Er endurreisn ferðaþjónustu tímabær?

Á sama tíma og sóttvarnaryfirvöld vara við því að skart verið farið í að aflétta varúðarráðstöfunum vegna kórónufaraldursins, huga fyrirtæki og fjárfestar að endurreisn ferðaþjónustunnar.

Norræna er væntanleg til landsins í vikunni með á þriðja tug farþega. Í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna plágunnar er m.a. að finna fyrirheit um endurbyggingu gamals verslunarhúss sem er í slíkri niðurníðslu að það er varla einu sinni nothæft sem hænsnakofi.

Óljóst er hvernig sú undarlega ráðstöfun á að bjarga Austfirðingum frá efnahags- og/eða félagslegum áhrifum faraldursins. En kannski á að nýta húsnæðið fyrir ferðamenn í sóttkví? Það verður allavega ekki gert í þessari viku svo það þarf enginn að verða hissa þótt komi upp nýsmit á Seyðfirði eða nágrenni.

Iceland Travel hefur þegar hafið herferð þar sem ferðamenn eru hvattir til að koma til Íslands. Tekið er fram að Íslendingar hafi haldið svo vel á málum að nú styttist í að ferðatakmörkunum verði aflétt. Jafnframt á hreinleiki landsins og hreinlæti þjóðarinnar að höfða til ferðamanna. Ástæðan fyrir öllum þessum sundlaugum er sögð sú að Íslendingar séu baðóðir. Jájá það er hreinlæti Íslendinga en ekki gott aðgengi að heitu vatni sem ræður úrslitum um það.

Faxaflóahafnir hafa tekið skipakomur út af dagskrá sinni í apríl og maí en í júní og júlí er reiknað með dúndrandi partíi.

Í gullgrafaraæði síðustu ára gerði víst enginn ráð fyrir því að ferðamannabólan myndi springa eins og aðrar bólur. Allir og amma þeirra fóru út í ferðamannaþjónustu, Vatnajökulsþjóðgarður var farinn að minna meira á skemmtigarð en verndarsvæði og hótel spruttu eins og fíflar á vori. Nú súpum við seyðið af þessum glannagangi og höfum fátt annað í bakhöndinni. Endurreisn ferðaþjónustu virðist eina leiðin út úr kófinu.

En hvað má það kosta? Íslendingar virðast hafa náð tökum á útbreiðslu veirunnar og það trúir því enginn heilvita maður að túristar séu eitthvað ólíklegri en Íslendingar til að skilja eftir sig smit, á hótelum, veitingastöðum og í verslunum – svo maður tali nú ekki um búningsklefa sundlauga.

Ég vorkenni Íslendingum ekkert að hafa þurft að halda sig á mottunni í mars, og apríl hefur ekki verið svo dásamlegur að það sé efni þjóðarsorgar að hafa ekki komist út í slabbið. En það væri ömurlegt, eftir þá samstöðu sem hefur vafalaust átt stóran þátt í þeim góða árangri sem náðst hefur, ef komur ferðamanna verða til þess að landinn þurfi að eyða bestu vikum sumarsins í sóttkví.

Share to Facebook