskir fjölmiðlar hafa greinilega aðgang að réttum upplýsingum. En hófsemi sænskra stjórnvalda þegar bráðabirgðatölur eru gefnar út vekur spurningar.

Það er auðvitað verulegur munur á opinberri ritskoðun með tilheyrandi ofsóknum gegn blaðamönnum og því þegar stjórnvöld reyna að koma sér undan því að gefa allar upplýsingar sem skipta máli. En þegar eitthvað virðist bogið við upplýsingagjöf stjórnvalda eða framsetningu hennar þá er eins gott að almenningur og fjölmiðlar haldi vöku sinni, ekki síst ef grunur vaknar um að stjórnvöld séu að reyna að fegra ímynd sína eða ríkisins. Allar tilraunir stjórnvalda til að skammta upplýsingar og stýra umfjöllun kalla á svör og þá er lykilorðið HVERSVEGNA.

Share to Facebook