Eru sex máltíðir á dag töfratrix?

Önnur kenning sem ég hef margrekist á síðustu daga er sú að til þess að grennast sé best að borða oft og lítið í einu. Sex litlar máltíðir á dag, frekar en þrjár stórar. Sjálf borða ég 10 -12 sinnum á dag svona venjulega, (ég borða t.d. ávexti yfirleitt í þremur áföngum) en ef mér finnst ég orðin of feit borða ég ekki nema 3-4 sinnum. Sleppi semsagt kexi, nammi og ávöxtum nema þeir séu hluti af máltíð. Ég lofa því ekki að það virki til þess að léttast mikið en 1-2 kíló fjúka nokkuð auðveldlega með því að borða sjaldnar og sleppa sósum.

Kenningin um sexmáltíðakerfið gengur út frá því að með því að borða oft haldi maður brennslunni stöðugt í gangi og brenni þ.a.l. meiri fitu. Ég er nokkuð viss um að margar litlar máltíðir henta mörgum betur en fáar stórar, einkum þeim sem eru vanir að narta milli mála. Ég á hinsvegar erfitt með að trúa því að þeir sem eru hrifnari af því að innbyrða sama hitaeiningafjölda í færri máltíðum, brenni þeim hægar en hinir. Og nú spyr ég bara:

Ef það að borða oft eykur brennsluna, má þá ekki allt eins gera það með því að fá sér bita af gúrku eða sellerí á hálftíma fresti?

Hvaða rannsóknir sýna fram á að fólk sem borðar oft hafi hraðari brennslu en aðrir?

Share to Facebook